Þór elti drauminn og flutti til Tortóla

Þór Örn starfar sem siglingakennari á Tortóla.
Þór Örn starfar sem siglingakennari á Tortóla. Ljósmynd/Aðsend

Siglingakennarinn Þór Örn Flygenring ákvað að flytja til Tortóla í lok síðasta árs. Hann hafði unnið við siglingar á Íslandi en langaði að komast í veðurfar sem gerði honum kleift að vinna við ástríðu sína allan ársins hring. Þór Örn hefur verið á eyjunni í kórónuveirufaraldrinum en eftir útgöngubann er lífið á eyjunni smátt og smátt að komast í sinn vanagang. 

„Ég hafði hugsað mér að koma mér niður í Karíbahafið eftir sumarið 2020 en írskur þjálfari sem var að kenna á sama svæði og ég var kominn hingað og sendi mér skilaboð í lok síðasta árs um að það væri laus staða hér. Svo ég sló til og sótti um. Ég hafði aldrei komið hingað svo ég vissi í raun ekkert meira um þennan stað en aðrir Íslendingar. Það sem heillar mig er að sjálfsögðu veðráttan, strendurnar og fjölbreytnin í bátamenningu og vatnasporti. Þessar eyjar eru oft kallaðar siglingahöfuðborgir heimsins,“ segir Þór Örn um ástæðu þess að hann flutti á eyju í Karíbahafinu. 

Margt breyst á síðustu árum

Margir hugsa um Tortóla í tengslum við skattsvik en Þór Örn segir margt hafa breyst á síðustu árum.

„Þetta er aðeins breytt síðan fyrir hrun. Það er ekki lengur eins hagstætt að skrá fyrirtæki hér. Það er sem sagt búið að hækka skatta á fyrirtækin, þeir eru þó ekki eins háir og á Íslandi.“

Lífið á eyjunni er töluvert afslappaðra en á Íslandi. 

„Það virðist sem fólk hér flýti sér hægt, nema þegar fólk er að keyra. Það sem einkennir samfélagið er áhugi á hafinu og allskyns vatnasporti. Ég er nokkuð viss um að ég sé eini Íslendingurinn hér. Fólk finnst það oftast mjög áhugavert að hitta Íslending hér og ekki skemmir nafnið fyrir. Þegar ég er ekki að vinna hef ég verið að kíkja á ströndina, prófaði brimbretti um síðustu helgi. Svo keypti ég nýlega mótorhjól og er því mikið að keyra um og skoða eyjuna.“

Þór Örn keypti sér mótorhjól og hjólar um eyjuna.
Þór Örn keypti sér mótorhjól og hjólar um eyjuna. Ljósmynd/Aðsend

Byrjaði í siglingum sem ungur drengur

Þór Örn byrjaði í siglingum fyrir tæpum 20 árum eða þegar hann var átta ára gamall. Siglingar voru ekki fjölskyldusport heldur sá hann einfaldlega auglýsingu um sumarsiglinganámskeið hjá Siglunesi í Nauthólsvík. 

„Foreldrar mínir skráðu mig á námskeiðið og það var svo gaman að ég fór aftur og aftur. Svo fékk ég að vera svokallaður klúbbari, sem þýddi að ég fékk að koma allt sumarið og nota þá báta sem ekki voru í notkun á námskeiðinu. Í dag er jafnvel enn fleiri möguleikar á að byrja í siglingum. Það eru Siglingaklúbbar um allt land sem eru með námskeið fyrir bæði fullorðna og börn. Svo eru allavegana stærstu sveitafélögin með bátanámskeið fyrir börn þar sem er farið í grunninn á skútusiglingum. Svo eru keppnir alla þriðjudaga á sumrin sem eru gerðar út frá Reykjavíkurhöfn fyrir aftan Hörpu, Og er öllum áhugasömum sem koma þangað tekið fagnandi.“

Það má eiginlega segja að Þór Örn sé kominn aftur á byrjunareit en í allt örðu hlutverki þar sem að starf hans á Tortóla felst í að kanna börnum siglingar eftir skóla. 

„Sjálfur hef ég ekki verið mikið í keppnissiglingum svo ég var ráðinn inn til að einbeita mér að yngri börnunum og að gera æfingarnar skemmtilegar og passa upp á að öllum líði vel og séu öruggir, ég tek þó einnig þátt í að þjálfa keppniskrakkana. Áður en krakkarnir mæta erum við í hinum ýmsu verkefnum eins og að gera við báta, undirbúa æfingarnar, gera aðstöðuna betri. Undir venjulegum kringumstæðum værum við líka að skipuleggja æfingabúðir og siglingakeppnir.“

Siglingar eru ein helsta ástríða Þórs Arnars.
Siglingar eru ein helsta ástríða Þórs Arnars. Ljósmynd/Aðsend

Öllu skellt í lás 

Hvernig hefur lífið á eyjunni verið í kórónuveirufaraldrinum? 

„Landamærin lokuðu um miðjan mars og eru enn lokuð. Þegar fyrsta tilfellið kom upp þann 25. mars var öllu skellt í lás og fengum við tvo daga til að versla í matinn fyrir næstu sex daga. Það var algjört útgöngubann. Það mátti ekki einu sinni fara út fyrir nauðsynjar. Eftir það var útgöngubanninu framlengt um 14 daga og fengum við þrjá daga til að græja allar nauðsynjar fyrir það. Ég endaði á að standa þá í röð í um átta klukkutíma í steikjandi hita fyrir utan matvöruverslunina.

Eftir 14 daga var aftur framlengt um 14 daga og mátti enginn fara út á milli og versla í matinn. Við áttum að panta matinn á netinu og fá sent heim að dyrum sem hefði undir venjulegum kringumstæðum tekið þrjá daga. Á þeim tímapunkti átti ég eftir um þrjá lítra af vatni og tvær kjúklingabringur. Móðir mín vildi á þeim tímapunkti hafa samband við utanríkisráðuneytið og láta þá senda þyrlu til að sækja mig. Þar sem ég er í björgunarsveitninni hér úti bauðst mér um kvöldið að fara yfir nóttina að aðstoða við að pakka í matarkassa sem ríkið var að senda á fjölskyldur. Þá gat ég nýtt mér tækifærið og komst í búðina og sótti þær vörur sem ég hafði pantað. Eftir þessa 14 daga var aflétt útgöngubanninu frá sex á morgnana til hádeigis. Það gekk í um mánuð.

Nú er leyfilegt að vera úti frá klukkan sex á morgnana til sjö á kvöldin og eru fyrirtækin hér að opna hægt og rólega. Yfir versta tímann hringdi ég myndsímtöl í alla fjölskylduna að minnsta kosti einu sinni á dag. Þau voru mjög hjálpleg og veittu mér mikinn stuðning. Það er nýbúið að leyfa bátaumferð án mótors. Svo við erum að vonast eftir að geta byrjað aftur að kenna fljótlega. Eins og er eru enginn virk smit hér og enginn í sóttkví. Átta smituðust og eitt dauðsfall.

Á meðan við erum ekki búinn að vera að kenna höfum við verið að búa til kennslumyndbönd og ýmis verkefni sem við sendum út á krakkana. Ég bjó til dæmis til kennslumyndband um víkingaskipin og ýmis heiti á hlutum í bátum sem koma frá íslenskunni og víkingatímanum. Einnig kenndi ég líka ýmsa hnúta.

Starfshlutfallið mitt hefur verið lækkað niður í 50% eins og er og hér býðst engin hlutabótaleið. Þegar það var tilkynnt var ég virkilega mikið að íhuga að koma heim. En það er ekki svo einfalt þar sem það eru engin flug eða ferjur. Ég fann þó franska stráka sem voru hér með skútu og voru að leita af fleiri áhafnarmeðlimum til að sigla yfir til Evrópu. Þaðan hefði ég getað flogið heim. En það varð þó ekkert að því og lýtur þetta bara ágætlega út hér núna.

Þór Örn er ekki búinn að skipuleggja framtíðina og segir að hann geri bara það sem hann langar til hverju sinni. 

„Ég gæti hugsað mér að flytja til Skandinavíu eftir einhver ár og vinna í einhverju tengdu siglingum. En ég held að það sé nokkuð öruggt að ég flyt heim einhvern tímann. Ísland er nefninlega ekki svo slæmt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert