Bjó á flugvellinum í þrjá mánuði

Karlmaður hefur búið á O'Hare flugvellinum í Chicago síðastliðna þrjá …
Karlmaður hefur búið á O'Hare flugvellinum í Chicago síðastliðna þrjá mánuði. AFP

Karlmaður var á dögunum handtekinn á O'Hare-flugvellinum í Chicago í Bandaríkjunum. Maðurinn hefur búið á flugvellinum síðastliðna þrjá mánuði en hann sagði lögreglu að hann þyrði ekki að snúa aftur heim til sín því hann væri hræddur við kórónuveiruna. 

Maðurinn, Aditya Singh, er búsettur í Kaliforníu. Hann hefur nú verið ákærður fyrir að halda til á lokuðum hluta flugvallarins, þjófnað og minniháttar glæpi samkvæmt Chicago Tribune

Ákæruvaldið sagði að að sögn lögreglunnar hefði maðurinn komið til Chicago frá Los Angeles 19. október síðastliðinn. Hann var handtekinn síðdegis á laugardag eftir að tveir starfsmenn United Airlines höfðu nálgast hann og beðið um að fá að sjá skilríki. 

Þá sýndi hann þeim skilríki starfsmanns United Airlines sem hafði tilkynnt að skilríki hans hefðu týnst 26. október síðastliðinn. 

Aðstoðarsaksóknarinn Kathleen Hagerty sagði að aðrir farþegar sem fóru um flugstöðina hefðu gefið Singh mat og hann hefði ekki áður brotið af sér. 

Dómaranum í málinu, Susönu Ortiz, var mikið niðri fyrir þegar ákæruvaldið fór fram á gæsluvarðhald yfir manninum og spurði: „Ertu að segja mér að manneskja, án allra skilríkja og heimildar til að vera á flugvellinum, sé grunuð um að hafa búið inni á lokuðu svæði á O'Hare-flugvellinum frá 19. október 2020 fram til 16. janúar 2021, og það hafi enginn tekið eftir honum? Ég vil skilja þig rétt.“

Ortiz dæmdi Singh í gæsluvarðhald á meðan rannsókn málsins fer fram. Hann getur losnað gegn tryggingagjaldi en það eru þúsund bandaríkjadalir. Honum hefur verið meinaður aðgangur að flugvellinum.

mbl.is