Falin perla við Tungnaá

Stakahnjúksvatn státar af litum og umhverfi sem verður best sýnilegt þegar dróni er notaður. Þegar þessi myndbrot voru fönguð var snjór byrjaður að skreyta toppa fjallanna að Fjallabaki.

Vatnið er krökkt af fiski og á einhvern undarlegan hátt datt einhverjum í hug fyrir margt löngu að drösla þangað gömlum Kópavogsstrætó til að nota sem veiðihús. Hugmynd sem mér skilst að gera eigi afturkræfa í ár því járnadrasl og bílhræ eiga ekki heima á stað eins og að Fjallabaki. Til að komast að vatninu þarf að þræða gamlan línuveg og er það seinlegt og alls ekki bjóðandi slyddujeppum eða Dacia Duster sem margir erlendir ferðamenn láta pranga inn á sig sem jeppa.

mbl.is