Fundu ástina á Reykjavíkurflugvelli

Chris Curnow og Jana Doubalove fundu ástina á Reykjavíkurflugvelli.
Chris Curnow og Jana Doubalove fundu ástina á Reykjavíkurflugvelli. Ljósmynd/Tony Grant

Jana Doubalova var á leið í gönguferð um Hornstrandir á Íslandi þegar hún rakst utan í Chris Curnow á Reykjavíkurflugvelli í júlí árið 2017. Í dag eru þau hamingjusamlega gift og eiga von á sínu fyrsta barni. 

Duobalova er ættuð frá Tékklandi en Curnow frá Ástralíu þar sem þau búa núna. Þau sögðu söguna af því hvernig þau hittust í viðtali við The Guardian

Curnow segir að hann hafi verið að leita að áhöfn sinni þegar hann tók eftir Doubalova á flugvellinum. Curnow var á leið í siglingu frá Ísafirði til Grænlands og fóru þau því í sama flugið frá Reykjavík til Ísafjarðar. 

Á flugvellinum á Ísafirði gafst þeim tækifæri til að spjalla meira saman. Siglingunni seinkaði aðeins og svo fór að Doubalova skellti sér með Curnow á barinn í nokkra tíma. Þau skiptust á símanúmerum í kjölfarið. Bátur hans lagði svo úr höfn síðar um daginn.

Það var þó eins og þeim Doubalova og Curnow hafi verið ætlað að eyða meiri tíma saman því skipstjóri bátsins ákvað að þau gætu ekki siglt til Grænlands fyrr en daginn eftir og því sneri báturinn aftur í höfn eftir stutta siglingu. 

Curnow greip því tækifærið og kyssti Doubalova bless. 

Síðar sendi hann henni smáskilaboð en hún svaraði ekki strax því hún var ekki í símasambandi. Seinna svaraði hún honum og ákvað að bjóða honum í heimsókn til Prag. 

„Ég hikaði ekki. Ég breytti strax fluginu mínu svo ég gæti stoppað í Prag í nokkra daga á leiðinni heim til Ástralíu,“ sagði Curnow. Heppnin var þó ekki með þeim en vegna fráfalls ættingja þurfti Dubalova að fara til Frakklands einmitt þegar von var á Curnow.

Þau héldu þó áfram að vera í sambandi í gegnum netið og í október það ár ákvað Doubalova að skella sér til Perth í Ástralíu í 10 daga. 

„Ég var svo stressuð en þetta gekk upp. Ég efaðist ekki frá fyrsta augnablikinu,“ sagði Curnow. 

Í mars 2018 heimsótti Curnow svo Doubalova í Prag og skráði sig stuttu seinna í tékkneskuskóla. „Um sumarið gerði ég svo stórt skilti þar sem ég bað hana að giftast mér á tékknesku. Ég sýndi henni það þegar við hittumst í komusalnum á flugvellinum í Prag,“ sagði Curnow. 

Þau gengu í það heilaga í nóvember 2019 eftir rúmlega árs fjarsamband en stuttu eftir brúðkaupið flutti Doubalova til Perth. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert