Hvernig áttu að leigja húsbíl?

Hvað þarftu að taka með í húsbílinn?
Hvað þarftu að taka með í húsbílinn? Ljósmynd/Pexels

Það eru eflaust margir að skoða þann valmöguleika að kanna landið okkar fallega í sumar á húsbíl. Erlendir ferðamenn hafa án efa verið í meirihluta síðustu ár þegar kemur að húsbílum á þjóðvegum landsins en í ár verður breyting á því.

Þegar kemur að því að leigja húsbíl er ýmislegt sem þarf að hafa í huga. Það fyrsta sem þarf að leiða hugann að er hvort þú hafir kunnáttuna til að keyra aðeins stærri bíl. Ef þú treystir þér ekki í stóran bíl bjóða bílaleigur landsins upp á marga smærri kosti sem auðveldara er að keyra.

Önnur spurning sem þú ættir að spyrja þig er, hversu stóran bíl þarftu? Þá er gott að vera kominn með grófa ferðaáætlun í huga og vita hversu margir verða í bílnum. 

Bókaðu fram í tímann á netinu

Þessi regla á við flest þegar kemur að ferðalögum. Best er að bóka með nokkrum fyrirvara. Ef þú hefur tök á því að skipuleggja fram í tímann ættirðu alltaf að gera það. Það eru þó eflaust margir að ranka við sér núna eftir samkomubann og fatta að þeir eru ekki að fara til Tenerife eða Mallorca í sumar. Það er þó aldrei of seint og víða hægt að finna húsbíl á góðu verði fyrir sumarið. 

Nýttu þér tilboð

Vegna ástandsins í þjóðfélaginu í dag eru margar bílaleigur með tilboð fyrir sumarið. Tilboðin hjá flestum eru tvískipt, eitt verð fyrir síðustu helgina í maí og fram í júní og annað verð fyrir júlí og ágúst. Nýttu þér þessi tilboð óspart. 

Best er að bóka fram í tímann, en nýttu þér …
Best er að bóka fram í tímann, en nýttu þér tilboð ef þú getur. Ljósmynd/Pexels

Berðu saman tilboðin

Það er ekkert að því að taka netrúnt um helstu bílaleigur landsins og bera saman tilboðsverðin. Það ætti í rauninni að vera skylda ef þú ætlar að reyna finna hagstæðasta tilboðið. Þú gætir líka sent bílaleigunum tölvupóst og óskað eftir tilboðum. 

Gerðu ráð fyrir aukakostnaði

Þótt þú hafir náð húsbíl á góðu tilboði þýðir það ekki að kreditkortið sé komið í sumarfrí. Það þarf að kaupa olíu á bílinn. Það þarf líka að kaupa mat, því morgunverður er ekki innifalinn í húsbílum eins og á hótelum. Gerðu því ráð fyrir öllu þessu þegar þú tekur saman kostnaðinn fyrir ferðalagið. Þar að auki kostar það að dvelja á tjaldstæðum, en upphæðin er þó ekkert til að kvarta yfir til styttri tíma.

Hvað þarftu að taka með í húsbílinn?

Það fer að sjálfsögðu eftir þörfum hvers og eins hverju þarf að pakka. Í hvernig ferð ertu að fara? Ætlarðu að græja allar máltíðir sjálfur í húsbílnum eða ætlarðu að stoppa á veitingastöðum og í sjoppum?

Það er líka sniðugt að pakka léttu nesti til að hafa með í bílnum svo þið þurfið ekki að stoppa í hverri einustu vegasjoppu. 

Hér er smá listi yfir hluti sem gæti verið gott að pakka:

 • Sængur og koddar/svefnpokar
 • Rúmföt
 • Sundföt og handklæði
 • Tuskur, viskastykki, ruslapokar
 • Sópur og fægiskófla
 • Klósettpappír og eldhúspappír
 • Skyndihjálparkassi
 • Útilegudiskar og glös
 • Dósaupptakari
 • Pokar, álpappír og álbakkar
 • Ferðagrill
 • Útilegustólar og borð
 • Lampa og vasaljós
 • Sólarvörn
 • Spilastokk og ferðaútgáfur af spilum
 • Hleðslukubb, bílahleðslutæki og snúrur
Góða ferð.
Góða ferð. Ljósmynd/Pexels
mbl.is