Upplifun að koma í alla skóga á Íslandi

Skóglendi heillar Ellert Arnar.
Skóglendi heillar Ellert Arnar. Ljósmynd/Aðsend

Ellert Arnar Marísson skógræktarráðgjafi heillaðist af skógrækt á menntaskólaárunum. Hann á sér nokkra uppáhaldsskóga á Íslandi og segir heillandi að geta notið víðsýnis á Íslandi þótt oft sé rok en um leið hafa þann möguleika að ganga í gegnum skóga og upplifa skjól og kyrrð. 

„Lífið, fjölbreytileikinn, kyrrðin og margt meira heillar við skógana. Eins þykir mér mjög gaman að hirða um þá og skipuleggja nýskógrækt. Það er gaman að koma að ræktun einhvers sem mun vonandi vaxa og dafna næstu áratugi og geta fylgst með vexti þess. Það kemur sífellt á óvart hvað skógar bjóða upp á mikið; sveppi, dýralíf, skjól fyrir nærumhverfið og svo framvegis. Mér þykir sérstaklega gaman að labba í gegnum skóga á Íslandi því það eru oft svo miklar andstæður við umhverfið í kringum mann. Það er mjög verðmætt að geta notið mikils víðsýnis þótt það sé oft rok sem fylgir, og geta svo farið í gegnum í skóg og upplifað skjól og kyrrð og allt annað vistkerfi,“ segir Ellert.

Ellert finnst gaman að taka þátt í að rækta eitthvað …
Ellert finnst gaman að taka þátt í að rækta eitthvað sem mun halda áfram að vaxa og dafna. Ljósmynd/Aðsend

„Þessi áhugi kviknaði þegar ég var að vinna við að hirða um opin svæði í Skagafirði fyrir garðyrkjudeild Skagafjarðar. Það var sumarvinna með menntaskóla. Þáverandi yfirmaður minn, Helga Björk Gunnlaugsdóttir, hvatti mig til að skoða skógfræðinám á Hvanneyri þegar ég fór að huga að frekara námi eftir menntaskóla. Að fara svo í gegnum BS-námið á Hvanneyri innsiglaði þetta í raun ef svo má segja, þar blómstraði áhuginn mikið þau námsár.“

Ljósmynd/Aðsend

Ellert telur Íslendinga meðvitaða um skógrækt og vilji jafnvel sjá fleiri skóga. Hann segir nokkra íslenska skóga í uppáhaldi hjá sér en segir jafnframt að allir skógar á Íslandi eigi sína eiginleika og sögu sem geri þá merkilega. „Þegar skógar þekja svona lítið hlutfall landsins er það upplifun að koma í þá alla,“ segir Ellert. 

„Kjarnaskógur í Eyjafirði er skemmtilegur skógur og skemmtilegt svæði, margar trjátegundir sem hægt er að skoða og kynnast þar. Vel er hugað að stígum og brautum fyrir útivist allan ársins hring.

Bæjarstaðaskógur í Morsárdal vestan við Skaftafell er náttúrulegur birkiskógur í fallegu umhverfi, merkileg saga þar og meira sem gerir það að skemmtilegum skógi til að upplifa.

Ljósmynd/Aðsend

Svo er að sjálfsögðu alltaf skemmtilegt að koma í Hallormsstaðarskóg í Fljótsdalshéraði. Vagga skógræktar á Íslandi og mikil saga sem fylgir. Þar hafa verið gerðar tilraunir með margar trjátegundir og því mikil flóra sem hægt er að upplifa þar í dag. Aðstaða til að njóta skógarins er góð, göngustígar, upplýsingaskilti og meira til staðar.“

Áttu þér einhvern uppáhaldsskóg erlendis eða skóg sem þig hefur alltaf dreymt um að heimsækja?

„Ég myndi vilja heimsækja Svartaskóg í Þýskalandi. Ég vil líka heimsækja risarauðviðar- eða einiskógana í Kaliforníu og regnskógana í Kongó og Brasilíu.“

mbl.is