Hlutir sem þú sérð eftir að hafa sparað þér

Stundum er betra að eyða aðeins meiru í þægindi.
Stundum er betra að eyða aðeins meiru í þægindi. Ljósmynd/Aðsend

Stundum borgar það sig að hafa leyft sér að eyða í hlutina. Þótt það sé vissulega fagnaðarefni að hafa náð frábæru tilboði á flugi eða gistingu til að byrja með getur það verið pirrandi þegar þú vaknar við vekjaraklukkuna til að fara í flug um hánótt. 

Þegar þú þarft að bíða eftir rútu til að sækja bílaleigubíl 

Það er snilld að finna bílaleigubíl á góðu verði. Það er hinsvegar ekki snilld þegar þú þarft að ferðast langt út fyrir flugvöllinn til þess að sækja bílinn, og þarft jafnvel að bíða eftir rútu til þess að komast að sækja hann. Kannaðu vel fyrir fram hvar bílaleigan er staðsett og hvort hún sé ekki örugglega á flugvellinum.

Þegar þú þarft að vakna fyrir allar aldir til að komast í flug

Það er góð tilfinning að bóka flug á þrusugóðu verði og hugsa með sér „ég er að spara alla vega 10 þúsund krónur með þessu. Ég vakna hvort sem er snemma til að fara í vinnuna, ég get alveg mætt í flug klukkan 06:00.“ Það er kannski ekki jafn góð tilfinning að stilla klukkuna á 3:30 og telja svo þessar fáu klukkustundir sem þú nærð að sofa. Það er líka hundleiðinlegt að eyða fyrsta deginum í fríinu að drepast úr þreytu, eða sofa meirihlutann af deginum. Auk þess að ef þú ferðast vanalega með almenningssamgöngum sem ekki eru opnar á nóttunni þarftu kannski að eyða fúlgum fjár í að koma þér upp á flugvöll. 

Þegar þú liggur vakandi og hlustar á hina hostel-gestina

Hversu slæmt getur 20 manna hostel-herbergi verið? Þú ert hvort sem er bara að fara að vera þarna á meðan þú sefur, hvers vegna ættirðu að eyða meiru í hótelherbergi? Jú ef að einn í herberginu hrýtur mjög hátt, talar upp úr svefni eða er á leiðinni í morgun flug, þá getur það orðið frekar pirrandi og þú óskar þess að þú hafir ekki verið svona mikil nánös þegar þú bókaðir gistinguna. 

Þegar þú færð miðjusætið aftast í vélinni

Eftir að hafa eytt tugi þúsundkalla í lægsta fargjaldið getur verið erfitt að láta meira fé rakna af hendi. Þú treður öllu sem þú þarft í handfarangur, ert síðastur um borð í vélina og uppgötvar svo að þú er með miðjusæti aftast í vélinni, alveg upp við klósettin og getur ekki hallað sætinu. Þá áttu svo sannarlega eftir að bölva því að eyða ekki nokkrum krónum í viðbót til þess að fá að velja sæti fyrir fram.

Þegar þú missir af tengifluginu

Þegar þú ert í fyrsta fluginu af nokkrum og hver mínúta sem vélin fer ekki í loftið líður eins og hálf öld og þú svitnar af stressi við tilhugsunina um að hlaupa á milli flugvéla á næsta flugvelli. Þá er betra að velja aðeins dýrara flug og hafa nægan tíma á milli flugferðanna. Það getur alla vega verið töluvert dýrara að missa af flugi.

mbl.is