Ferðahökk fyrir snyrtipinnann

Snyrtitaska.
Snyrtitaska. Ljósmynd/Colurbox

Það getur verið mikill tímasparnaður að vera vel skipulagður fyrir ferðalagið. Margir kannast við það að þurfa að kasta til höndum á síðustu stundu og taka þá annaðhvort allt of mikið með sér eða of lítið. Hér eru nokkur hagnýt ráð sem hægt er að hafa í huga áður en lagt er af stað í ferðalagið en að mörgu er að hyggja enda ýmislegt sem getur komið upp á þegar fólk leggur land undir fót.

Eigðu tvennt af öllu

Mælt er með því að verða sér út um þar til gert snyrtiveski með mörgum gegnsæjum hólfum sem hægt er að fylla á eftir þörfum og hafa til taks þegar á þarf að halda. Þá er sérstaklega mælt með að snyrtiveskið sé með hanka svo maður geti hengt það upp á áfangastað og séð greinilega hvar hver hlutir sé. Slík snyrtiveski má finna á netinu með því að slá inn leitarorðin „hanging travel toiletry bag“.

Gott er að eiga til dæmis auka tannbursta og annað nauðsynlegt sem er einungis fyrir veskið. Þá þarf ekki að pakka í töskuna í hvert skipti, heldur er hún tilbúin allt árið um kring.

Taktu með þvottaefni

Sjampó þurfa ekki að vera í stórum umbúðum sem taka mikið pláss í farangrinum. Hægt er að fylla á þar til gerða ferðabrúsa sem fást í búðum á borð við Eymundsson eða Tiger. Þá er líka hægt að kaupa sápustykki sem fást í heilsuhúsum og eru fyrir bæði húð og hár.

Fátt er leiðinlegra en að útmá hvíta bolinn strax á fyrsta degi ferðalags. Þá er sniðugt að venja sig á að hafa þvottaefni meðferðis í litlum ferðabrúsa og tannbursta til þess að nudda efninu í blettinn og skola úr í næsta vaski.

Eitt sígilt ferðaráð er að rúlla upp fötunum í ferðatöskuna til þess að taka sem minnst pláss. En það ráð sem færri þekkja er að setja mýkingarblöð í ferðatöskuna til þess að fötin haldi góðri angan á ferðalaginu. Gott er að geyma nokkur slík í snyrtiveskinu og bæta á eftir þörfum.

Tékklistinn:

  • Tannkrem
  • Tannbursti
  • Tannþráður
  • Sjampó og hárnæring
  • Ilmvatn
  • Svitalyktareyðir
  • Plástrar, venjulegir og fyrir hælsæri
  • Verkjalyf
  • Ofnæmislyf
  • Sólarvörn
  • Bómullarskífur
  • Spritt
  • Naglaklippur
  • Snyrtivörur sem notaðar eru daglega t.d. maskari, dagkrem, varasalvi
  • Þvottaefni og tannbursti
  • Flísatöng/plokkari
  • Mýkingarblöð



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert