Greiða farþegum sem smitast af veirunni 1,1 milljón

Vietjet Air býður greiðslur til þeirra sem smitast um borð.
Vietjet Air býður greiðslur til þeirra sem smitast um borð. Ljósmynd/WikiCommons

Víetnamska flugfélagið Vietjet tilkynnti á dögunum að ef farþegar smitist af kórónuveirunni um borð í flugvélum þeirra muni félagið greiða skaðabætur allt að 1,1 milljón íslenskra króna.

Bæturnar er hluti af nýju tryggingakerfi flugfélagsins og nær yfir öll flug félagsins á milli 23. mars til 30. júní 2020. Þær verða í boði fyrir alla farþega félagsins, án endurgjalds og án ákvæða um aldur eða þjóðerni. 

Í tilkynningu frá flugfélaginu segir að farþegar flugfélagsins séu tryggðir frá klukkan 00:01 á brottfarardegi og í þrjátíu daga eftir það, óháð því hvernig áhrif veiran hefur á viðkomandi. 

Einnig kemur fram að flugfélagið hafi lagt til hliðar þúsundir milljarða víetnamskra donga til að dekka tryggingakerfið sem sé hannað til þess að veita farþegum öryggi. 

Til þess að sækja um tryggingarnar þurfa flugfarþegar að gefa upp fullt nafn, fæðingardag, símanúmer, tölvupóstfang og sýna gild skilríki. 

Þeir sem eru nú þegar smitaðir af kórónuveirunni eiga ekki rétt á trygginunni og ekki heldur þeir sem brjóta fyrirskipum um sóttkví frá heilbrigðisyfirvöldum. 

mbl.is