Horfðu út um gluggann hjá öðrum

Skiptu um útsýni.
Skiptu um útsýni. Ljósmynd/Unsplash/Gabriel Tenan

Þó við Íslendingar höfum aldrei lent í útgöngubanni í heimsfaraldrinum þá eru enn þá margir í heiminum sem mega ekki fara út eða vilja ekki fara út vegna kórónuveirunnar. Vefurinn Window-Swap.com gerir fólki kleift að horfa út um gluggann hjá einhverjum öðrum, annarsstaðar í heiminum. 

Þau sem búið hafa við útgöngubann síðan í mars eru eflaust orðin mjög þreytt á útsýninu sínu út um gluggann og því ferskur andblær að fá að kíkja út um gluggann hjá einhverjum öðrum til tilbreytingar. 

Á Window-Swap er hægt að kíkja út um gluggann hjá fólki hvaðanæva að úr heiminum, allt frá sólsetri í Sao Paulo eða rigningardegi í New York. 

Höfundar vefsins, hjónin Sonali Ranjit og Vaishnav Blasubramaniam, eru búsett í Singapúr og kalla hann sóttkvíar verkefnið sitt. 

„Af því að sannleikurinn er sá að það er frekar langt í að við getum ferðast aftur og vaknað við nýtt útsýni. Þannig að þangað til getum við ferðast um heiminn í netheimum og horft út um gluggann hjá einhverjum öðrum,“ sagði Ranjit. 

Allir geta lagt sitt af mörkum og tekið upp tíu mínútna myndband út um gluggann sinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert