6 mikilvæg atriði fyrir heilsuna á ferðalögum

Það er aldrei hægt að skipuleggja ferðalög svo mikið að …
Það er aldrei hægt að skipuleggja ferðalög svo mikið að ekki megi gera ráð fyrir óvæntum augnablikum. mbl.is/Unsplash

Á vef Forbes má lesa margvíslegar leiðir til að halda í heilsuna á ferðalögum. Eftirfarandi 6 atriði ætti enginn að láta fram hjá sér fara á ferðalögum, til að auka ánægjuna og fá sem mest út úr fríinu. 

Handþvottur og næring í flugi

Það sem er mikilvægt að gera nú oftar en áður er að passa upp á að vera með hreinar hendur á ferðalögum. Vertu dugleg/duglegur að þvo hendurnar á þér reglulega og notaðu sótthreinsandi gel á ferðalaginu. Eins er gott að vera með góðan varasalva og andlits- og handkrem í flugi. 

Svefn 

Þegar kemur að ferðalögum skiptir miklu máli að ná góðum svefni. Ef þú ert á leið utan þar sem tímamismunur er mikill er gott ráð að stilla klukkuna á þann tíma sem þú ert að fara. Notaðu Bose-heyrnartól og þægilegan fatnað til að sofa í vélinni ef það er nótt í landinu sem þú heimsækir. Góður þægilegur fatnaður og nóg af vatni gerir einstaklega mikið fyrir alla á ferðalögum.

Áfengi

Allir ættu að sleppa því að drekka áfengi í flugi að mati sérfræðinga. Áfengi býr til bólgur í líkamanum og hann þornar á flugi. Því er betra að vera með jurtate eða vatn í góðu íláti sem hægt er að fá endurfyllingu á reglulega. 

Hugleiðsla

Það getur skipt sköpum að hafa andlegu hliðina í lagi á ferðalögum. Góð hugleiðsla getur gefið fólki ró og kyrrð í hugann, sem samsvarar mörgum klukkustundum af svefni. 

Jákvæðni og afslappað geðslag er uppskriftin að góðu fríi. 

Samskipti

Hvergi er betra tækifæri til að kynnast nýju fólki en á ferðalögum. Því er alltaf mælt með því að vera með augun opin fyrir skemmtilegu og opnu fólki. 

Þó ber að varast að tala mikið við fólk sem er veikt, sér í lagi þar sem kórónaveiran er að dreifa sér víða. 

Æðruleysi

Að tileinka sér æðruleysi á ferðalagi er eitt af því sem skiptir miklu máli. Þótt flugvélin eigi að fara af stað á ákveðnum tíma, eða flugferðin eigi að taka visst langan tíma, er aldrei hægt að stóla alveg á það. 

Ef þú hins vegar gerir ráð fyrir aðeins meiri sveigjanleika í ferðadagskránni geta óvæntar uppákomur orðið spennandi tækifæri í stað streitu og volæðis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert