Allt um borð á afslætti í lokaflugi dagsins

Fersk matvara er á miklum afslætti í síðustu flugferðum dagsins …
Fersk matvara er á miklum afslætti í síðustu flugferðum dagsins hjá Swiss International Air Lines.

Svissneska flugfélagið Swiss International Air Lines setur alla ferska matvöru á afslátt í síðasta flugi hvers dags. Markmiðið er að sporna við matarsóun en um er að ræða tilraunaverkefni í ágúst og september. 

Í tilkynningu frá flugfélaginu segir að félagið hafi lengi sett ríka áherslu á umhverfismál í starfi sínu. 

„Nú er félagið að leita lausna til að minnka magn ferskrar vöru sem selst ekki um borð í vélum og þarf að henda í lok dags. Til að kanna vilja viðskiptavina var ákveðið að prufukeyra verkefnið í ágúst og september í síðustu ferðum frá Sviss til evrópskra áfangastaða,“ segir í tilkynningu frá félaginu. 

Farþegar geta keypt poka með einni, tveimur, eða þremur vörum á 66% afslætti. Ekki er hægt að velja hvað er í pokanum hverju sinni. 

Romain Vetter, hjá Swiss International Air Lines, segir að farþegar hafi tekið vel í tilraunaverkefni og verið sé að greina hvort hægt sé að hafa sama fyrirkomulag á fleiri flugleiðum félagsins. 

mbl.is