Kvennaklósettið er kjörklefi

Einvalaliðið sem fékk að finna til tevatnsins bak við barborðið …
Einvalaliðið sem fékk að finna til tevatnsins bak við barborðið á gamlárskvöld, Herdís Hrönn Árnadóttir, Hildur Ýr Aðalsteinsdóttir, dóttir Herdísar, og Sævar Lúðvíksson. Herdís og Sævar hafa rekið Íslendingabarinn Nostalgia á Tenerife síðan 2016 og eru orðin það rótgróin í Íslendingasamfélaginu að Herdís situr yfir íslenskum nemendum í prófum á barnum og kvennaklósettið var kjörklefi fyrir alþingiskosningarnar 2017. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Stór hópur Íslendinga tók sameinaður á móti árinu 2020 á Nostalgia-barnum við Amerísku ströndina á Tenerife á gamlárskvöld í góðum höndum sambýlinganna Herdísar Hrannar Árnadóttur og Sævars Lúðvíkssonar sem fluttu til þessarar spænsku eyjar árið 2016 og hafa síðan blásið til skötuveislu á Þorláksmessu auk þess að bjóða upp á hangikjöt um jólin, steiktan fisk annan hvern mánudag, grillveislur og margt annað sem Íslendingar á svæðinu hafa ekki látið sig vanta í.

Gamlárskvöld heilsaði Íslendingasamfélaginu jafnt sem öðrum gestum og íbúum Tenerife með sömu veðurblíðu og dagarnir á undan og ekkert því til fyrirstöðu að horfa á Áramótaskaupið úti á torginu í bakgarði Nostalgia-barsins sem deilir gamalli klausturbyggingu niðri við Playa de las Américas, eins og Ameríska ströndin heitir upp á spænsku, með fjölda annarra veitingastaða og fyrirtækja.

Stór hópur Íslendinga í góðu yfirlæti að horfa á Áramótaskaupið …
Stór hópur Íslendinga í góðu yfirlæti að horfa á Áramótaskaupið á torginu sem Nostalgia hefur aðgang að en húsið er gamalt klaustur og myndar ferhyrning utan um þetta opna svæði sem oft kemur sér vel eins og myndin sýnir glöggt. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Höfðu tveir stórir skjáir verið settir upp úti á torgi í þessu skyni en þeir sem það kusu gátu setið við borðin inni í veitingasalnum og horft á Skaupið auk þess að fylgjast öðru auga með röðinni á barinn sem á tímabili varð býsna þétt, en engan bilbug var þó að finna á eigendunum og hjálparkokkum þeirra sem fylltu svo skjótt á glös áramótaþyrstra Íslendinga að það var eins og með sverðfimi Gunnars á Hlíðarenda að sýndist sem mörg væru á lofti.

Eðlilega mæðir mikið á bareigendum um áramót, hvort sem er á Tenerife eða annars staðar, og var því tækifærið gripið til að setjast niður með Herdísi og Sævari fyrir stóra daginn og ræða um hátíðadagskrána, reksturinn og daginn og veginn en mbl.is greindi áður frá skötuveislunni fyrir jólin 2016.

„Það er nýtt hjá okkur Sævari að sýna Krakkaskaupið á RÚV núna í ár, ég heyrði að það hefði verið fyndnara í fyrra en aðalskaupið,“ segir Herdís frá. „Svo erum við ekki með mat, okkur finnst að gamlárskvöld eigi bara að vera svona „fancy fancy“ svo við erum bara tilbúin með kokteilana og barinn þegar fólk er búið að fá sér að borða,“ segir hún og bætir því við að oft og tíðum sé torgið troðfullt af fólki á stórviðburðum á við gamlárskvöld.

„Enda erum við búin að skíra torgið upp á nýtt og nú heitir það Íslandstorg,“ segir Herdís og hlær. Að ýmsu er að huga tæknilega þegar sýna þarf dagskrárlið á borð við Áramótaskaup utanhúss, þar sem ólíkt til dæmis íþróttakappleikjum eru áhorfendur algjörlega háðir því að heyra hvert einasta orð sem sagt er.

Margir kusu að horfa á Skaupið inni á barnum og …
Margir kusu að horfa á Skaupið inni á barnum og væsti ekki um hópinn sem þar sat. Rýmið er gott á Nostalgia en torgið fyrir utan býður upp á mun stærri Íslendingasamkomur en barinn einn og hafa mest 500 manns verið á staðnum að horfa á landsleik í knattspyrnu. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Við föttuðum það fyrsta árið að hljóðið þarf að vera gríðarlega gott þegar þú ert með svona stóran hóp, þú ert ekkert bara með hljóðið í gegnum sjónvarpið,“ segir hún og Sævar tekur undir. Reynslunni ríkari leystu þau málið árið eftir með öflugu Bose-hljóðkerfi sem þau hafa notað síðan og varla hægt að kvarta yfir, því Skaupið heyrðist glöggt hvar sem staðið var á torginu.

„Þú manst þetta heldur ekkert“

Herdís og Sævar hafa greint frá því í fjölda viðtala við ýmsa íslenska fjölmiðla síðustu ár hvernig þessi rekstur, sem hófst í júlí 2016, kom til hjá þeim, bar sem nú dregur til sín fjölda Íslendinga dag hvern og ekki síst þegar blásið er til stórviðburða. Rétt þykir þó að rifja byrjunarreitinn upp fyrir þá sem ekki vita.

„Vilt þú segja frá þessu, Sævar?“ spyr Herdís mann sinn sem biðst strax undan og hafði enda þegar hótað að hafa sig lítið í frammi í viðtalinu. Sævar er þó ekkert dauðyfli, mikill spaugari og stórskemmtilegur. „Þú manst þetta heldur ekkert,“ skýtur Herdís að Sævari og þau hlæja bæði. „Ég man það bara að við stóðum fyrir utan La Siesta [hótel við Amerísku ströndina],“ segir Sævar þá skyndilega, „og það var verið að þrífa stóru steinsúlurnar og við litum hvort á annað og sögðum „hérna gæti ég hugsað mér að búa.“.“

Þetta samtal átti sér stað í fríi árið 2014 og þau fóru í framhaldinu að velta því fyrir sér hvernig hægt væri að fá búsetu á Tenerife til að standa undir sér og fyrsta hugmyndin var að opna íslenskan bar í þessari fjölsóttu vin íslenskra ferðalanga. Á þessum tíma var Herdís innkaupastjóri hjá Hagkaupum og Sævar langferðabílstjóri og rifjar Herdís upp að stundum hafi þau ekki séð ýkjamikið af hvort öðru, hún hafi ef til vill þurft að bregða sér til London og hann þá í þann mund að leggja af stað í hringferð um landið þegar hún kom heim og þar fram eftir götunum.

Eins hafi heilsa Sævars verið hluti ákvörðunar um að flytja í hærra hitastig. Hann bíður eftir nýrri mjöðm en er þó búinn að fara gegnum mjaðmaskipti öðrum megin auk þess að þurfa nýtt hné. „Ég þarf eiginlega nýtt bak og axlir líka,“ segir hann í léttum tón en hvað sem líður gömlum líkamshlutum og nýjum leggst kuldi norðlægra slóða illa í þetta ástand Sævars og hann hefur það einfaldlega mun betra í hitanum á Tenerife.

Villta vestrið fyrir útlendinga

„Við vorum svo heppin að við höfðum samband við fasteignasölu [á Tenerife] og þar var maður sem hafði verið kvæntur íslenskri konu og hann verður bara okkar verndarengill,“ rifjar Herdís upp. Hún segir fasteignasalann, sem var breskur en er nú látinn, hafa fundið handa þeim íbúð og næst á dagskrá væri að finna húsnæði fyrir bar, en þau yrðu að vera á staðnum meðan á þeirri leit stæði.

Róðurinn tekinn að þyngjast á barnum en Herdís lætur það …
Róðurinn tekinn að þyngjast á barnum en Herdís lætur það ekki trufla sig við að segja eina góða laxveiðisögu, alltént mætti draga þá ályktun af handahreyfingunum. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Nú gellur óvænt í Sævari þegar frásögnin snýst að húsnæðisleitinni. „Þetta er bara villta vestrið fyrir útlendinga hérna sem eru svo „höstlaðir“ [hlunnfarnir] af öðrum útlendingum,“ segir hann og kona hans tekur við: „Ef þeir vita að þú átt pening eru þeir til í að selja þér allt. Hér var til dæmis einn aðili sem var tilbúinn að selja okkur bar sem okkur leist mjög vel á, en hann gat ekki sannað að hann ætti hann.“

„Allt var klárt,“ segir Sævar, „við stóðum fyrir utan bæjarskrifstofurnar í Arona og hann þurfti bara að sækja einn pappír þangað inn, en það gat hann ekki gert.“ Í ljós hafi svo komið að maðurinn var búinn að selja rekstur staðarins nokkrum aðilum, hverjum fyrir sig, og ekki örgrannt um að persóna Halldórs Laxness úr Heimsljósi, Pétur þríhross, framkvæmdastjóri á Sviðinsvík undir Óþveginsenni, komi upp í hugann, sem veðsetti þremur mönnum sama hrossið.

Verða að hafa gestor

Segir Herdís að þeim hafi snemma í ferlinu verið uppálagt að útvega sér það sem á spænsku nefnist gestor og er aðili sem annast öll samskipti við stjórnvöld, umsóknir, pappírsvinnu og annað því um líkt í nafni erlendra aðila sem eru að hefja rekstur. Herdís segir að þau hafi í fyrstu óttast að gestorinn hlunnfæri þau Íslendingana, hafði heyrt sögur af slíku, peningum stungið í eigin vasa og fleira, en þær áhyggjur reyndust ástæðulausar.

„Hann leiddi okkur í gegnum allt saman, sagði hvaða pappíra við þyrftum að koma með hvert og hvenær, þetta er, eins og þú heyrðir frá Önnu og Jóa [Önnu B. Gunnarsdóttur og Jóhanni K. Kristjánssyni sem mbl.is ræddi við 30. desember] rosalega mikill pappír og endalaus ljósrit sem þarf að leggja fram,“ segir Herdís frá og nefnir ýmis dæmi um hindranir sem gott hafi verið að njóta aðstoðar heimamanns við, svo sem að þegar þau loksins hafi verið komin með húsnæði undir Nostalgia-barinn og búin að ganga frá leigu þar, hafi þurft að skipta um raflagnir í húsnæðinu.

Árið 2020 gengur í garð og Íslendingar flykkjast út að …
Árið 2020 gengur í garð og Íslendingar flykkjast út að ströndinni til að fylgjast með spænskri flugeldasýningu, syngja og óska gleðilegs árs lengst suður í Atlantshafi. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Eigandi hússins skiptir ekki um raflagnir svo við þurftum að láta draga í allt hérna. Það næsta sem kom í ljós var að kvennaklósettið var 20 sentimetrum of lítið til að fá vottun sem klósett fyrir fatlaða þó svo fatlaðir hafi hiklaust notað það fram að því. Svo við eyddum heilmiklum peningum í að koma svona hlutum í lag,“ rifjar Herdís upp og minnist fyrstu skrefa Íslendinganna í veitingarekstri á Spáni.

Sáu fyrir sér mun minni stað

Þau sambýlingarnir notuðu fjóra mánuði í að finna húsnæði undir rekstur sinn. Herdís segist fyrst hafa séð fyrir sér mun minni stað, litla skonsu með átta borðum eða svo, og þótt það húsnæði sem síðar varð Nostalgia fullstórt. „En það sem við sjáum núna er að við hefðum aldrei lifað af þessu átta borða dæmi,“ segir hún og bætir því við að margir dagar í rekstrinum komi út á núllpunkti.

„Það sem við lifum á eru grillveislurnar, landsleikirnir, gamlárskvöld og hangikjötið og við hefðum aldrei getað verið með átta borð í hangikjötinu,“ nefnir Herdís sem dæmi enda fullt út úr dyrum í íslenska hangikjötsveislu á jóladag og aftur á annan í jólum og mesta gestafjölda sem sótt hefur staðinn samtímis segir hún hafa verið 500 manns þegar landsleikur í fótbolta stóð yfir.

Markaðssetning og auglýsingamennska hófst á frumstæðan hátt, Herdís tók sér einfaldlega stöðu á flugvellinum og afhenti íslenskum flugfarþegum dreifildi þegar þeir komu í fríið. Strangt til tekið banna reglur flugvallarins þó slíka starfsemi. „Ég hugsaði þá bara með mér að ég gerði bara eins og Spánverjarnir, gerði bara hlutinn þar til mér yrði sagt að það væri bannað,“ segir Herdís og brosir að minningunni.

Íslendingar á Tenerife létu sig ekki vanta í hangikjötsveislu annan …
Íslendingar á Tenerife létu sig ekki vanta í hangikjötsveislu annan í jólum enda þurfti tvær, uppselt var í hangikjötið á jóladag. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Hún segist þó hafa komist upp með háttsemina nokkuð lengi, þar sem hún var eingöngu viðstödd á flugvellinum þegar flugin frá Íslandi voru að lenda. Að lokum var Herdísi þó bent á að hún þyrfti leyfi til að dreifa auglýsingum á flugvellinum. „Þá vorum við búin að gera þetta í sjö mánuði og ansi margir farnir að vita af okkur. Fólk var að koma til mín lengi á eftir og segja „hva, ég sá þig ekki uppi á velli,“,“ segir hún og hlær.

Eldri konur hrifnar af Sævari

Markaðssetningin nú orðið sé bundin við Facebook-síðu staðarins auk þess að Íslendingasamfélagið á Tenerife þekki þau nú býsna vel og margir þeirra sem eru gestkomandi á eyjunni. Þar á meðal má nefna finnska hópinn sem heimsækir Nostalgia á laugardögum í mat, drykk og karaókí-söng en finnsk útvarpsstöð fjallaði sérstaklega um barinn í tengslum við þær samkomur.

Herdís segir þau þurfa töluvert að söðla um eftir árstíðum, til dæmis hvað tónlist varðar, þar sem mun meira sé um ungt fólk á sumrin en viðskiptamenn vetrarins sjónarmun eldri. Þá þurfi að stilla tónlistarvalið eftir því, Sævar sjálfur syngur til dæmis hiklaust og átti tvær mjög góðar atrennur í karaókí sem blaðamaður sá til nokkrum dögum fyrir viðtalið.

Sævar flytur hér finnskum áheyrendum lag John Lennon, Imagine, af …
Sævar flytur hér finnskum áheyrendum lag John Lennon, Imagine, af slíkri innlifun, laugardagskvöldið 28. desember, að Finnana setti hljóða. Hópur finnskra ellilífeyrisþega, sem búsettir eru á Tenerife yfir veturinn, borðar hjá Herdísi og Sævari á laugardögum, spilar bingó og endar svo allt saman í karaókí og hefur finnsk útvarpsstöð meðal annars sent fólk á staðinn til að fjalla um þessi finnsku kvöld. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Eldri konur eru mjög hrifnar af Sævari,“ segir Herdís og þau vertarnir skellihlæja bæði, „ég segi stundum að hann sé sérfræðingur í eldri konum,“ bætir hún við glottandi og segir því næst frá grillveislum sem þau halda fyrir hópa eldri borgara frá íslenskum ferðaskrifstofum, mest 120 manns í einu. Þrátt fyrir að hvorugt þeirra sé faglært í framreiðslu gangi þetta alltaf mjög vel fyrir sig. „Ég held kannski ekkert rétt á bakkanum og eitthvað svona en við reynum bara að hafa þetta heimilislegt og fólk kann að meta það, við erum knúsuð hérna í bak og fyrir þegar fólk fer,“ segir Herdís.

Kjörfundur er settur...á klósettinu

Sem dæmi um hve innvígður Nostalgia-barinn er í samfélag Íslendinga á Tenerife má nefna að hann er í raun ígildi ræðismannsskrifstofu á eyjunni. Kom þetta þannig til að fyrir alþingiskosningarnar 2017 þótti bagalegt að ræðismaður Íslands á svæðinu hefur aðsetur á Gran Canaria, eyjunni norðan við Tenerife, og þurftu Íslendingar því að leggja leið sína þangað til að kjósa.

Rótgrónum Íslendingi á Tenerife, sem áður hafði búið á meginlandi Spánar, þótti svo mikið óhagræði að þessu fyrirkomulagi að hann sótti það fast að fulltrúi ræðismannsskrifstofunnar kæmi til Tenerife og héldi kjörfund. Ræddi hann meðal annars við utanríkisráðuneytið á Íslandi sem fór í málið og svo varð úr að Íslendingar á Tenerife gátu komið á barinn og kosið. „Kvennaklósettið er kjörklefinn,“ segir Herdís sposk á svip. En þá átti eftir að koma atkvæðunum til lands elds og ísa.

„Þetta var allt saman innsiglað í eitt umslag sem við þurftum að sjá til að yrði farið með til Íslands. Sævar brunaði með umslagið upp á flugvöll og mætti fyrir framan check-in röðina. Hann þekkti hálfa röðina því margir voru búnir koma til okkar, en hann átti erfitt með að losna við umslagið. Að lokum bauðst einn eldri maður til að taka það með sér og koma því til Íslands,“ segir Herdís frá og þannig lauk þeirra fyrsta hlutverki sem kjördeild á Tenerife.

Eins hefur Herdís verið yfirsetumanneskja í prófum sem íslenskir nemendur hafa tekið á barnum. „Kennarinn hafði samband við mig og lét mig skrifa undir ákveðið plagg,“ útskýrir hún aðdraganda þessa. „Ég opnaði því snemma þann daginn svo nemandinn hefði frið til að taka prófið. Síðan skannaði ég það inn og sendi á kennarann,“ segir hún frá hlutverki Nostalgia-barsins í íslensku menntakerfi.

Annar nemandi og fullorðnari fékk hins vegar að njóta góðs af prófstofunni: „Eitt skipti var einn af okkar tryggu viðskiptavinum að taka próf sem hún átti að taka í tölvu og skipti því litlu máli hvar hún væri. Ég skenkti henni hvítvín og hún sagði við mig ári seinna að henni hefði aldrei gengið eins vel í prófi,“ segir Herdís og skellihlær að minningunni.

Ein algengasta spurningin sem brennur á íslenskum gestum Herdísar og Sævars snýr að peningahlið rekstrarins. Hvernig gengur þetta eiginlega þegar upp er staðið? „Sko, við værum ekki hérna ef allt væri í mínus,“ svarar Herdís, „þú getur rekið stað ákveðið lengi en við verðum ekki feit af þessu. Við hugsuðum þetta þannig að við gætum haft í okkur og á og við gerum það. Ef ég ætlaði að græða meiri peninga væri ég aldrei á Tenerife, hér er eiginlega enginn að mala gull nema kannski stóru hótelkeðjurnar. En við erum bara mjög sátt og þetta er gaman,“ eru þau Sævar sammála um við lok þessa spjalls.

mbl.is