Langar raðir vegna flutnings Mónu Lísu

Málverkið heppnaðist vel hjá Leónardó, en það má kannski gera …
Málverkið heppnaðist vel hjá Leónardó, en það má kannski gera skemmtilegri hluti í Louvre en að standa í röð í klukkstund. mbl.is

Stór hluti þeirra sem heimsækja Louvre-listasafnið í París eru bara að leita að einu verki. Þeir rýna í kortin og flækjast frá einum sal til annars þar til hún er fundin: Móna Lísa, með dularfulla brosið.

Þar til nýlega hefur hún fengið gott pláss, með heilan vegg út af fyrir sig, og auðvelt fyrir skarann að skoða meistaraverkið í bak og fyrir. Sumir eru hissa á hvað verkið er smátt; aðrir láta kraðakið fara í taugarnar á sér, og svo eru þeir sem gefa sér góðan tíma til að gaumgæfa hvert smáatriði í fari Mónu.

En nú hefur málverkið verið flutt tímabundið á nýjan stað. Er það gert til að undirbúa nýja sýningu sem opnar í október, í tilefni þess að fimmhundruð ár verða liðin frá andláti ítalska snillingsins sem var svo langt á undan sinni samtíð. Gallinn er sá að nýi staðurinn hentar ekki sérstaklega vel til að taka við þeim liðlega 30.000 manns sem vilja berja Mónu Lísu augum dag hvern og hafa því myndast langar raðir í safninu.

Að sögn Condé Nast Traveller hafa listunnendur þurft að bíða í allt að klukkustund á meðan þeir fikra sig nær striganum, og fá þá ekki nema nokkrar sekúndur til að glápa því öryggisverðir stugga við þeim sem að drolla fyrir framan verkið, og gera það örugglega með allri þeirri hlýju og almennilegheitum sem Parísarbúar eru þekktir fyrir. Kvarta viðmælendur Condé Nast yfir að upplifunin minni meira á færiband en listasafn þar sem andinn gæti fengið að fara á flug.

Þeir sem vilja losna við langar raðir ættu að reyna að heimsækja Louvre síðla dags og eiga stærstu ferðamannahóparnir að vera búnir að hafa sig á brott um kl. 18. Mest er af fólki í kringum Mónu Lísu, og merkilegustu fornminjarnar frá Egyptalandi en rólegra í öðrum sölum hallarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert