Ráð fyrir sýklahrædda á ferðalagi

Sýklahræðsla hefur verið að færast í aukana.
Sýklahræðsla hefur verið að færast í aukana. Ljósmynd/Unsplash

Breytt heimsmynd blasir við okkur í kjölfar heimsfaraldursins. Áhyggjulaus ferðalög heyra nú sögunni til og sýklahræðsla hefur aukist í vestrænum heimi. Aldrei hafa Íslendingar verið jafn meðvitaðir um sýkla og veiru afbirgði fyrr en nú og er óttinn við að sýkjast af kórónuveirunni eða öðrum pestum mjög mikill fyrir marga. Svo mikill að margir neita sér um ferðalög, bæði innan- og utanlands. 

Það þýðir ekki að neita sér um ferðalög eða samkomur um alla eilífð en það er hægt að reyna sitt besta við að sporna við smitum. Það er gert með því viðhalda persónubundnum smitvörnum á ferðalaginu. Þá er einnig mikilvægt að forðast það að fá smitvarnir á heilann þannig að það jaðri við þráhyggju. Það er alveg jafn mikilvægt að njóta á milli þess sem maður sinnir smitvörnum.

Ef þú ert sýklahræddur ferðalangur þá gætu þessi einföldu ráð gagnast þér á ferðalagi þínu. 

1. Vertu með þína eigin sápu á þér. Tönnlast hefur verið á því hversu mikilvægur handþvottur er síðustu misseri. Þrátt fyrir það þá virðist handþvottur oft sniðgenginn. Sumir sýklahræddir einstaklingar segja tilhugsunina um að nota sömu sápupumpur og almenningur á opinberum svæðum valda þeim hugarangri. Þá getur verið sniðugt að hafa sína eigin sápu meðferðis á ferðalaginu. Sápustykki er hægt að búta niður í marga smærri hluta sem einfaldar málin og eykur notagildið. Litlu sápustykkin er svo hægt að geyma í boxum með loki svo það fari ekki sápa út um allt. 

Lítil sápustykki koma að góðu gagni á ferðalögum.
Lítil sápustykki koma að góðu gagni á ferðalögum. Ljósmynd/Unsplash

2. Fáðu þér hurðaopnara á lyklakippuna. Sameiginlegir snertifletir eru morandi í sýklum, það er löngu vitað. Hér áður fyrr tókum við í hurðarhúna í verslunarmiðstöðvum, á flugvöllum og hvar sem er, án þess að leiða hugann að gerlum og sýklum sem þrífast þar. Nú á dögum hefur það verið að færast í aukana hjá erlendum ferðalöngum að notast við þar til gerða hurðaopnara sem þeir hafa áfasta á lyklakippum. Hurðaopnarinn gerir ferðalöngum kleift að taka í hurðarhúna á snertilausan máta. Þá eru hurðaopnarar líka hugsaðir sem fyrirferðalítil tól til margvíslegra nota. Hægt er að nota þá til þess að ýta á lyftuhnappa eða gera ýmsar aðgerðir í hraðbönkum.

Hurðaopnarinn er snilldar fyrirbæri fyrir þá sem vilja ekki vera …
Hurðaopnarinn er snilldar fyrirbæri fyrir þá sem vilja ekki vera með puttana í öllu. Ljósmynd/Unsplash

3. Hafðu ávallt sótthreinsiklúta með þér. Þrátt fyrir að stífar reglur um þrif gildi fyrir flest samgöngu- og ferðaþjónustu fyrirtæki þá getur það borgað sig að hafa varann á. Það að hafa möguleikann á því að geta strokið yfir fleti eins og borð og sæti í flugvélum, lestum eða rútum getur haft jákvæðari áhrif á ferðaupplifun sýklahræddra. Blauthreinsiklútar sem ætlaðir eru börnum eru oft góðir því þeir erta ekki húðina en búa á sama tíma yfir sótthreinsandi eiginleikum. Þar með er hægt að strjúka yfir ýmsa fleti og líkamshluta með þeim. 

Hreinsiklútar fyrir börn eru mjúkir, sótthreinsandi og erta ekki húðina.
Hreinsiklútar fyrir börn eru mjúkir, sótthreinsandi og erta ekki húðina. Ljósmyndari/Unsplash
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert