Tók tvö pör af hælaskóm með í útilegu

Kristín Tinna Aradóttir elskar að ferðast um Ísland.
Kristín Tinna Aradóttir elskar að ferðast um Ísland.

Kristín Tinna Aradóttir starfsmaður í auglýsinga- og markaðsdeild Árvakurs er þessi flippaða og hvatvísa ferðatýpa sem elskar að ferðast innanlands. Hún er vonlaus í að pakka ofan í tösku og toppaði sig í sumar þegar hún tók fimm skópör með sér í tveggja daga útilegu, þar af tvenn pör af háhæluðum skóm. 

Hvernig ferðatýpa ert þú?

„Ég er einföld og flippuð ferðatýpa sem tek skyndiákvarðanir. Oftast er ég með það markmið að stíga allavega eitt skref út fyrir þægindarammann til að gera ferðalagið skemmtilegra og eftirminnilegra. Áður fyrr þótti mér eftirsóknarverðast að ferðast erlendis en síðustu tvö ár hefur áhugi minn á Íslandi kviknað. Í dag beinast því flest mín ferðalög á skemmtilega staði á landinu okkar. Ég er með lista í símanum mínum yfir staði og fossa sem mig langar að heimsækja,“ segir Kristín Tinna.

Skipuleggur þú ferðalög með miklum fyrirvara eða ertu hvatvís þegar þú ferð í ferðalög?

„110% hvatvís. Ofurskipulag og dagskrá þreytir mig og gerir ferðalagið að vinnu. Ef þú tekur skyndiákvörðun þá er enginn tími til að ofhugsa og er meiri tími til að njóta.“

Hvert er besta frí sem þú hefur farið í?

„Ég hef ferðast fullt erlendis í góðra vina hópum og væri meiri glansmynd að segja frá þeim en raunverulega eru uppáhaldsfríin mín þegar ég er ein uppi á fjalli að njóta og sofna í tjaldi í rigningu.

Það er fátt sem jafnast á við þá tilfinningu og sérstaklega núna þegar dætur mínar eru að ná aldri til að fara á minni fjöll með mér sem gerir göngurnar enn skemmtilegri. Einnig fórum við í sumar að Helgufossi og ég kenndi þeim fyrstu skrefin í að kæla. Það var yndislegt veður, náðum góðum göngutúr og það er svo æðislegt að fá að deila áhugamálum með börnunum sínum. Þetta er tilvalinn staður til að skreppa á á til dæmis á sunnudegi. Helgufoss er í Mosfellsdal og þar eru fullt af gönguleiðum og skora ég á lesendur að pakka niður nesti og sundfötum og gera dag úr þessu.“

Hvað einkennir gott ferðalag?

„Góður félagsskapur, gott veður og helst einhver spenna. Já ég virðist vera smá adrenalín fíkill og það þarf að kitla hláturtaugarnar. Að ferðast með opinn huga og jákvætt hugarfar er klárlega lykillinn, þá er alltaf eitthvað skemmtilegt að sjá og tækifæri til að prófa eitthvað nýtt.“

Hver er þín flugrútína?

„Ég ferðast með aukafatnað í handtöskunni og þykir þá þægilegast að skipta um föt á flugvellinum eftir lendingu. Einnig vista ég sjónvarpsefni á Netflix sem er hægt að horfa á án nettengingar. Ég passa að hafa það klárt ásamt heyrnartólum til að drepa tíman ef illa gengur að sofna. Annars er ég voða dugleg að sofna í flugtaki og nýt þess að fljúga, enda með smá flugdellu.“

Kanntu að pakka létt?

„Ef ég neyðist til þess. En ég tek ótrúlegustu hluti með mér þegar það eru ekki sett mörk. Ég tók til dæmis með mér fimm skópör (tvenna hælaskó) í tveggja nátta útilegu í sumar. Endaði að sjálfsögðu með að vera í Scarpa gönguskóm alla helgina.“

Hvert dreymir þig um að fara?

„Ég er soddan náttúruperri. Mig dreymir um að fá að skoða Vestfirðina bak og fyrir. Bæði þá staði sem eru aðgengilegir og þar sem er aðeins hægt að nálgast með bát og helst ekkert net og/eða símasambandi.“

Hér er dætur hennar tvær við Helgufoss.
Hér er dætur hennar tvær við Helgufoss.
Hér er Kristín Tinna að kæla sig við Helgufoss.
Hér er Kristín Tinna að kæla sig við Helgufoss.
Fjallgöngur eru í miklu uppáhaldi.
Fjallgöngur eru í miklu uppáhaldi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka