„Orðin dönsk upp að hnjám“

Ásta Stefánsdóttir er verkefnastjóri í menningarhúsinu Norðurbryggju (Nordatlantens Brygge) í …
Ásta Stefánsdóttir er verkefnastjóri í menningarhúsinu Norðurbryggju (Nordatlantens Brygge) í Kaupmannahöfn. Ljósmynd/Friðrún Fanný Guðmundsdóttir

Ásta Stefánsdóttir hefur búið ásamt eiginmanni sínum, Bergi Bernburg, í Kaupmannahöfn í 25 ár. Hún er verkefnastjóri menningarhússins Norðurbryggju (Nordatlantens Brygge) í Kaupmannahöfn og sér um göngu- og hjólaferðir um borgina í samstarfi við Hrannar Hólm undir yfirskriftinni Ferðir um Kaupmannahöfn.

Hún segir að viðvera hennar þennan langa tíma í borginni sé að gera hana danska upp að hnjám og segir að það sem hafi komið henni hvað mest á óvart á sínum tíma við að flytja til Kaupmannahafnar sé að Danir séu ekki eins afslappaðir og Íslendingar halda. 

Meðfram störfum sínum sem verkefnastjóri er Ásta með göngu- og …
Meðfram störfum sínum sem verkefnastjóri er Ásta með göngu- og hjólaferðir um borgina í samstarfi við Hrannar Hólm undir yfirskriftinni Ferðir um Kaupmannahöfn. Ljósmynd/Aðsend

Hvar býrðu?

„Ég bý í afar krúttlegu húsi frá 1928, staðsettu við Amager Strand. Þegar við keyptum húsið árið 2004 hafði eingöngu ein fjölskylda búið í því frá upphafi, það er að segja hjónin sem byggðu það og sonurinn sem tók við því þegar þau féllu frá. Hann var kominn vel yfir nírætt þegar við keyptum húsið og hafði ósköp lítið sinnt því í áratugi. Það þurfti því að taka ærlega til hendinni. En það er afar góð sál í húsinu og við erum hæstánægð hér. Húsið er meira að segja með nafn, „Maybo“, sem tilheyrir fjölskyldunni sem byggði það.“

Hvað ertu að fást við núna þessa dagana?

„Ég er svo skemmtilega stödd í lífinu að það virðist einhvern veginn allt sem ég vinn með snúa að Íslandi. Ekki verra þegar maður hefur búið fjórðung aldar fjarri Fróni. Dags daglega fæst ég við menningarviðburði tengda Íslandi, Færeyjum og Grænlandi í menningarhúsinu Norðurbryggju. Þar er t.a.m. nýafstaðin íslensk prjónahátíð. Á næstu vikum opnum við svo sýningu með ljósmyndum RAX, en einnig eru tónleikar með Jóni Jóns og Frikka Dór í vikunni.

Hér fyrir utan starfa ég sem leiðsögumaður um Kaupmannahöfn í samstarfi við vin minn Hrannar Hólm. Við hófum þetta samstarf rétt eftir áramótin 2018 og fögnum því bráðlega tveggja ára samstarfsafmæli. Það er ávallt heilmikill fjöldi Íslendinga sem leggur leið sína um Kaupmannahöfn, bæði fyrirtækjahópar og einstaklingar. Þessar gönguferðir eru frábær leið til að kynnast borginni á nýjan hátt, enda ýmsir faldir fjársjóðir, skemmtilegar sögur og áhugaverðar staðreyndir á hverju strái.

Umfram þetta má líka nefna Félag íslenskra kvenna í atvinnulífinu í Kaupmannahöfn (FKA-DK), en ég sit í stjórn þessa hóps sem stendur fyrir áhugaverðum fundum yfir árið. Í Danmörku býr fjöldi íslenskra kvenna sem eru að fást við spennandi hluti. Hér í byrjun október heimsóttum við lyfjafyrirtækið Novo Nordisk, en í þessu öfluga fyrirtæki starfar nokkuð stór hópur íslenskra kvenna sem tóku á móti okkur og kynntu störf sín og fyrirtækið.“ 

Hvernig er heimilislífið?

„Sem best verður á kosið. Ég á nokkuð uppkomna drengi (17 og 20 ára) sem gerir mér kleift að sinna störfum og áhugamálum af kappi, án þess að neinn gráti það. Á næsta ári fagna ég svo 30 ára samvistarafmæli með eiginmanninum, Bergi Bernburg. Við erum hreinlega afar sátt við lífið og tilveruna.“

Ásta ásamt eiginmanni sínum Bergi.
Ásta ásamt eiginmanni sínum Bergi. Ljósmynd/Aðsend

Hvað er skemmtilegast að gera í borginni þinni?

„Það er frábært að hjóla í Kaupmannahöfn. Borgin er ótrúlega margvísleg, hjólastígarnir eru alls staðar, borgin er þægilega flöt og svo er nú nokkuð oft meðvindur! Hjólatúrar um borgina geta borið mann frá miðbænum yfir í „hipsterahverfin“ á Vesterbro og Nørrebro á skottíma. Svo er stutt á strönd og þá fjölmörgu matarmarkaði sem finna má á víð og dreif um borgina.“ 

Áttu þér upp­á­haldsveit­inga­hús?

„Ég á mér í raun tvö uppáhaldsveitingahús. Annað er staðsett í turninum á þinghúsinu, Christiansborg. Staðurinn heitir „Tårnet“ og býður upp á hefðbundið danskt smurbrauð með bjór og snaps, en þó í nýstárlegum búningi. Sjálfur staðurinn er einstakur, því hér er hátt til lofts, hrátt og smart, og svo er útsýnið ótrúlegt! Maður verður þó að mæta tímanlega því nauðsynlegt er að senda úlpuna sína í gegnum öryggisathugun á leiðinni inn (þetta er jú hluti af þinghúsinu).

Veitingahúsið „Tårnet“ býður upp á hefðbundið danskt smurbrauð með bjór …
Veitingahúsið „Tårnet“ býður upp á hefðbundið danskt smurbrauð með bjór og snaps, en þó í nýstárlegum búningi. Ljósmynd/Aðsend

Hinn staðurinn er af allt öðrum toga, en hann heitir Sanchez og er á Istedgade. Staðinn rekur Rosio Sanchez sem hóf ferill sinn í Danmörku sem eftirréttakokkur á Noma. Staðurinn býður upp á mexíkóskan mat í nýjum búningi. Stórkostlegur matur og enn betri margarítur!“

Áttu þér upp­á­haldsversl­un?

„Ég er með æði fyrir 1950´s kjólum og aðalverslunin í bænum í þeirri deild heitir Mondo Kaos og er staðsett á Nørrebro við Elmegade. Hverfið er líka svo skemmtilegt, en kjólabúðin er beint á móti fyrsta Laundromat-staðnum sem Friðrik Weisshappel og vinir opnuðu í Danmörku. Þar má oft finna Íslendinga, beggja vegna barborðsins.“

Ásta er hrifin af kjólum frá því á sjötta áratug …
Ásta er hrifin af kjólum frá því á sjötta áratug síðustu aldar. Hún kaupir þannig kjóla m.a. í versluninni Mondo Kaos sem er staðsett á Nørrebro við Elmegade. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig mynd­ir þú eyða drauma­deg­in­um í borg­inni?

„Ég myndi hefja daginn á „brunch“ á morgunverðarstaðnum Wulff og Konstali rétt hjá heimili mínu á Amager. Hjóla svo upp að Kongens Have og vera komin ofarlega á Gothersgade kl. 11:30 til að horfa á lífverði drottningarinnar ganga í skrúðgöngu í átt að höllinni (Amalienborg). Fara svo í hina stórskemmtilegu Rosenborgarhöll sem er staðsett í Kongens Have, en Kristján IV byggði hana sem sumarbústað árið 1606.

Eftir þetta færi ég á matarmarkaðinn í Torvehallerne og fengi mér sjúklega góðar fiskibollur frá Vigdísi Finnsdóttur í Boutique Fisk. Þaðan myndi ég hjóla upp á Nørrebro, leggja hjólinu og skoða antikverslanirnar í Ravnsborggade. Hér er fullt af skemmtilegum vínbörum og eftir smá rölt myndi ég eflaust vera til í að staldra við á einum slíkum.

Héðan lægi leiðin á Vesterbro, þar sem ég myndi skoða búðirnar á Istedgade og kaffihúsin við Sønder Boulevard og jafnvel flækjast um á hjólinu í þvergötunum á milli Vesterbrogade og Istedgade. Kvöldverðinn myndi ég svo snæða á PatéPaté, sem er frábærlega lifandi veitngastaður í Kødbyen. Og ef það væri stemning fyrir kokteil er t.a.m. NOHO í Kødbyen í fínu lagi.“

Ásta mælir með kokteilunum á NOHO í Kødbyen.
Ásta mælir með kokteilunum á NOHO í Kødbyen. Ljósmynd/Aðsend

Hvað ein­kenn­ir mat­ar­gerðina á þínu svæði?

„Danir eru náttúrulega þekktastir fyrir smurbrauðið og kannski pylsuvagnana sem finna má á ýmsum götuhornum. Remúlaði og majónes eru hér allsráðandi, en Danirnir hjóla það nú mestallt af sér. Það sem þó hefur breytt heilmiklu í Danaveldi er tilkoma Noma árið 2003. Þessi staður er engum líkur og hér hef ég gerst svo fræg að borða lifandi rækjur og 100 ára gamalt ígulker! Noma hefur svo alið af sér fjölda veitingastaða sem vinna út frá sömu hugmynd: Að efla norræna matgerðarlist með fókus á hráefni sem er fáanlegt á staðnum.“

Hvað kom á óvart við flutn­ing­ana út á sínum tíma?

„Það sem kom mér einna mest á óvart er að Danir eru alls ekki eins „ligeglad“ og við Íslendingar viljum kalla þá. Þeir eru í raun afar skipulagsglaðir og ræða bíóferðir og matarboð með margra mánaða fyrirvara. Þetta hefur stundum farið svolítið í taugarnar á mér, en sennilega hef ég eitthvað breyst á þessum 25 árum. Jafnvel orðin nokkuð dönsk bara hvað þetta varðar. Kannski orðin dönsk upp að hnjám.“

Hvers sakn­arðu helst frá Íslandi?

„Stundum finnst mér fjölskyldan allt of fjarri. Mér þætti gaman að geta skellt mér í kaffi til mömmu og pabba, fylgst með litlu frændsystkinunum vaxa og dafna, eða mætt á tónleika hjá systur minni. En á móti kemur að þegar við hittumst þá gefum við okkur reglulega góðan tíma saman. Svo eru íslensku sundlaugarnar náttúrulega einstakar. Ég reyni að fara í sund daglega þegar ég er heima.“

Hverju mæl­ir þú með fyr­ir ung­ar kon­ur að gera í borginni þinni?

„Það eru nokkrar frábærar götur sem gaman er að skoða ef maður hefur áhuga á búðum. Jægersborggade er ein af mínum uppáhalds - þar eru alls konar smábúðir með sérstaka vöru. Svæðið í kringum Elmegade/Birkegade er líka skemmtilegt. Svo er Istedgade öll að koma til - sérstaklega ef maður heldur sig á svæðinu fjær aðalbrautastöðinni (Hovedbanegården). Rétt við Istedgade finnur maður líka Kødbyen sem er stútfullur af skemmtilegum börum og veitingastöðum (þar á meðal Tommaborgarar og Jolene). Ég mæli með að reyna að færa sig út af Strikinu og skoða göturnar allt í kring, t.a.m. Larsbjørnstræde/Studiestræde og göturnar í því nágrenni.“

Hvað er gam­an fyr­ir fjöl­skyldu­fólk að gera í borginni?

„Dýragarðurinn er algjörlega frábær. Þar er hægt að eyða heilum degi og þá ekki síst á leikvelli dýragarðsins sem er með sérstakan sess meðal þeirra sem eru með ofurhress börn sem þurfa að hlaupa af sér orkuna. Þegar drengirnir mínir voru yngri fórum við stundum í dagsferð í Danmarks Tekniske Museum í Helsingør, tæplega klukkutíma akstur frá Kaupmannahöfn. Algjörlega meiri háttar safn með alls konar bílum, flugvélum, lestum og þess háttar. Hér getur maður t.d. prílað upp í orrustuþotu eða farið inn í gamaldags flugvél frá 7. áratugnum.“

Hvað ættu all­ir að kaupa í heim­sókn til borg­ar­inn­ar?

„Flødebollu! Danir eru einstaklega hrifnir af þessum dísætu súkkulaðibollum (held þær séu kallaðar því afar óheppilega nafni „negrakossar“ á íslensku). Best er að finna góða súkkulaðiverslun eins og t.d. Anker Chokolade á Vesterbro eða Summerbird sem er víðs vegar um borgina (t.d. í Torvehallerne). Það dugar samt alveg að fá sér bara eina, þá ætti maður að vera búinn að seðja súkkulaðiþörf vikunnar!“

Hvað ættu ferðamenn að var­ast?

„Ferðamannagildrur og annað sem er á Strikinu.“

Hvað er eft­ir­sókna­vert við staðinn sem þú býrð á?

„Amager hefur ýmsu að skarta. Hér er mikil uppbygging, en einnig fullt af rólegum hverfum inn á milli og samt svo stutt inn í miðbæ.

Lestakerfið liggur svo gott sem í bakgarðinum mínum og lestin ber mig inn í miðbæ á 8 mínútum og á flugvöllinn á 5 mínútum. Ég get einnig mælt með Amager Strand sem er frábært svæði þar sem hægt er að baða sig eða njóta útsýnis yfir skip, flugvélar og alls þar á milli!“ 

mbl.is