Leiðir til að lifa af á sóttkvíarhóteli

Dvölin á sóttkvíarhótelum víða um heim hefur reynst fólki þrautinni …
Dvölin á sóttkvíarhótelum víða um heim hefur reynst fólki þrautinni þyngri. Hér eru ráð til að lifa þessa dvöl af. mbl.is/Árni Sæberg

Lönd víða um heim hafa tekið upp notkun svokallaðra sóttkvíarhótela þar sem allir þeir sem koma til viðkomandi ríkis þurfa að dvelja í ákveðinn tíma á milli skimana fyrir kórónuveirunni. Misjafnt er hversu langan tíma fólk þarf að dvelja á hótelunum en CNN Travel tók saman nokkur ráð um sóttkvíarhótelsveru.

Veran á hótelunum er mislöng eftir ríkjum, hér á Íslandi þurfa gestir til dæmis bara að dvelja fimm daga á hótelinu en í Kanada, Ástralíu og á Nýja-Sjálandi þurfa gestir að dvelja í tvær vikur. Í Hong Kong þurfa gestir að dvelja í heilar þrjár vikur. 

Mörgum þykir hugmyndin um að dvelja innilokaður á hótelherbergi í fleiri daga vera ógnvekjandi á meðan aðrir fagna því að þurfa vart að klæða sig og geta hangið yfir sjónvarpinu allan sólarhringinn. En hversu erfitt er í raun að dvelja innilokaður á hótelherbergi? Erfiðara en marga grunar samkvæmt Ian Hickie, prófessor við University of Sydney. 

Hann segir að margir ferðalangar átti sig ekki á því hversu mikilvægt það er að vera vakandi og virkur á daginn og eiga í félagslegum samskiptum til að passa upp á heilsu sína meðan á dvölinni stendur.

„Fólk á það til að liggja og hámhorfa á streymisveitur alla nóttina og sofa á daginn bara til að komast í gegnum þetta tímabil. En það hjálpar ekki neitt. Ferðamenn verða hissa á því hversu fljótt skapgerð þeirra breytist eftir nokkra daga af þessu,“ segir Hicike. 

Hann mælir með því að fólk geri eitthvað í sex tíma á dag sem hefur tilgang. Hvort sem það er vinnutengt eða ekki þá mælir Hickie sterklega með því til að fólk haldi áfram í hluta af daglegri rútínu sinni. 

Pródúsent CNN, Travel Zahra Jamshed, fór í sóttkví í þrjár vikur á hóteli í Hong Kong. Fyrir dvölina fékk hún góð ráð frá sérfræðingum. Hún gat unnið á herberginu sínu alla virku dagana og notaði það til að halda skipulagi á dögunum sínum. 

Henni fannst einna mikilvægast að byrja daginn snemma og draga frá til að fá sólarljós inn í herbergið. Eina daginn sem hún svaf út missti hún af sólinni og leið illa allan daginn.

Hreyfing þótti henni líka mikilvæg en hún gerði bæði léttar æfingar með sinni eigin líkamsþyngd og stundaði jóga. Hún sagði það vera ákveðna áskorun að hreyfa sig inni í svo litlu rými en að það hafi verið henni lífsnauðsynlegt.

Öllum, sem CNN Travel talaði við, fannst mikilvægt að halda sambandi við fólk og tala við fólkið sitt í gegnum myndsímtöl og síma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert