Íhuga Bretlandsferð með börnin um jólin

Karl Bretaprins, Katrín hertogaynja af Cambridge, Meghan hertogaynja af Sussex …
Karl Bretaprins, Katrín hertogaynja af Cambridge, Meghan hertogaynja af Sussex og Harry Bretaprins á jóladag 2018. AFP

Hertogahjónin af Sussex, Harry Bretaprins og Meghan, eru sögð íhuga ferðalag til Bretlands um jólin en þau búa í Bandaríkjunum. Hjónin hafa ekki varið jólunum með fjölskyldu Harrys síðan árið 2018 og síðan þá hafa þau eignast tvö börn. 

„Það er að minnsta kosti það sem drottningin vill. Karl Bretaprins vill hitta barnabörnin sín. Að þau hittist bendir til þess að það sé von um að þau geti haldið áfram og leyst úr sínum málum,“ sagði konunglegi sérfræðingurinn Katie Nicholl í viðtali við slúðurmiðilinn Closer. Hún segir að jólin séu einstækt tækifæri fyrir fjölskylduna að sættast og laga sambandið. 

Hjónin sögðu sig frá opinberum störfum í fyrra og fluttu til Bandaríkjanna. Samband bræðranna Vilhjálms og Harrys hefur verið slæmt í nokkur misseri. Samband Harrys og Karls Bretaprins hefur einnig verið slæmt. 

Hjónin voru með bresku konungsfjölskyldunni á jólunum árið 2018, rúmlega hálfu ári eftir brúðkaup þeirra. Nokkrum mánuðum seinna fæddist frumburður þeirra, Archie, en þau dvöldu í Kanada fyrstu jólin hans. Konungsfjölskyldan hefur ekki hitt Archie síðan veturinn 2020. Fjölskylda Harrys hefur enn ekki hitt Lilibet Díönu sem fæddist  í byrjun júní og Meghan hefur ekki farið til Bretlands síðan í mars 2020.

Harry og Meghan um jólin 2018.
Harry og Meghan um jólin 2018. AFP
mbl.is