Heilsuráð fyrir ferðalagið

Vertu hress á ferðalaginu, ekkert stress.
Vertu hress á ferðalaginu, ekkert stress.

Rannsóknir hafa sýnt að streita á ferðalögum getur gert mann líklegri til þess að veikjast. Það að sofa í ókunnugu rúmi, sitja langtímum saman í bíl eða flugvél, borða óhollan mat. Allt eru þetta hlutir sem geta valdið líkamanum álagi og streitu. Ferðavefurinn tók saman nokkur góð ráð til þess að tryggja að fríið fari ekki úr skorðum.

  • Taktu með þér lítinn bolta í ferðalagið. Það að sitja í bíl eða flugvél langtímum saman getur reynt mjög á stoðkerfið. Því er gott ráð að hafa meðferðis lítinn nuddbolta eða tennisbolta sem maður staðsetur á milli baks og stóls og hreyfir sig til og frá. Þannig nær maður að nudda álagssvæði, losa um hnúta og koma í veg fyrir að nýir hnútar myndist.
  • Passaðu upp á mataræðið. Oft vill matarræðið fara úr skorðum á ferðalögum og fólk upplifir uppþembu og harðlífi. Því er mikilvægt að leggja áherslu á hollustu. Vatn, grænmeti, fiskur og kjöt eru allt góðir kostir. Það er vel hægt að gera vel við sig án þess að missa sig í sætindum. 
  • Ekki draga ferðalagið á langinn. Ef þú átt að mæta í vinnuna á mánudegi er gott að vera kominn heim á laugardegi. Þá upplifirðu ekki óþarfa streitu og ert búinn að jafna þig á ferðalaginu. Þannig hefurðu líka tíma til þess að aðlagast breyttu tímabelti ef því er að skipta.
  • Drekktu mikið af vatni á ferðalagi. Aukin þreyta og hausverkir geta gert vart við sig ef maður er ekki nógu duglegur að drekka vatn. Hafðu með þér vatnsflösku og vertu sérstaklega duglegur að drekka vatn inn á milli áfengra drykkja. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert