Stefndu alltaf á að flytja til Spánar

Fjölskyldan við matarvagninn DOMO.
Fjölskyldan við matarvagninn DOMO. Ljósmynd/Bryndís Þóra Jónsdóttir

Inga Sörensdóttir og Kristján Bender búa á Spáni ásamt dóttur sinni. Ástin kviknaði á veitingahúsi á Ísland en stefnan var alltaf sett á að flytja til Spánar. Eftir tveggja ára fjarbúð vegna kokkanáms Kristjáns á Íslandi sameinaðist fjölskyldan að lokum um áramótin og er nú að hefja rekstur á matarvagni á Orihuela Costa-svæðinu en vagninn keyptu þau í byrjun árs. 

Inga hóf störf á Sjávarkjallaranum þegar hún var 15 ára og segist hafa verið með annan fótinn í eldhúsi síðan þá. Þau Kristján kynntust auðvitað á veitingastað en það var í eldhúsinu á Gamla vínhúsinu í Hafnarfirði. Inga segir að maðurinn sinn eigi ansi myndarlegan feril að baki. Hann byrjaði í matreiðslunámi árið 2015 og lærði meðal annars á Dill þegar þeir fengu Michelinstjörnuna. Hann kláraði svo námið á veitingastaðnum Moss á Reatreat-hóteli Bláa lónsins. 

„Beint eftir námið stökk hann svo á skemmtilegt tækifæri til að opna pop-up-stað í Mathöll Granda, Möns. Það var ótrúlega lærdómsríkt ferli.“ 

Kristján í eldhúsinu á Möns
Kristján í eldhúsinu á Möns Ljósmynd/Inga Sör

Draumurinn hefur þó alltaf verið að búa á Spáni. Inga flutti fyrst þangað árið 2012. 

„Ég flutti fyrst hingað 2012 og líkaði vel en raðir tilviljana leiddu mig aftur til Íslands, eftir á að hyggja sennilega bara til að næla í Kristján. Í nóvember 2017 var staðan bara þannig að það var að hrökkva eða stökkva, þáverandi leigusalar vildu hækka leigu, Kristján hálfnaður í námi sem takmarkaði innkomu fjölskyldunnar og við mæðgur bara stukkum,“ segir Inga um þá ákvörðun að flytja aftur til Spánar.

„Við lækkuðum útgjöld fjölskyldunnar um meira en helming við það að búa hvort í sínu lagi í þessi tvö ár. Nokkuð sem mig langar persónulega aldrei að prufa aftur, svona fjarvera tók vissulega á en við kunnum því mun meira að meta samveruna.“ 

Var það ekki erfið ákvörðun fyrir Kristján að elta þig eftir að hafa unnið á mörgum af flottustu stöðunum á Íslandi? 

„Þetta var alltaf planið, hann kláraði námið og kæmi svo. Svo komu bara ákveðin verkefni sem frestuðu því aðeins að hann gæti flutt, til dæmis Möns. Svo kom hann hingað í jólafrí sem framlengdist aðeins. Við keyptum matarvagn og svo skall á heimsfaraldur, átta mánuðum síðar er hann hér enn.“

Dóttir Kristjáns og Ingu unir sér vel í matarvagninum.
Dóttir Kristjáns og Ingu unir sér vel í matarvagninum. Ljósmynd/Inga Sör

Hvernig er lífið á Spáni?

„Dásamlegt, tók smástund að hægja aðeins á sér og venjast „mañana-landi“ en hér erum við ánægð, heilsuhraust og sátt. Ég get ekki hugsað mér að búa annars staðar. Ástfangin af menningu, sögu, veðurfari og náttúru Spánar. Það er svo gaman að aðlagast nýjum aðstæðum og nauðsynlegt að víkka sjóndeildarhringinn. Gera það sem gleður hjartað.“ 

Setti kórónuveiran strik í reikninginn hjá ykkur?

„Kórónuveiran held ég að hafi nú sett strik í reikning allra, hvar sem þeir standa. Við vorum nýbúin að kaupa vagninn þegar allt skall á. Í raun held ég að faraldurinn hafi bara veitt okkur betra tækifæri til að þróa matseðilinn sem og að gera matvagninn kláran. Til dæmis náði pabbi minn að mála Land Rover-inn allan og gera upp svo hann er orðinn dásamlega myndarlegur með gervigrasi í gólfi. Land Roverinn mun svo draga vagninn á milli staða. 

Það var alltaf draumur okkar Kristjáns að vinna saman og það hefur vissulega ræst þrátt fyrir allt. Það er mörgu að þakka en sérstaklega þó foreldrum mínum og vinum okkar sem við höfum eignast hér úti. Eins og neistinn og efniviðurinn hafi verið til staðar en í samverunni og útgöngubanni kviknaði bálið sem er að kýla þetta allt í gang.“ 

Kristján og Inga stolt við matarvagninn sinn.
Kristján og Inga stolt við matarvagninn sinn. Ljósmynd/Bryndís Þóra Jónsdóttir

Þrátt fyrir að þau Inga og Kristján opni vagninn aðeins seinna en upphaflega stóð til eru þau búin að vera að selja bakkelsi að undanförnu. Inga segir að baksturinn hafi farið af stað til þess að gleðja þá Íslendinga sem voru á Spáni á veirutímanum. 

„Matur dregur okkur saman og gleður. Kristján bjó til súr og þá gátum við afgreitt bakstur þrátt fyrir gerskort í búðum. Við afhentum yfir hlið og í gegnum girðingar til að forðast snertingar og við sendum þakkarknús í skilaboðum. Núna eftir að allt opnaðist aftur er stöðugt að bætast í þjóðarflóru kúnnahópsins okkar, en skemmtilegast er hve vel Spánverjar hafa tekið í kanilsnúðana okkar.“ 

Inga og Kristján að vinna í vagninum.
Inga og Kristján að vinna í vagninum. Ljósmynd/Inga Sör

Í matarvagninum DOMO einbeita þau Kristján og Inga sér að mat sem þau setja í götubitabúning. Vagninn fékk nafnið DOMO sem þýðir „heima“ en Inga segir að þau Kristján eigi það sameiginlegt að hafa borðað margar af sínu bestu máltíðum heima, hvort sem það er með fjölskyldu eða vinum. 

„Maður eldar alltaf best þegar maður eldar fyrir þá sem manni er annt um og það er akkúrat það sem við viljum gera: Maturinn sem þið fengjuð ef þið kæmuð heim til okkar í mat. Hráefnin sem við notum eru frá Spáni og Íslandi og ást í bland við gleði fer í hvert handtak. Matseðillinn er innblásinn af okkar uppáhaldsréttum í götubitabúningi.“ 

Inga og Kristján leggja mikið upp úr því að gera það sem þeim finnst skemmtilegt og er draumurinn um að flytja til Spánar merki um það. Inga segist hafa horft á marga einstaklinga missa lífið allt of snemma. Hún lærði snemma að lífið er ekki sjálfsagt og morgundagurinn er ekki allra. Hún segir mikilvægt að láta hvern einasta dag gilda og muna eftir því að lífið er dýrmætt. 

„Af hverju ekki að leggja áherslu á hamingjuna? Við vitum aldrei hvenær okkar seinasti dagur er svo gerum það besta sem við getum við daginn í dag. Lífið er núna, njótum þess,“ segir Inga að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert