Upplifðu alvöru kantónska matarmenningu

Á myndinni má sjá Höllu Þórðardóttur, dansara, og Baldvin Þór …
Á myndinni má sjá Höllu Þórðardóttur, dansara, og Baldvin Þór Magnússon, tæknistjóra Íd, smakka á bragðgóðum mat. Ljósmynd/Aðsend

Íslenski dansflokkurinn sýndi um helgina dansverkið Pottþétt myrkur í Hong Kong. Á milli sýninga og æfinga gafst dönsurum og starfsfólki flokksins kostur á að upplifa og smakka það besta sem Hong Kong hefur upp á að bjóða en eins og Hlynur Páll Pálsson framkvæmdastjóri flokksins orðar svo vel þá er Hong Kong allt í senn framandi, aðgengileg og spennandi.

Einn dansara Íslenska dansflokksins, Charmene Pang, er frá Sviss en ættuð frá Hong Kong. Foreldrar hennar flugu frá Sviss til Hong Kong til að vera viðstödd sýningu dansflokksins með ömmu Charmene. Alls keyptu fjölskylda og vinir Charmene yfir 50 miða á sýningar dansflokksins í Hong Kong.

„Á sunnudaginn buðu þau okkur að upplifa alvöru kantónska matarmenningu í Sheung Wan Cooked Food Center,“ segir Hlynur Páll og lýsir staðnum sem eins konar mathöll. „Maturinn var ótrúlega góður og gestrisnin alveg stórkostleg.“

„Þetta voru alls konar réttir sem við deildum öll á stóru snúningsborði. Þetta var allt ótrúlega bragðgott, en hörpuskelin sló algjörlega í gegn.“

Hópmynd af starfsfólki Íslenska dansflokksins, ásamt fjölskyldu og vinum Charmene …
Hópmynd af starfsfólki Íslenska dansflokksins, ásamt fjölskyldu og vinum Charmene Pang við hringborðið góða. Ljósmynd/Aðsend
Ýmislegt girnilegt var í boði í Sheung Wan Cooked Food …
Ýmislegt girnilegt var í boði í Sheung Wan Cooked Food Center. Ljósmynd/Aðsend
Hörpuskelin sló í gegn.
Hörpuskelin sló í gegn. Ljósmynd/Aðsend

Þrátt fyrir mikla ólgu og mótmæli í Hong Kong náði Íslenski dansflokkurinn að skoða sig um og drekka í sig menningu Hong Kong-búa.  

„Við erum búin að vera á mörkuðum, á ströndinni, búin að taka inn menninguna, smakka alls konar ljúffengan mat og tekið stutta dagstúra um eyjar Hong Kong. Hong Kong hefur þann sjaldgæfa eiginleika að vera allt í senn framandi, aðgengileg og spennandi,“ segir Hlynur Páll ánægður með ferðina. 

Dansarar íslenska dansflokksins á toppi Peak-fjalls í Hong Kong.
Dansarar íslenska dansflokksins á toppi Peak-fjalls í Hong Kong. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert