Asnarnir í Oatman

Hjónin Karl og Jutte frá Köln voru að aka Route …
Hjónin Karl og Jutte frá Köln voru að aka Route 66 í fyrsta sinn og sögðu frá för sinni þar sem þau hittust fyrir á Oatman Hotel sem er reyndar ekki hótel lengur. Barinn er þó á sínum stað og veggfóðraður dollaraseðlum í hólf og gólf sem gestir hafa skilið eftir og ritað nöfn sín á sem býður skemmtilegt útlit. Eftir að myndin birtist á Facebook spurði íslensk húsmóðir hvernig gengi eiginlega að þrífa þarna. Mynd/Atli Steinn Guðmundsson

Við erum komin að eyðimörkinni í Arizona, Mohave-sýslu, Svörtufjöllum eða Black Mountains. Hitinn er 40 gráður, sólskinið miskunnarlaust. Hér er það annaðhvort sterkasta sólarvörn sem fengist getur eða blæjan upp og loftkælingin í botn. Eftir að því er virðist endalausan akstur um hlykkjótta fjallvegi á 40 kílómetra hraða kemur gullnámubærinn Oatman í ljós, íbúafjöldi 90.

Johnny Moss hét maður og var einn þeirra fyrstu sem freistaði gæfunnar við gullleit í Oatman á sjöunda áratug 19. aldar. Hann tryggði sér tvær námur og kallaði þær Moss og Oatman, þá síðarnefndu í höfuðið á Olive Oatman, ungri stúlku frá Illinois sem Apache-indíánar rændu og seldu Navajo-indíánum, þó svörnum fjendum sínum. Navajo-indíánar féllust á að leysa Oatman úr haldi árið 1855, eftir að hafa haldið henni fanginni í fimm ár, og slepptu henni þar sem Oatman er nú. Dregur bærinn nafn sitt af þessari ungu konu.

Aðalgata, og reyndar eina gata, Oatman í Arizona þar sem …
Aðalgata, og reyndar eina gata, Oatman í Arizona þar sem tíminn hefur staðið kyrr síðan á 19. öld að undanskildum vélfákum. Mynd/ASG

Að koma til Oatman er mögnuð upplifun. Þar bjuggu 10.000 manns fyrir rúmum 100 árum. Gullgröftur í bænum hrundi hægt og rólega og stöðvaðist algjörlega árið 1943 í síðari heimsstyrjöldinni. Nú er gullnámuvinnsla þó starfrækt þar á ný af hálfu kanadísks fyrirtækis og vinna um 70 manns í námum rétt við bæjarmörkin. Hún Amber, barþjónninn á Oatman Hotel, sem var stofnað árið 1902 og er nú safn, matstaður og bar, en reyndar ekki hótel, tjáði okkur þetta þegar við litum inn í svalandi loftkælinguna í ranni hennar og þömbuðum sjö vatnsglös í samanlögðu.

Tíminn hefur nánast staðið kyrr í Oatman, pósthúsið er það sama og það var árið 1890 og að ganga niður aðalgötu þessa fámenna bæjar er eins og að stíga 130 ár aftur í tímann. Hluti þessarar sérstöku bæjarmyndar er auðvitað í nafni ferðamannaiðnaðar, 500.000 ferðamenn heimsækja Oatman ár hvert til að hverfa aftur til þeirra tíma þegar evrópskir og kínverskir innflytjendur hugðust skapa sér nýtt og betra líf í Ameríku. Ekki er Oatman þó beint í alfaraleið og töluverður krókur að aka þangað. Hitinn, jafnvel í ofanverðan september, er eins og veggur.

Minnstu munaði að við skiptum á Ford Mustang og þessum …
Minnstu munaði að við skiptum á Ford Mustang og þessum eðalvagni í Oatman en svo kom í ljós að vinstra afturdekkið var sprungið svo ekkert varð úr því. Annars var hann eins og nýr. Mynd/ASG

Asnar rölta í rólegheitum um göturnar og eru í raun í vinnu við að sitja fyrir á myndum ferðamanna. Án þess að vera með klukku þekkja þeir sinn vitjunartíma og rölta heim á bæinn sinn um klukkan sex og eru þá ekkert að hugsa um hvort þeir þvælist fyrir umferð eða ekki, stinga jafnvel snoppu sinni inn um bílglugga ferðalanga sem bjóða þeim viðurgerning til að seðja sárasta hungrið.

Asnarnir í Oatman eru ekki feimnir við aðkomumenn og náðu …
Asnarnir í Oatman eru ekki feimnir við aðkomumenn og náðu á tímabili að koma öllum þremur hausunum inn um bílgluggann, kveikja á rúðuþurrkunum og éta hálfan poka af piparmyntubrjóstsykri. Svo kvöddu þeir. Mynd/ASG

Í anda Morricone

Í Oatman hittum við þýsk hjón frá Köln, Karl og Jutte, og kviknuðu skemmtilegar samræður á hótelinu eða safninu. Þau hjónin voru einnig að aka Route 66, þó í hina áttina, frá vestri til austurs. „Warum einfach, wenn es auch kompliziert geht?“ er þekktur brandari í garð þýðverskra og líklega ekki með öllu út í hött, hvers vegna að hafa það einfalt bjóðist það flókið? Þau enda þar með á tilbreytingarlitla kaflanum, Oklahoma norður til Chicago. Eins hittum við þar Jimmy, miðaldra mann sem er dauðvona af krabbameini, grannvaxinn sem hrísla. Hann neytti síðustu krafta sinna til að aka Harley Davidson-hjóli sínu til New York og færa syni sínum að gjöf áður en hann yrði allur.

Tvöföld gul lína, framúrakstur bannaður. Langur dagur í eyðimörkinni fram …
Tvöföld gul lína, framúrakstur bannaður. Langur dagur í eyðimörkinni fram undan. Mynd/ASG

Oatman-barinn er þakinn dollaraseðlum sem gestir hafa áritað og heftað á veggina og í loftið. Veitingastaðurinn við hlið barsins er sama marki brenndur, „for a few dollars more“ var fyrsta hugsunin sem upp kom og reyndar minnti þessi bær ískyggilega á allan þann sígilda myndaflokk Eastwood og Leone. Nánast mátti heyra tónlist Ennio Morricone í hugskotinu. Oatman er ferðamannastaður og „Route 66 historic site“ eins og það kallast og auðvitað aðeins lagaður til eftir því, en flest þarna er upprunalegt og hreinlega ólýsanlegt að standa á aðalgötunni og fara rúmlega 100 ár aftur í tímann. Ekki verra að hitta mjög gestrisna íbúa og aka um eyðimörk þar sem 50 stiga hiti þykir bara eins og vorkvöld í Reykjavík.

Síðasta næturgisting við Route 66 var í bænum Needles sem lúrir handan Colorado-árinnar en hún markar landamæri Arizona og Kaliforníu, áttunda og síðasta ríkisins við þjóðveg 66. Quality Inn-hótelið þar í bænum býður ágæt herbergi fyrir hóflegt verð en þeir sem hafa fengið niðurgang síðustu tvær vikur eru ekki velkomnir í sundlaug staðarins („Persons having currently active diarrhea or who have had active diarrhea within the previous 14 days shall not be allowed to enter the pool water“ stóð í biblíusögulegum stíl á skilti við laugina). Þar með var aðeins annað okkar gjaldgengt í laug þessa.

Ferðalok

Á tíunda degi síðan föruneytið lagði upp frá Chicago stóðum við undir skiltinu sem markar endalok Route 66 í vestri á bryggjunni í Santa Monica. Verkefninu lokið. Tíu dagar er stuttur tími til að aka Route 66, auðveldlega má taka mánuð í þessa leið, stoppa víðar og skoða meira. Oft er talað um 14 daga sem einhvers konar miðgildi og spurt hvort ferðalangar ætli sér að aka 66 á lengri eða skemmri tíma en það. Fer eftir smekk og ferðaeðli hvers og eins.

Eftir tíu daga akstur frá Chicago og ýmis ævintýri stóðum …
Eftir tíu daga akstur frá Chicago og ýmis ævintýri stóðum við á bryggjunni í Santa Monica við endapunktinn og fylltumst lotningu yfir að hafa loksins látið verða af því að aka Route 66. Jafnvel lengsta ferðalag hefst á einu skrefi segir kínverskur málsháttur. Næsta skref var að aka til San Francisco og fara aftur að taka strætó. Viku síðar tók við 12 tíma flug yfir tæplega tíu tímabelti til Óslóar þar sem hafist var handa við að reyna að rífa heilann upp úr PST eða Pacific Standard Time sem tók viku. Mynd/Einhver náungi

Við ræddum við fjölda fólks sem skipulagði hvern einasta dag og vissi hvar það kæmi til með að halla höfði hverja einustu nótt. Slíkt fyrirkomulag virkar án efa ágætlega fyrir einhverja. Við lögðum upp með að skipuleggja sem minnst, vitandi að það yrði ekkert annað en ávísun á kapphlaup og kvaðir. Við pöntuðum hótel í Boston og San Francisco, leiðin á milli þessara borga réðst einfaldlega af veginum, stemmningunni og hve langt akstursþol okkar náði hvern dag.

Lagt var upp með að halda akstri ríflega innan skrifstofutíma, sofa vel og vera á veginum um það bil frá klukkan 11 til 16 dag hvern. Auðvitað riðlaðist þetta fyrirkomulag einhverja daga en oftast hélt það. Eins reyndum við að halda hámarksakstri við 400 kílómetra hvern dag, þetta fór þó eftir því hve mikið var að skoða á hverjum legg, sums staðar er úr mörgu að velja, annars staðar er hægt að fara hraðar yfir. Hver finnur sinn takt á malbikinu.

Sinn er siður í landi hverju

Víða þarf að greiða vegtolla. Flestar bílaleigur bjóða upp á kubb eða lykil sem festur er á framrúðu og greiðir tollana í þeim fjórðungi landsins eða svo þar sem bíllinn er sóttur. Alex, okkar maður á Alamo, sagði okkur að lykillinn í bílnum sem við sóttum í Boston væri gjaldgengur í norðausturhorni Bandaríkjanna, um það bil til og með ríkjamörkum Ohio og Michigan í vestur hélt hann. Eftir það er annaðhvort hægt að stoppa og borga við tollhlið, þar er stundum lifandi manneskja og stundum myntbrunnur, eða bara aka í gegn og sæta myndatöku.

Reikningar eru svo sendir bílaleigunni. Sumar leigur setja sér hámark og viðskiptavinur greiðir aldrei meira, 24 dollarar voru mörkin hjá Hertz í fríinu okkar 2016 sem teygði sig frá Flórída til Louisiana. Þegar upp var staðið í þessu ferðalagi sem stóð yfir í mánuð, þar af akstur í rúmar þrjár vikur, fóru 36 dollarar út af kortinu í veggjöld eftir heimkomu fyrir utan lítilræði sem greitt var við hvert hlið, oft tveir og hálfur dollar, svo lítil ástæða er til að hafa áhyggjur af vegtollunum, þetta er ekki Noregur.

Jabbadabbadú og takk fyrir okkur. Líklega magnaðasta sumarfríið hingað til. …
Jabbadabbadú og takk fyrir okkur. Líklega magnaðasta sumarfríið hingað til. „Get your kicks on Route 66,“ eins og einhverjir sungu. Mynd/ASG

Gera má því skóna að meirihluti íslenskra ferðalanga fari í stórborgarferðir til Bandaríkjanna. Lögmálin „úti á landi“ geta verið nokkuð ólík slíkum áfangastöðum. Ekki er hægt að ganga út frá því að evrópsk greiðslukort séu tekin gild í minni bæjum. Í Ann Arbor í Michigan gátum við ekki greitt með neinum kortum, öllu var hafnað annars staðar en á hótelinu. Nánast allir hraðbankar afgreiða þó evrópsk kort og ágætt að vera með einhverja seðla í vasanum þegar farið er um dreifbýli. Eins er ekki á vísan að róa með að allir veitingastaðir taki kort, jafnvel ekki í úthverfum stórborga. Við gistum nótt í Bricktown í Oklahoma þar sem handskrifuð A4-blöð blöstu við í gluggum margra veitingastaða, „No cards – cash only“. Hraðbankar þó nær alltaf í göngufæri.

Frjálslegar reglur veitingastaða kunna að koma mörgum Íslendingnum spánskt fyrir sjónir í minni bæjum. Má þar meðal annars nefna Barstow í Kaliforníu sem margir kannast við úr kvikmyndinni og bókinni Fear and Loathing in Las Vegas þar sem sagði af frægðarför Hunter S. Thompson blaðamanns heitins til Las Vegas árið 1971. Þar borðuðum við á ágætum kínverskum stað sem fjölskylda nokkur, allgeðþekk, rekur. Þegar spurt var út í vínföng benti vertinn hiklaust á áfengisverslun við hliðina og bað gestina vinsamlegast að nesta sig með guðaveigar að vild og koma bara með þær yfir. Ekki víða, en sums staðar, bjóða kortaposar upp á gjaldeyri staðarins eða gjaldeyri upprunalands viðkomandi greiðslukorts. Eins og íslenskir bankar, Neytendasamtökin og fleiri hafa margminnt á er þar affarasælast að velja staðargjaldmiðilinn, ellegar eiga svimandi þjónustugjöld það til að leggjast á reikninginn.

Að lokum

Óhætt er að mæla með því, að minnsta kosti fyrir fólk sem hefur gaman af að verja einhverjum tíma frísins síns undir stýri, að aka Route 66. Þetta er mikil upplifun og heimamenn ákaflega gestrisnir og hjálpsamir í hvívetna. Ekki skortir athyglisverða staði að skoða. Aðrar akstursleiðir sem við höfum reynt síðustu fimm ár eru til dæmis San Francisco til Las Vegas, strandleiðin frá Los Angeles til San Francisco og Miami til New Orleans, allt mjög skemmtilegar leiðir og gnótt sögufrægra staða á eða nálægt þeim.

Þeim, sem ekki hafa fengið meira en nóg af ferðaregistri þessu, er velkomið að heimsækja Facebook-síðu Atla sem er í ólæstri dagskrá og blaða þar gegnum septembermánuð. Má þar finna fleiri myndir og einhverjar frásagnir af þeim hlutum ferðarinnar sem voru utan Route 66. Hafi einhverjir lesendur haft gagn eða gaman af þessari ferðalýsingu, hvað þá hafi hún orðið einhverjum veganesti er hugleiða að feta þessa sömu slóð, er tilganginum náð. Heilir þeir er hlýddu.

Að 66 lokinni lá leiðin í norður frá Los Angeles …
Að 66 lokinni lá leiðin í norður frá Los Angeles um Pacific Coast Highway til þeirrar perlu sem San Francisco er. Áttu ferðalangarnir íslensku þar sex náðuga og bíllausa daga, litu á tónleika með Of Monsters and Men í Oakland, heimsóttu Grateful Dead-húsið í Haight Ashbury og bara slæptust. Hver er ekki til í það eftir að hafa ekið 7.382 kílómetra? Mynd/ASG
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert