Fyrrverandi markaðsstjóri DV með nýtt fyrirtæki tengt ferðaþjónustu

Guðmundur R. Einarsson, fyrrverandi markaðs- og þróunarstjóri DV, er kominn …
Guðmundur R. Einarsson, fyrrverandi markaðs- og þróunarstjóri DV, er kominn með nýtt fyrirtæki.

Guðmundur R. Einarsson, fyrrverandi markaðsstjóri DV, og Guðrún Líf Björnsdóttir hafa stofnað fyrirtækið Skapalón sem er nýtt birgðakerfi fyrir fólk sem vinnur í ferðaþjónustu. Það sérhæfir sig í að halda utan um birgðastöðu og nálgast sölutölur í rauntíma. 

„Hugmyndin að Skapalóni kviknaði stuttu áður en heimsfaraldur COVID-19 skall á með öllum sínum þunga, en í ládeyðunni á þessum óvissutímum glæddist neistinn til að gera Skapalón að veruleika. Skapalón er hluti af mótspyrnunni, tækifæri til að endurhugsa ferðaþjónustuna, sem hefur orðið fyrir gríðarlegu höggi síðustu mánuði,“ segja Guðmundur og Guðrún. 

Guðrún Líf Björnsdóttir.
Guðrún Líf Björnsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Guðrún segir að nú sé réttur tími til að ráðast í það að endurhugsa ferðaþjónustuna á Íslandi eins og hún leggur sig. 

„Í öllum lægðum felast tækifæri til framfara og það er nákvæmlega markmið Skapalóns, að stuðla að því að hrinda þessum framförum í framkvæmd,“ segir Guðrún sem er framkvæmdastjóri fyrirtækisins. 

Í fréttatilkynningu kemur fram að teymið á bak við fyrirtækið hafi víðtæka reynslu af íslenska ferðabransanum. Guðmundur er markaðs- og þróunarstjórinn og hefur hann unnið við vefsíðuhönnun og -þróun síðustu áratugina. Hann hefur meðal annars unnið vefsíður fyrir CNN, Daily Mail og ríkislögreglustjóra, sem og unnið til verðlauna fyrir þróun og hönnun á vefsíðum fyrir ferðamannaiðnaðinn í Asíu.

„Skapalón er framtíðin. Kerfið er afar einfalt í notkun og þannig höldum við niðri kostnaði án þess að það bitni á gæðum. Við hlökkum til að vinna náið með ferðaþjónustuaðilum og taka þátt í því að skapa hér á nýjan leik gott og sjálfbært umhverfi fyrir íslenska ferðaþjónustu, enda á hún mikið inni eins og við sáum í sumar þar sem bróðurpartur Íslendinga fékk að enduruppgötva landið sitt,“ segir Guðrún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert