Skemmtir Íslendingum á Spáni

Elvar Másson skemmtir Íslendingum á Spáni.
Elvar Másson skemmtir Íslendingum á Spáni.

Tónlistarmaðurinn og lagahöfundurinn Elvar Másson hefur búið á Costa Blanca-svæðinu á Spáni í um áratug. Undanfarin nokkur ár hefur hann haldið ýmiss konar skemmtanir fyrir íslenska íbúa á svæðinu sem og heimamenn og hlotið lof fyrir. 

„Árið 2015 fékk ég þá hugmynd að setja saman tríó. Markmið mitt var að einbeita mér að svokallaðri gullaldartónlist; þ.e.a.s., tónlist frá sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Mér fannst þeirri tónlist ekki gert nógu hátt undir höfði á því svæði sem ég bý á og vildi leggja mitt af mörkum,“ segir Elvar í viðtali við mbl.is. 

Hann fékk til liðs við sig skoskan bassaleikara, Duncan Philips, og ensku söngkonuna Brendu Albon. Þau stofnuðu saman tríóið No Limit. Stuttu seinna heltist Duncan úr lestinni og tríóið varð dúett. 

„Það helsta sem breyttist var að allt í einu átti ég að syngja líka, en ég hafði um langt skeið forðast að leyfa öðrum að heyra söngrödd mína,“ segir Elvar. 

Þau hafa spilað víða á svæðinu við góðar undirtektir gesta og spila nú reglulega á The Cavern Bar í Citrus Centre við Playa Falmenca á sunnudagskvöldum. „Ég hef staðið fyrir nokkrum minniháttar samkomum fyrir Íslendinga. Þær hafa farið fram á veitingastaðnum Cafetería Concierto í Playa Flamenca. Flestir Íslendingar sem koma hingað þekkja vel til þar. Við höfum fengið góðar undirtektir hjá Íslendingum, og þykir mér persónulega mjög vænt um það,“ segir Elvar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert