Flugstjóri sofnaði og missti af lendingu

Flugstjóri sofnaði og fór fram hjá áfangastað.
Flugstjóri sofnaði og fór fram hjá áfangastað. Skjáskot/Facebook

Þreyttur flugstjóri sofnaði í flugstjórnarklefanum í flugvél sem hann flaug í Ástralíu. Flugvélin, af gerðinni Cessna 208B, var á leiðinni frá Cairns til Redcliffe þegar flugstjórinn sofnaði í 40 mínútur með þeim afleiðingum að flugvélin flaug yfir áfangastaðinn sinn í Redcliffe. 

Í 40 mínútur reyndi flugumferðarstjóri á flugvellinum í Redcliffe að hafa samband við flugstjórann en án árangurs. Þegar það var fullreynt var hinn konunglegi ástralski flugher kallaður til. Herflugvél flaug nálægt Cessnunni í von um að virkja árekstursbúnað vélarinnar en þreytti flugstjórinn vaknaði ekki heldur við það. 

Cessna 208B.
Cessna 208B. Skjáskot/Instagram

Það var ekki fyrr en flugvélin hafði flogið 110 kílómetra frá landi og sveif yfir Kyrrahafinu að þreytti flugstjórinn vaknaði af værum blundi. Hann gerði áströlskum flugmálayfirvöldum strax viðvart og sneri við og lenti heill á húfi og úthvíldur á næsta flugvelli. Atvikið átti sér stað í júlí 2020.

Independent

mbl.is

Bloggað um fréttina