Hvernig á að pakka í ferðatösku?

Kannt þú að pakka í tösku eða ert þú einn …
Kannt þú að pakka í tösku eða ert þú einn af þeim sem pakkar alltaf of mikið? Ljósmynd/Pexels

Sama hversu skipulagðan maður telur sig vera hafa allir líklegast lent í því að pakka of miklu fyrir ferðalag. Það er alltaf jafn pirrandi að koma heim eftir ferðalag og átta sig á því að maður notaði einn þriðja af því sem maður pakkaði. 

Það eru til ýmis ráð sem vel er hægt að nýta. Marie Kondo, japanski skipulagssnillingurinn, hefur meðal annars gefið út myndband með góðum ráðum. Svo könnumst við öll við að rúlla fötunum upp, setja sokkana ofan í skóna og svo framvegis. New York Times tók saman sex góð ráð sem hægt er að nýta sér. Þessi ráð eru afskaplega góð enda er hægt að velja úr þeim hvaða ráðum maður fylgir.

1. Velja litla harðskeljaferðatösku

Þetta er frekar rökrétt ráð, því stærri ferðatösku sem þú ert með, því meira drasl ertu að fara að setja ofan í hana. Einfaldasta ráðið er að velja litla ferðatösku sem passar í handfarangur, þú þarft þó ekki að taka hana í handfarangur frekar en þú vilt. Þá er líka gott að verða harðskeljatösku svo þú getir ekki troðið hana út af óþarfa fötum eða dóti. 

2. Notaðu fataniðurtalninguna

Ef þú átt erfitt með að gera þér grein fyrir hversu mikið af fötum þú þarft fyrir styttri ferð, helgaferð eða nokkurra daga ferð þá er fataniðurtalningin fullkomin. 5-4-3-2-1 : 5 sokkapör og nærföt, 4 bolir eða peysur, 3 buxur eða stuttbuxur, 2 pör af skóm og eitt höfuðfat. Þennan lista þarf þó að laga að hverjum og einum eftir áfangastað. Það er mikill munur á stuttri ferð til Kaupmannahafnar í júlí og helgarferð til Ísafjarðar í febrúar. Bættu við sundfötum og æfingafötum eftir því hvað á við. 

3. Taktu til allt sem þú þarft og farðu svo yfir það

Hugsaðu þig um tvisvar sinnum um allt það sem þú ætlar að setja í töskuna. Hentu út flokknum „Bara til öryggis“. Ef þú þarft það nauðsynlega ættir þú að geta keypt það.

4. Hafðu tetris í huga

Besta leiðin til að koma öllu fyrir í einni tösku er að troðfylla hana alveg. Gamla góða ráðið um að setja sokkana inn í skóna. Síðan setja skóna saman í poka. Nákvæmlega hvernig þú raðar í töskuna er smekksatriðið. Sumir rúlla öllum fötunum upp, það getur sparað pláss. Aðrir brjóta fötin öll utan um sjálf sig, nærföt innst, bolir utan um það og yfirhafnir yst. Eitt gott ráð er að nota pökkunarkubba, eins og til dæmis úr IKEA. 

5. Vökvar efst

Ef þú ætlar að hafa töskuna í handfarangri er best að hafa allan vökva efst í töskunni í litlum einingum í gegnsæjum poka með rennilás. 

6. Aldrei taka snyrtivörurnar upp

Þetta ráð er fengið frá Kondo. Kondo mælir með því að fólk eigi ferðaútgáfu af öllum hreinlætis- og ferðavörum sem það notar. Hún mælir með að fólk geymi það í sér veski sem er alltaf tilbúið þegar þú þarft það. Þá gleymirðu ekki tannkremi eða linsuboxi ef þú notar þannig. 

Gott ráð er að kaupa litla tösku.
Gott ráð er að kaupa litla tösku. Ljósmynd/Eymunsson
mbl.is