Fékk betra sæti eftir að hafa sætt kynþáttafordómum um borð

Dementria Poe fékk betra sæti í næsta flugi hjá Delta …
Dementria Poe fékk betra sæti í næsta flugi hjá Delta Air Lines. Ljósmynd/Facebook

Svört kona í Bandaríkjunum hefur lofað flugfélagið Delta Air Lines fyrir að berjast gegn kynþáttafordómum eftir að hún sætti kynþáttafordómum af hálfu hvítrar konu um borð í vél félagsins. 

Svarta konan, Demetria Poe, skrifaði langan pistil á Facebook-síðu sína fyrir tæpri viku þar sem hún útskýrir hvernig sætisfélagi hennar, hvít kona, sýndi henni mikla fordóma um borð. 

Poe var á leið frá Minneapolis til Washington D.C. í lok ágúst til að mæta til mótmæla. Eftir að hafa hjálpað konunni með töskurnar sínar hafi hún látið sig hverfa í stutta stund. Þegar hún kom til baka hafði hún skipt úr grímu með bandaríska fánanum yfir grímu sem á stóð „Blue lives matter“.

Blue Lives Matter hreyfingin er eins konar andsvar við Black lives matter-hreyfingunni (BLM-hreyfingunni). Hún vísar til stuðnings lögreglunnar. 

Þegar hvíta konan með bláu grímuna kom til baka sagði hún Poe upp úr þurru að hún styddi lögregluna í aðgerðum sínum gegn BLM-hreyfingunni. Poe segist hafa reynt að rökræða við hana en hún hafi brugðist við með kynþáttafordómum. Að lokum tóku aðrir farþegar um borð upp hanskann fyrir Poe á meðan flugþjónn færði hana í annað sæti. 

Þegar Poe var á heimleið frá Washington D.C. nokkrum dögum seinna komst hún að því að Delta Air Lines hafði uppfært bókunina hennar og gefið henni sæti á fyrsta farrými auk gjafapoka með Delta Black Lives Matter-nælu. 

mbl.is