Ekki gera þessi mistök á húsbílnum

Stærra er ekki alltaf endilega betra þegar kemur að húsbílum.
Stærra er ekki alltaf endilega betra þegar kemur að húsbílum. Ljósmynd/Unsplash/Damon On Road

Húsbílar hafa verið gríðarlega vinsæll ferðamáti í sumar. Það er þó ýmislegt sem ber að varast þegar kemur að því að velja sér húsbíl. Ef þú hefur aldrei leigt þér húsbíl ættirðu að hafa þetta í huga. 

Stærra ekki endilega betra

Þar sem þú ert að fara að eyða töluverðum tíma í húsbílnum viltu hafa það þægilegt. Tilhugsunin um að ferðast á litlum bíl veldur þér jafnvel innilokunarkennd. Það þýðir þó ekki að stærsti bíllinn sé besti kosturinn. Sannleikurinn er hins vegar sá að minni bílar eyða töluvert minna af bensíni. Það er auðveldara að keyra þá og finna bílastæði. Þar að auki er auðveldara að pakka í bílinn. 

Sleppa prufukeyrslu

Ef þú telur þig þurfa stærri týpu af húsbíl eða ert ekki vanur að keyra stærri bíla er lykilatriði að taka smá prufurúnt áður en lagt er af stað. Farðu með bílinn á næsta stóra bílastæði og keyrðu nokkra hringi og æfðu þig að leggja bílnum þokkalega. 

Fylgjast ekki með eldsneytiseyðslunni

Að verða bensínlaus uppi á miðri Holtavörðuheiði er ekki góð byrjun á ferðalaginu. Stærri bílar eyða meira og sérstaklega ef þeir eru fullir af fólki og dóti. Það er því mikilvægt að gera sér grein fyrir eyðslunni þegar lagt er af stað. Þeir sem velja hjólhýsi í stað húsbíls ættu einnig sérstaklega að vera meðvitaðir um þetta. 

Gleyma að taka hring um bílinn áður en lagt er af stað

Það er mjög gott að temja sér að ganga að minnsta kosti einn hring, ef ekki tvo, í kring um húsbílinn áður en lagt er af stað. Passaðu að loka öllum hlerum og að allar leiðslur séu fastar. Passaðu líka að loka öllum skúffum og skápum inni í bílnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert