Lottóvinningur gerði lífið á Kanarí betra

Hitinn á Kanarí fer vel með Andra Hrannar.
Hitinn á Kanarí fer vel með Andra Hrannar. Ljósmynd/Aðsend

Siglfirðingurinn Andri Hrannar Einarsson elur manninn á Gran Canaria yfir köldustu mánuðina. Andri Hrannar, sem heldur úti útvarpsþættinum Undralandinu á FM Trölla frá Kanarí, kann vel við hitann og hægaganginn á spænsku eyjunni. 

„Ég starfaði við alls kyns verkamannavinnu fram undir tvítugt en síðan fékk ég góðkynja æxli við mænuna sem náðist í burtu með aðgerð en líkaminn fór illa við lömunina sem þessu fylgdi og ég hef verið öryrki síðan þá,“ segir Andri Hrannar sem líður betur sólinni og hitanum. Er það ein af ástæðum þess að hann kýs að dvelja í hitanum yfir vetrarmánuðina. 

„Lífið á Kanarí er mjög ljúft og fer vel með skrokkinn. Þegar ég vakna stekk ég í stuttbuxur og bol, helli upp á kaffi og sest með bollann út á veröndina, nokkuð sem ég geri ekki í kuldanum á Íslandi.“

Andri Hrannar vann stóra vinninginn í lottóinu í fyrra en segir það ekki hafa gert það að verkum að hann flutti út. Hann er búinn að búa af og til á Kanarí síðan árið 2012. Lottóvinningurinn hefur þó komið að góðum notum. 

„Vissulega létti það á hjá mér að geta verið úti yfir veturinn. Debetkortinu mínu líður mun betur eftir vinninginn en það eru mjög kröpp kjör sem öryrkjum er úthlutað og ómögulegt að lifa sómasamlegu lífi á örorkubótum.“

Hefur þú hugsað um að koma heim vegna kórónuveirunnar? 

„Vissulega hefur Covid haft mikil áhrif á daglegt líf hérna sem og annars staðar. Það var útgöngubann í rúma tvo mánuði hérna í fyrstu bylgju faraldursins og það var ákaflega sérstök reynsla. Ég mátti eingöngu fara út til að ná í helstu nauðsynjar og þurfti að hafa kvittanir úr matvörubúðinni til að geta sannað að ég hefði verið að kaupa það sem ég var með í pokanum. Ég fékk kvöldmatinn í heimsendingu. Ég beið inni í anddyrinu þangað til bíllinn kom með matinn og skaust þá út til að sækja hann. Eitt skiptið fór ég fyrr út og var að horfa á mannlausar göturnar þegar bíll kom, í honum voru tveir hermenn sem ráku mig inn. Nokkuð sem litli Íslendingurinn hafði aldrei upplifað áður.“

Eitt af því sem Andri Hrannar gerir á Kanarí er að halda úti útvarpsþætti á siglfirsku útvarpsstöðinni FM Trölla.

„Ég hef verið með útvarpsþátt annað slagið á FM Trölla í nokkur ár. Þetta er hobbí og er meira svona til að hafa eitthvað til að drepa tímann. FM Trölli er lítil útvarpsstöð frá Sigló og hefur verið starfrækt í rúm tíu ár. Það er mismunandi hvað margir þættir hafa verið í loftinu á hverjum tíma. Í dag eru fjölmargir þættir sendir út og Undralandið er einn af þeim. Ég er í loftinu þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga frá klukkan eitt til fjögur.“

Andri Hrannar er með útvarpsþáttinn Undralandið á FM Trölli.
Andri Hrannar er með útvarpsþáttinn Undralandið á FM Trölli. Ljósmynd/Aðsend

Andri Hrannar var á Íslandi í sumar en fór aftur út áður en faraldurinn fór á flug aftur. Það var grímuskylda í nokkrar vikur en hann segir stöðuna nokkuð góða núna. 

„Það eru mjög fáir ferðamenn á Kanarí núna og staðan í þeim málum er ekki góð. Það verða vafalaust margir veitingastaðir, barir og verslanir sem ná ekki að opna aftur. Eins og staðan er núna er ekki auðvelt að finna flug heim og í augnablikinu er ekki á planinu að koma heim fyrr en aðstæður lagast.“

Kemur fyrir að þú saknir heimahaganna?

„Það er klárlega fjölskyldan sem ég sakna, foreldrar, systkini og ég á tvö börn, Víbekku Sól og Dag Sólon, ég sakna þeirra mest. Við notum tæknina og spjöllum saman eins oft og við getum um allt milli himins og jarðar. Þau samtöl eru ómetanleg og næra sálina.“

mbl.is