Bjó á flugvelli í Bologna í níu mánuði

Arnaldo heillaði starfsfólk flugvallarins með jákvæðri framkomu sinni.
Arnaldo heillaði starfsfólk flugvallarins með jákvæðri framkomu sinni. Samsett mynd

Ítalskur maður á níræðisaldri er loksins að eignast varanlegt heimili í kjölfar níu mánaða dvalar á flugvelli í Bologna á norðurhluta Ítalíu.

Maðurinn, sem starfsmenn flugvallarins þekkja einungis undir nafninu Arnaldo, neyddist til að grípa til þess örþrifaráðs, að búa á flugvelli, eftir að hann missti heimili sitt vegna mikillar hækkunar á leigugjöldum.

Heillaði starfsfólkið upp úr skónum

Arnaldo, sem er 83 ára gamall, gerði sig heimkominn á flugvellinum og varð fljótt mikill vinur allra sem þar starfa, en starfsfólkið lagði sig fram við að auðvelda honum lífið með því að færa honum máltíðar, heitt kaffi og dagblöð á hverjum degi.

Nú eftir níu mánaða dvöl á flugvellinum hafa borgarfulltrúar í Bologna tekið höndum saman og leita að varanlegu heimili handa honum, en Arnaldo gistir um þessar mundir á hóteli. 

Saga Arnaldo minnir um margt á kvikmyndina The Terminal frá árinu 2004. Í myndinni leikur Tom Hanks flóttamann frá austur-evrópsku smáríki sem verður innlyksa í flugstöð í New York þegar heimaland hans leysist upp og hættir að vera til. Við það verður vegabréf hans ógilt og hann neyðist því til að dúsa í fríhöfninni þar til lausn fæst á vanda hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka