Gott flugfargjaldaár að bresta á

Kyrrsettar 737 MAX farþegaþotur Southwest safna ryki. Þegar flugbanni MAX …
Kyrrsettar 737 MAX farþegaþotur Southwest safna ryki. Þegar flugbanni MAX 8 þotanna verður aflétt mun koma mikill kippur í framboði á flugsætum. AFP

Fátt er skemmtilegra en að kaupa flugmiða á einstaklega hagstæðu verði og margir sem leggja töluvert á sig til að fljúga sem ódýrast. Hagsýnir ferðalangar kemba leitarvélarnar, sætta sig við langar og lýjandi millilendingar, eða fljúga á óþægilegum tímum sólarhringsins til að gera ferðalagið út í heim sem ódýrast. Svo má alltaf bíða eftir að tilboðspóstur frá uppáhaldsflugfélaginu birtist upp úr þurru, og vona að takist að redda fríi í vinnunni með stuttum fyrirvara.

Eitt besta sparnaðarráðið, að mati Wall Street Journal, er samt að vakta vandlega hvar á flugmarkaðinum samkeppnin er að harðna. Glænýjar tengingar við borgir þar sem áður voru fá flugfélög um hituna eru gullin tækifæri fyrir fólk með ferðabakteríu til að gera góð kaup. Að sögn WSJ gæti 2020 orðið afskaplega gott ár hvað þetta varðar, í það minnsta í Bandaríkjunum. Þá gæti líka komið sér vel fyrir ferðalanga þegar Boeing MAX 8-þoturnar fara aftur í loftið með stórauknu sætaframboði.

Verðlækkun og jafnvel verðfall

WSJ vísar í rannsókn flugleitarforritsins Hopper sem leiddi í ljós að þegar lággjaldaflugfélag lætur að sér kveða á tiltekinni flugleið lækki það flugmiðaverðið að jafnaði um 17%. Í sumum tilvikum gat munurinn á lægsta fáanlega verði fyrir og eftir komu nýs keppinautar á flugleið verið liðlega 60%. Því minni sem samkeppnin er á flugleiðinni, því meira geta neytendur vænst þess að verðið lækki þegar ný flugfélög bætast við.

Til að fá allra lægsta verðið þarf þó helst að bóka með góðum fyrirvara og bíða ekki boðanna þegar flugfélög tilkynna nýjar tengingar. Oft eru nýjar flugleiðir kynntar með rúmlega hálfs árs fyrirvara og reyna flugfélögin þá iðulega að tryggja góða sætanýtingu með mjög hagstæðu verði.

En þegar MAX 8-þoturnar hefja sig aftur til flugs mun það þýða að nokkur hundruð stórar farþegaflugvélar koma skyndilega í notkun og flugfélögin munu þurfa að selja fjöldann allan af flugmiðum í hvelli ef þoturnar eiga ekki að fljúga hálftómar. Segir WSJ að þótt það taki tímann sinn að gera MAX 8-vélarnar aftur hæfar til flugs verði aðdragandinn miklu styttri en hálft ár. Til marks um hver áhrifin gætu orðið á framboð flugsæta mun Southwest ræsa 75 MAX 8-þotur þegar græna ljósið verður gefið á ný og segir WSJ að það jafngildi því að nýtt meðalstórt flugfélag kæmi inn á bandaríska markaðinn.

Í tilviki Íslands verður gaman að sjá hvernig flugmiðaverðið þróast þegar tvö ný fyrirhuguð flugfélög hefja rekstur, og eins hvernig Icelandair lagar sig að því að geta sett MAX 8-vélarnar í loftið eftir langt hlé. Ef heppnin verður með neytendum gæti verið hægt að fljúga út í heim fyrir tiltölulega lítið jafnvel strax næsta sumar. ai@mbl.is

mbl.is