Átti ótrúleg jól við Suðurskautslandið

Silja Bára Ómarsdóttir.
Silja Bára Ómarsdóttir.

Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, mætti í ferðaspjall Borgarbókasafnsins í gær, miðvikudag. Silja Bára sagði hlustendum frá ferðalagi sínu til Suðurskautslandsins sem hún fór í fyrir tæpu ári. Ferðalagið var ævintýralegt eins og má heyra á máli Silju Báru. 

Skipið lagði frá bryggju í Argentínu rétt fyrir jól. Hún sagði aðeins hægt að ferðast um Suðurskautslandið í fjóra mánuði á ári og tók fram að hún hefði ekki farið á Suðurskautið en þangað fara ekki venjulegir ferðamenn. 

Ótrúleg náttúrufegurð og dýralíf situr eftir úr ferðinni en í spjallinu birti hún fjölmargar myndir. Hún hitti meðal annars mörgæsir í ferðinni. Í siglingunni voru doktorar í hinum ýmsu dýrategundum sem gerðu upplifunina enn betri. Auk mörgæsa sá hún meðal annars hvali sem henni fannst ekki síðra og viðurkenndi að vera með hvaladellu. 

Eitt það magnaðasta við ferðina voru sumarsólstöður en Silja Bára afrekaði það að upplifa sumarsólstöður tvisvar árið 2019. 

„Á sumarsólstöðvunum sjálfum var skýjað. Þannig ég tel þetta bara vera mínar sumarsólstöður þó þetta hafi verið á aðfangadagskvöld. Eins og ég segi sumrin á Íslandi eru mögnuð og þessir litir sem við þekkjum í okkar ljósaskiptum eru æðislegir en að sjá þau á ís er eitthvað sem ég hefði ekki getað ímyndað mér að væri svona magnað,“ sagði Silja Bára í ferðakaffi Borgarbókasafnsins og sýndi um leið stórfenglegar myndir af bleikum himni og ísjökum.

„Sigl­ing á Suður­skautslandið um síðustu jól – kannski bara vegna þess að hún er ný­af­staðin en ég á erfitt með að ímynda mér að ég upp­lifi annað eins um æv­ina; lands­lagið, dýra­lífið og svo auðvitað ferðalagið sjálft – tveggja sól­ar­hringa sigl­ing frá syðsta tanga Suður-Am­er­íku – var al­veg ógleym­an­legt,“ sagði Silja Bára einmitt í viðtali við ferðavef mbl.is þegar hún var spurð út í eftirminnilegasta ferðalagið. 

Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá viðtalið við Silju Báru í heild sinni. Hún segir skemmtilega frá og sýnir heilmikið af myndum úr ferðinni. 

mbl.is