Icelandair tók Hinsegin daga alla leið

Fjölbreytileikanum var fagnað um borð í vélum Icelandair í vikunni.
Fjölbreytileikanum var fagnað um borð í vélum Icelandair í vikunni.

Nú standa Hinsegin dagar yfir og þótt gleðigangan fari ekki fram í ár er fjölbreytileikanum fagnað á margvíslegan hátt, meðal annars með fyrirlestrum, sögugöngum, uppistandi og tónlist. Hinsegin dagar hafa einnig verið áberandi um borð hjá Icelandair í vikunni. Upplýsingafulltrúi félagins, Ásdís Ýr Pétursdóttir, segir að hinsegin dagarnir hafi heppnast vonum framar um borð í vélum félagsins. 

„Farþegar okkar hafa tekið Hinsegin dögum í háloftunum mjög vel. Sem flugfélag sem heldur merkjum Íslands á lofti stöndum við að sjálfsögðu fyrir jafnrétti og fögnum fjölbreytileika alla daga. En nú þegar Hinsegin dagar standa yfir gerum við það á sýnilegri hátt. Allt innanlandsflug okkar á föstudaginn var, 24 ferðir, var tileinkað Hinsegin dögum með fánum, skrauti og glaðningi fyrir farþega. Sama var upp á teningnum í flugi til og frá Berlín síðastliðinn miðvikudag þar sem starfsfólk okkar skartaði fánum og grímum í regnbogalitum og bauð farþegum upp á veitingar í tilefni dagsins,“ segir Ásdís Ýr og segir að það sé alltaf jafn gaman að taka þátt í þessari hátíð á hverju ári og á sama tíma vekja athygli á jafn mikilvægu málefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert