Alltaf að uppgötva eitthvað nýtt

Jónína Brynjólfsdóttir verkefnastjóri hjá Austurbrú.
Jónína Brynjólfsdóttir verkefnastjóri hjá Austurbrú.

Hálendishringurinn, austurströndin og Fljótsdalshringurinn. Allt eru þetta nöfn á mismunandi ferðaleiðum á Austurlandi sem hægt er að keyra á einkabíl og njóta þess besta sem Austurland hefur upp á að bjóða. Fleiri leiðarlýsingar á bíltúrum um svæðið má finna í Austurlands-appinu.

Austurland er mjög stór landshluti með marga áhugaverða áfangastaði og náttúruperlur. Markmiðið með þessum ferðaleiðum er að gefa fólki hugmyndir og uppástungur að dagsferðum um svæðið,“ segir Jónína Brynjólfsdóttir verkefnastjóri hjá Austurbrú en Austurbrú stendur á bak við ferðavefinn east.is og Austurlands-appið.
Jónína að skoða Asuturlands-appið.
Jónína að skoða Asuturlands-appið.

Fimm mismunandi ferðaleiðir

Inni í Austurlands-appinu er ekki eingöngu að finna áðurnefndar ferðaleiðir sem er þar lýst í máli, myndum og með korti, heldur er þar ýmislegt annað að finna sem gagnast getur ferðafólki á Austurlandi eins og upplýsingar um tilboð á vörum og þjónustu og viðburði á svæðinu. Appið er því handhægur ferðafélagi fyrir þá sem sem eru á ferð um landshlutann. „Tískan í ferðaheiminum hefur verið að færast yfir í „slow-travel“ og það er það sem við leggjum áherslu á; að fólk gefi sér tíma til þess að njóta svæðisins í friði og ró. Hér eru til dæmis fjölbreyttar gönguleiðir við allra hæfi sem gefa tækifæri á mikilli nálægð við náttúruna,“ segir Jónína og bendir á að þótt ferðaleiðirnar í Austurlands-appinu séu fimm talsins felist í raun fleiri leiðir í hverri leið, allt eftir því hvaða áherslur fólk hafi og tímann sem það gefur sér í ferðalagið.

„Það er sannarlega eitthvað fyrir alla hérna fyrir austan. Sælkerar finna hér til dæmis þrjú brugghús og fjölmarga veitingastaði með áherslu á matarframleiðslu úr héraði. Þá myndi ég senda menningartýpuna niður á Seyðisfjörð og heimsborgarann, sem þarf að komast út úr ys og þys borgarlífsins, niður á Mjóafjörð. Þar er ekkert nema klikkuð friðsæld, dásamleg kyrrð og öldugjálfur. Þá hafa göngugarpar úr nægum gönguleiðum að velja, hvort sem leiðin liggur upp á fjallstinda, að fossum eða niður í fjöru.“

Jónína hefur búið á Austurlandi í 13 ár.
Jónína hefur búið á Austurlandi í 13 ár.

Vika lágmark til að kynnast Austurlandi

Sjálf hefur Jónína búið á Austurlandi í 13 ár og þótt hún sé dugleg að ferðast um svæðið finnst henni hún alltaf vera að uppgötva nýja staði og segist eiga langt í land með að hafa séð allt það sem svæðið hafi upp á að bjóða. „Það er einmitt helsta umkvörtunarefnið hjá ferðafólki sem heimsækir Austurland, því finnst það hefði átt að dvelja lengur til að ná að sjá allt það sem það langaði að sjá,“ segir Jónína og heldur áfram: „Það er ómögulegt að sjá allt svæðið á tveimur dögum, vika er eiginlega alveg lágmark að mínu mati. Ég hvet fólk til þess að vera ekki eins og þeytispjald heldur njóta hvers hluta enn dýpra og betur og þá frekar að koma aftur og skoða aðra hluta Austurlands.“

En hvaða ferðaleið af þeim fimm sem kortlagðar hafa verið í Austurlands-appinu skyldi Jónína mæla með? „Ég er sjálf mjög hrifin af hálendishringnum en ég held ég verði að mæla með austurströndinni, einfaldlega af því hún er svo ævintýraleg. Þar er að finna svo mikla náttúru, friðsæld og falleg lítil þorp með karakter. Á þessari leið er líka mikið af skemmtilegum stöðum til að stoppa á eins og Brugghúsið á Breiðdalsvík, Eggin í Gleðivík, Stríðsárasafnið á Reyðarfirði og Steinasafn Petru.“

Djúpivogur er áhugaverður staður.
Djúpivogur er áhugaverður staður.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert