Keyptu 20 kílóa tösku undir rófurnar

Herdís Hrönn Árnadóttir, Hildur Ýr Aðalsteinsdóttir, dóttir Herdísar, og Sævar …
Herdís Hrönn Árnadóttir, Hildur Ýr Aðalsteinsdóttir, dóttir Herdísar, og Sævar Lúðvíksson. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Þorrablót verður haldið í þriðja sinn á Nostalgíu, íslenska barnum á Tenerife nú á föstudagskvöldið. Herdís Hrönn Árnadóttir eigandi Nostalgíu segir í samtali við mbl.is að uppselt sé á blótið og langur biðlisti.

Um 80 manns hafa boðað komu sína á þetta þriðja þorrablót Nostalgíu. „Við erum að gera þetta enn veglegra í ár. Í fyrsta skipti er komin skemmtinefnd og veislustjóri verður Guðni Már Henningsson útvarpsmaður,“ segir Herdís. Hún rekur Nostalgíu ásamt sambýlismanni sínum Sævari Lúðvíkssyni.

Það var kalt hjá Herdísi þegar blaðamaður náði tali af henni, aðeins 22 gráður, og þau Sævar komin í peysur. Það hefur verið mikið að gera hjá þeim á barnum á síðustu vikum en þar sýna þau alla leiki íslenska landsliðsins á EM karla í handbolta. 

Herdís segir að það séu að mestu leyti íslenskir heimamenn sem hafa skráð sig á blótið, en þó líka þeir sem búa þarna í nokkra mánuði yfir veturinn og aðrir sem eru í stuttri heimsókn á eyjunni.

Boðið verður upp á ekta íslenskan þorramat sem þau hafa flutt inn frá Íslandi. Vinir og ættingjar þeirra Herdísar og Sævars hafa á síðustu vikum komið með troðfullar töskur af þorramat fyrir þorrablótið.

Síðan voru það rófurnar. „Það er ekki hægt að halda þorrablót án þess að vera með rófur. Það fást ekki rófur hér svo við keyptum 20 kílóa tösku undir rófurnar,“ segir Herdís. Auk þorramatsins ætla þau að bjóða upp á lambalæri og brúna sósu. Meðal gesta á blótinu verða líka börn og segir Herdís þetta verða fjölskylduskemmtun sem er kannski ólíkt þorrablótunum sem haldin eru hér heima.

Herdís og Sævar njóta góðs af reynslu íslenskra íbúa Tenerife og eru með mikinn reynslubolta í skemmtinefndinni sem hefur komið að fjölda þorrablóta heima á Íslandi. Þetta verður því eins og strangheiðarlegt sveitaþorrablót í íslenskum afdölum, fyrir utan hitastigið.

Farið verður með minni karla og minni kvenna auk þess sem gítarleikari mun stjórna fjöldasöng. „Það er búið að prenta út söngskrá og svo er ég bara að fara að baka rúgbrauðið. Ég baka það alltaf daginn áður svo það verði nýbakað og ferskt,“ segir Herdís sem er vön hvers kyns rúgbrauðsbakstri, enda er boðið upp á plokkfisk alla mánudaga á Nostalgíu og ekki er hægt að bjóða upp á plokkfisk án þess að hafa rúgbrauð með.

Þetta er ekki eina íslenska hefðin sem höfð er í hávegum á Nostalgíu. Þau hafa verið með skötuveislu á Þorláksmessu ár hvert, sýnt áramótaskaupið um áramótin, boðið upp á hangikjöt um jólin og bjóða reglulega upp á íslenskan mat.

mbl.is