Google hjálpar þér að rekja slóðina

Gestir og heimamenn, klæddir í samræmi við hefðina, fjölmenna í …
Gestir og heimamenn, klæddir í samræmi við hefðina, fjölmenna í skrúðgöngu í aðdraganda nautahlaupsins í Pamploma. Gamlar borgir Evrópu geta verið eins og völundarhús. AFP

Eins gaman og það er að ráfa um erlendar borgir og villast í völundarhúsi fornra bygginga, þröngra sunda og heillandi torga, þá getur stundum verið erfitt að finna aftur staði sem gaman væri að heimsækja á ný. Hvar var eiginlega sniðuga búðin sem þú gekkst framhjá eftir lokun og langar að skoða betur í dag? Eða veitingastaðurinn þar sem súpan leit svo vel út og þjónarnir í góu skapi? Var það þessi gata, eða sú næsta? Eða kannski þarnæsta? Eða allt annar bæjarhluti?

Ferðaritið Condé Nast Traveler fjallar um sniðuga lausn á þessum vanda í nýlegri grein: að kíkja einfaldlega í staðsetningarsögu Google Maps.

Þó það geti stundum þótt svolítið óþægilegt til þess að vita að bandaríski tæknirisinn fylgist með öllum ferðum okkar, þá hefur Google Maps þann eiginleika að notandi getur skoðað eigin ferðasögu. Eina sem þarf er að opna forritið og finna þar valmöguleikann „timeline“. Er þá hægt að sjá á korti hvaða leið var gengið eða ekið með símann og þannig rekja slóðina.

Ætti þetta að geta sparað óratvísum ferðalöngum töluverða fyrirhöfn, og líka nýtast vel til að rifja upp minningar úr ferðalaginu, eða ef vinur spyr hvort hvaða veitingastað þú mælir með í áhugaverðri borg: frekar en að þurfa að kafa djúpt ofan í leitarvélarnar og reyna að rifja upp nafnið á staðnum er nóg að fletta ferðasögunni upp í Google Maps og finna þannig á augabragði réttu hliðargötuna í Prag eða bakgarðinn í París.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert