Kanadískur bær fær nýtt nafn

Asbestos verður að Val-des-Sources eða Lækjardal.
Asbestos verður að Val-des-Sources eða Lækjardal. AFP

Kanadíski bærinn Asbestos hefur fengið nýtt nafn. Kosið var um nafnið fyrir 11 mánuðum og hefur kosningin klofið samfélagið. Bærinn hefur nú fengið nafnið Val-des-Sources en nafnið var lagt til aðeins tveimur vikum fyrir kosningarnar.

Bærinn fékk nafnið Asbestos á sínum tíma vegna þess að gjöful asbestnáma fannst í grennd við hann árið 1897. Bærinn byggðist upp í kringum vinnslu á asbesti og blómstraði í áraraðir. 

Asbest er náttúrulegt en gríðarlega eitrað efni sem var lengi notað til að einangra hús. Það hefur hins vegar verið bannað í Kanada síðan 2018. Nafnið hefur á síðustu árum haft neikvæð áhrif á fyrirtæki og viðskiptamenn í bænum sem og á ferðamannaiðnaðinn.

Tæplega helmingur bæjarbúanna sex þúsund sem búa í Asbestos kusu í kosningunni sem fór fram í bílalúgu um miðjan október. Valið stóð á milli sex nafna: L'Azur-des-Cantons, Jeffrey-sur-le-Lac, Larochelle, Phénix, Trois-Lacs og Val-des-Sources. 

Nafnið sem stóð uppi sem sigurvegari, Val-des-Sources, þýðir á íslensku dalur lækjanna eða eins og það gæti útfærst á íslensku; Lækjardalur. Lækjardalur hlaut 51,5% atkvæða í kosningunni. 

CNN Travel

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert