Singapúr fyrir alla fjölskylduna

Marina Bay Sands er frægt kennileiti, og margir sem vilja …
Marina Bay Sands er frægt kennileiti, og margir sem vilja taka sjálfsmynd uppi á þaksvölunum. Hótelið er þó ekki miðsvæðis og kostar að taka lyftuna upp á topp. Ljósmynd / Pexels – Wai Loon (CC)

Gaman er að sjá á samfélagsmiðlum hvað íslenskar barnafjölskyldur eru orðnar duglegar að ferðast um Asíu. Þar eru jú ævintýrin á hverju strái og kostar ekki mikið að njóta lífsins á stöðum eins og Balí, Taílandi og Víetnam. Börnin hafa síðan gott af því að kynnast framandi menningarheimum, og er það veganesti sem fylgir þeim alla ævi.

Eins gaman og það er að spana um á túk-túk, skera öldurnar á brimbretti og gauka nokkrum bananabitum að apaköttum í löngu yfirgefnum musterum, þá er samt ágætt að geta tekið sér smá frí frá villtum frumskógunum og fábrotnu strandlífinu og hafa það huggulegt í snyrtilegri borg þar sem allt er í röð og reglu. Liggur því beinast við að taka gott stopp í Singapúr.

Borgríkið Singapúr er merkilegt fyrir margra hluta sakir, en það fysta sem aðkomufólk tekur eftir er hvað allt gengur áreynslulaust fyrir sig. Íbúar Singapúr kunna að fylgja reglunum, og mannlífið er eins og gangverkið í svissnesku úri. Vesturlandabúar sem eru nýkomnir úr kraðakinu í Bangkok eða Ho Chi Minh-borg finnst oft eins og að sefandi ró og slökun hellist yfir þá við lendingu, því í Singapúr er allt fyrirsjáanlegt og skipulagt, og ekki arða af rusli á götunum.

Fyrir vikið er Singapúr líka stórgóður áfangastaður fyrir fjölskyldur með börn enda örugg borg og með alls kyns afþreyingu í boði fyrir smáfólkið. Ferðalangar þurfa þó að muna að reglurnar eru strangar, og t.d. er tyggjó bannað nema fólk geti framvísað lyfseðli, stranglega bannað er að borða eða drekka í neðanjarðarlestinni, og þeir sem neyta vímuefna ættu að gæta sín alveg sérstaklega – ef ekki sneiða alfarið hjá Singapúr – því óvíða í heiminum má vænta þyngri refsingar fyrir minniháttar vímuefnabrot.

Að því sögðu þá er Singapúr heillandi borg sem ætti að fara vel með fjölskyldufólk.

Universal Studios í Singapúr er í smærri kantinum en hægt …
Universal Studios í Singapúr er í smærri kantinum en hægt að eiga þar góðan háflan dag af rússíbönum og fjöri. Ljósmynd / Wikipedia – Devender Goyal (CC)

Universal Studios

Börnin og unglingarnir vilja örugglega fyrst af öllu setja stefnuna á Universal Studios-skemmtigarðinn, sem er á manngerðri eyju rétt suður af miðbæ Singapúr. Skemmtigarðurinn sjálfur er smár í samanburði við t.d. Universal Studios í Orlando, en rúmar samt ágætis úrval rússíbana og skemmtitækja. Flest tækin eru sniðin að þörfum yngstu gestanna, s.s. með Shrek og dýrunum frá Madagascar, en inn á milli má finna ögn meiri æsing, og fyrir adrenalínfíklana er það Battlestar Galactica rússíbaninn sem heillar mest. Þar má velja á milli tveggja rússíbana með sama þema, þar sem annar er æsilegri en hinn.

Blaðamaður Morgunblaðsins heimsótti Universal Studios í miðri viku á rigningardegi og var samt töluverður fjöldi gesta í garðinum. Ef sýnt þykir að biðin í röðunum verði of löng þá getur borgað sig að fjárfesta í hrað-miða, sem nota má eins oft og þarf til að komast fremst í rússíbana-röðina.

Á Sentosa er hægt að njóta strandlífsins í öruggu umhverfi …
Á Sentosa er hægt að njóta strandlífsins í öruggu umhverfi og t.d. leigja róðrabretti. Ljósmynd / Wikipedia – Mokkie (CC)

Buslað á ströndinni

Sunnar á sömu eyju má finna manngerðar strandir þar sem hægt er að svamla í tiltölulega hreinum sjónum og taka smá lit. Má t.d. mæla með því að taka róðrarbretti (e. paddleboard) á leigu og njóta þess í góða veðrinu að vera til. Leiðist fólki róðurinn, eða ef það verður lúið í handleggjum og magavöðvum, þá má einfaldlega fylgjast með mannlífinu og reyna að telja gámaskipin sem bíða undan ströndum borgarinnar eftir því að komast að í höfninni.

Marina Bay Sands og Gardens by the Bay

Marina Bay Sands er löngu orðið þekktasta kennileiti Singapúr. Þessi risastóra hótelbygging gnæfir yfir landslagið en á efstu hæð má finna langa sundlaug með bæjarins besta útsýni. Aðeins hótelgestir fá að nota sundlaugina en ferðamenn geta, gegn gjaldi, fengið aðgang að bar á efstu hæðinni og klárað úr eins og einu kokkteilglasi áður en þeir halda ferð sinni áfram. Hótelið er ekki endilega besti staðurinn til að gista á, því herbergin eru dýr og Marina Bay Sands ekki í þægilegu göngufæri við miðbæinn.

Framan við hótelbygginguna má finna risastóra verslunarmiðstöð og spilavíti, en aftan við hótelið er skrúðgarður borgarinnar, Gardens by the Bay. Í garðinum er fallegt um að litast, og heimamenn hafa gaman af að rölta þar um. Finna má útileiktæki fyrir börnin og alls kyns furðuverur sem leynast á milli plantnanna.

Þeir sem kunna að meta lúxus og íburð setja stefnuna …
Þeir sem kunna að meta lúxus og íburð setja stefnuna beint á sögufræga Raffles-hótelið sem hefur opnað á ný eftir miklar endurbætur. Ljósmynd / Raffles

Hvar á að gista?

Fyrir fjölskyldufólk má mæla með Swissôtel Merchant Court-hótelinu, sér í lagi ef Singapúr er einn af mörgum viðkomustöðum í Asíu eins og oft vill verða. Þannig er nefnilega með hótelið að á Swissôtel er hægt að komast í þvottavélar, og því hægt að þvo óhrein ferðafötin áður en lagt er af stað til næsta lands. Þá er þess gætt á Swissôtel að huga vel að þörfum gesta með börn, með leiksvæðum og svefnherbergjum sem hafa verið sérstaklega innréttuð með börn í huga.

Ef engin börn eru með í för ætti hins vegar að taka stefnuna á Raffles-hótelið. Þetta sögufræga hótel þykir í algjörum sérflokki og hefur verið kennileiti í mannlífi borgarinnar allt frá opnun árið 1887. Þar hafa margar frægustu stjörnur og valdamenn sögunnar gist, og á hótelbarnum fæddist ekki ómerkilegri kokkteill en Singapore Sling. Raffles-merkið hefur smám saman breitt úr sér á undanförnum árum, og má finna Raffles-hótel hér og þar í heiminum, en hið upprunalega lúxus-nýlenduhótel verður þó alltaf Raffles í Singapúr. Raffles er núna nýopnað eftir ítarlegar endurbætur, þar sem þess var þó vandlega gætt að viðhalda sjarmanum.

Blaðamaður gisti á Swissôtel í boði Raffles.

Það væsir ekki um barnafjölskyldur á Swissotel Merchant Court og …
Það væsir ekki um barnafjölskyldur á Swissotel Merchant Court og gott að komast í þvottavél í miðri reisu um SA-Asíu. Ljósmynd / Swissotel

Hvernig kemstu til Singapúr?

Á Dohop má finna flug á rúmar 85.000 kr. með langri millilendingu í Frankfurt á leiðinni út, en stuttu stoppi í Kaupmannahöfn á leiðinni til baka, flogið með Icelandair og Singapore Airlines. Þá er mjög ódýrt að skjótast til Singapúr frá helstu áfangastöðum í SA-Asíu, og lægstu fargjöldin sem finna má á Skyscanner tæpar 10.000 kr. til Bangkok fram og til baka, tæpar 14.000. kr. til Manila, og um 12.000 kr. til Ho Chi Minh-borgar.

Íslendingar þurfa ekki áritun til Singapúr, og rétt að benda ferðalöngum á að gefa sér ögn meiri tíma en venjulega til að skoða sig um á flugvellinum, sem þykir einn sá besti í heiminum.

Á Swissotel Merchant Court getur fullorðna fólkið líka látið fara …
Á Swissotel Merchant Court getur fullorðna fólkið líka látið fara vel um sig, t.d. á móttökubarnum. Ljósmynd / Swissotel
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »