Var með bullandi fordóma fyrir Kanaríeyjum

Sigursteinn Másson hefur stundað fjarvinnu í 25 ár og ætlar …
Sigursteinn Másson hefur stundað fjarvinnu í 25 ár og ætlar að kenna löndum sínum öll helstu trixin í ferð á vegum Úrval Útsýn til Tenerife.

Sigursteinn Másson fjölmiðlamaður hefur stundað fjarvinnu í 25 ár eða síðan hann þurfti að endurmeta hlutina eftir að hafa hætt að vinna á Stöð 2 á sínum tíma. Í mars verður hann með ferð til Tenerife þar sem hann kynnir fólk fyrir töfrum fjarvinnu. Ferðin hefur verið lengi í vinnslu en Sigursteinn játar að hafa verið með bullandi fordóma fyrir Kanaríeyjum en sé núna búinn að sjá ljósið.  

„Fyrsta fjarvinnuverkefnið mitt var sennilega gerð handrits að heimildaþáttum um Geirfinns- og Guðmundarmálin árið 1996 þannig að þetta eru orðin 25 ár sem ég hef mestanpart stundað fjarvinnu og verið án hefðbundinnar starfsaðstöðu. Þá vann ég handritsvinnuna að hluta til frá Austin í Texas. Apple fartölvan mín var heilmikill hlunkur og farsíminn allt annað en léttur líka en smám saman þróaðist þetta í lífsstíl sem hefur fylgt mér. Fljótlega fann ég mér staði, heima og erlendis sem sameinuðu allt í senn góða einbeitingu, notalegt umhverfi og félagslega næringu. Þetta er góður kokteill í fjarvinnu,“ segir Sigursteinn en upphafið að fjarvinnunni byrjaði 1996 þegar hann hætti að vinna á Stöð 2. Þá var hann ekki með fasta vinnuaðstöðu og segist hafa upplifað ákveðið öryggisleysi. 

„Það tók dálítinn tíma fyrir mig að átta mig á því að heimurinn væri ekki síðri vinnustaður en einhver tiltekin afmörkuð skrifstofa. Ég prófaði að vinna í fjarvinnu í Danmörku, Bretlandi, Frakklandi, Noregi, Brasilíu og víðar og smám saman fann ég hvernig það að skipta um umhverfi reglulega nærði mig andlega. Upp úr aldamótunum voru grísku eyjarnar í uppáhaldi sem fjarvinnustaðir þrátt fyrir slitrótt netsamband. Það eru vissulega kostir og gallar við þennan lífsstíl. Kostirnir eru fyrst og fremst sveigjanleikinn, að vera sinn eigin herra í vinnunni, uppgötva nýja staði, nýja heimshluta, læra nýja hluti, stundum ný tungumál, hlusta á vindinn og leyfa honum að bera mann á spennandi slóðir. Gallinn er að maður upplifir sig stundum félagslega einangraðan án vinnufélaga, ákveðið rótleysi getur fylgt þessum lífsstíl ef maður finnur ekki taktinn og stundum er óvissa um tekjur. En svo er líka hægt að blanda saman hefðbundinni vinnu á vinnustað og fjarvinnu í öðrum löndum sem getur verið spennandi kostur,“ segir hann. 

Í mars verður Sigursteinn með ferð til Tenerife á vegum Úrval Útsýn þar sem hann kennir fólki að vinna í fjarvinnu á fjarlægum stöðum. 

„Þessi ferð hefur verið í mótun um allnokkurt skeið. Faraldurinn hefur sett fjarvinnu rækilega á dagskrá og opnað augu margra fyrir þessum möguleika. Ég fór til Andalúsíu í september árið 2020 og ætlaði að vera í tæpar tvær vikur en endaði á að vera þar í fjóra mánuði í fjarvinnu. Það var æðislegur tími. Í desember það ár var farið að kólna svolítið á suður Spáni en vegna faraldursins var ekki hægt að ferðast utan evrópska efnahagssvæðisins þannig að ég fór eins sunnarlega og ég komst sem var Tenerife. Hér fann ég 9000 manna bæ, sem heitir El Médano, sem ég féll mjög óvænt fyrir og nokkurra daga ferð þangað varð að rúmum fjórum mánuðum. Ég var ekki einn frá norður Evrópu sem hafði fengið þá hugmynd að stunda fjarvinnu í góðu veðri í faraldrinum. Allavega tíu þúsund útlendíngar stunduðu hér fjarvinnu snemma árs 2021. Við fjarvinnufólkið hér á eyjunni áttum það sameiginlegt að vera á köflum hálf munaðarlaus því að kaffihúsin settu kvóta á hvað við máttum sitja lengi við borð með fartölvuna yfir einum kaffibolla. Það sem annað fjarvinnufólk tjáði mér var að um leið og það elskaði að stunda fjarvinnu á Tenerife þá saknaði það félagslega þáttarins. Þannig þróaðist smám saman hugmyndin um að bjóða upp á sérstakar ferðir þar sem þessi lífsstíll, fjarvinnan með áherslu á vellíðan, sjálfsstyrkingu og félagslega þáttinn, væri kynnt til sögunnar en með tiltekið hótel sem miðpúnkt.“ 

Hvernig verður ferðin uppbyggð?

„Við verðum með fjarvinnumiðstöðina á glænýju hóteli, Labranda Suites Costa Adeje, sem er verulega smart fjögurra stjörnu hótel. Hönnunin er sambland af mörgu því besta í norrænni hönnun en einnig því góða sem maður finnur á amerískum hótelum. Þegar inn er komið skiptist þetta 360 herbergja hótel í fullorðinshluta og fjölskylduhluta sem eru aðskildir þannig að í fullorðinshlutanum er alltaf ró og vinnufriður. Þeim megin geta gestir Úrvals Útsýnar notið verðskuldaðs vinnufrís. Á einstakri þakverönd hótelsins verðum við þrjá morgna í viku með jóga, teygjur og morguníhugun og í framhaldinu stutt námskeið um lykilinn að velheppnaðri fjarvinnu. Þá verður boðið upp á ferð á dæmigerðan bóndabæ til að njóta saman þess besta sem eyjan hefur upp á að bjóða í mat og drykk. “

Sigursteinn er búinn að vera á Tenerife í þrjár vikur en á síðasta ári var hann á þessari sólríku eyju í sex mánuði. Hann þekkir eyjuna því orðið nokkuð vel.  

„Ef einhver hefði sagt mér árið 2020 að ég ætti eftir að verja svona miklum tíma á þessari eyju þá hefði ég sennilega hlegið upp í opið geðið á viðkomandi. Ég hafði allskonar fordóma fyrir Kanarýeyjum sem ég hef þurft að éta ofan í mig. Tenerife hefur upp á svo ótal margt að bjóða sem ég hafði aldrei hugmynd um. Þetta er að mörgu leyti paradís og algjör ævintýraeyja og ég er enn að kynnast fullt af stöðum og hlutum sem ég vissi ekki um.“

Hver er lykillinn að því að þrífast í öðru samfélagi?

„Virðing og lærdómsfýsn held ég. Mér finnst skipta miklu máli að gefa mér mjög góðan tíma á hverjum stað þannig að ég komist inn í menninguna, lífstaktinn og stemmninguna þar sem ég er hverju sinni. Í þrjá mánuði fór ég varla út úr þorpinu mínu á Tenerife í fyrra og það var meiriháttar. Fjarvinna er kannski eitt mikilvægasta skrefið að hægfara ferðamennsku (slow tourism) en þangað verðum við að fara ekki síst út af loftslagsmálunum. Maður getur þrifist ágætlega um tíma í öðru samfélagi án þess að kynnast heimamönnum en til lengdar vantar eitthvað. Aðlögun og það að svala forvitni sinni er lykilatriði. Það eru allskonar hlutir sem koma upp í svona fjarvinnu en þá er gott að líta á það allt sem hluta af ævintýrinu, af lærdómsferlinu.“ 

Hvernig skipuleggur þú dagana?

„Ég skipulegg dagana í þessari ferð eins og ég mundi vilja að þeir væru skipulagðir fyrir mig. Gestirnir ráða þó alveg ferðinni sjálfir og hvað þeir nýta sér af því sem í boði er. Í fjarvinnu erlendis skiptir vinnunæði og stemmning miklu máli en einnig líkamleg og andleg uppbygging sem og félagslíf. Þegar það næst að tengja saman þessa þætti á forsendum þátttakendanna sjálfra og út frá þeirra þörfum, þá hefur þetta heppnast vel. Í fjarvinnu skiptir rútínan miklu máli en rútínan á Spáni er önnur en rútínan á Íslandi og mig langar að kynnar þátttakendum þann möguleika að stokka upp rútínuna og hugsa vinnudaginn og fríið upp á nýtt. Gefa síestunni séns!“ 

Þannig að með ferðinni eru að kynna þennan ljúfa lífsstíl fyrir löndum þínum?

„Já, það má segja það. Við höfum hingað til hugsað frí og vinnu kassalaga og aðgreint. Annað hvort er ég í vinnu eða ég er í fríi og hvort tveggja fer ekki saman. Ég sjálfur þekki ekki slíka aðgreiningu á síðustu 25 árum. Hér á Tenerife upplifi ég frí á hverjum degi þótt ég sé líka í vinnu og afköstin eru engu minni. Reyndar er það svo að kannanir sem gerðar hafa verið sýna að fólk vinnur betur í fjarvinnu en á föstum vinnustað ef eitthvað er. Þessi lífsstíll hentar ekki öllum en hann hentar vissulega mörgum og miklu fleirum en gera sér grein fyrir því. “

Aðspurður um hvaða væntingar hann sé með fyrir ferðinni segist hann vona að fólk komi heim reynslunni ríkara og með hugmyndir og spennandi möguleika í farteskinu. 

„Sumir munu kannski þróa áfram þennan fjarvinnulífsstíl, aðrir munu fá innsýn inn í þessa veröld sem verður þeim vonandi hvatning á ýmsa vegu. Sumir hafa kannski fundið fyrir kulnun en hvorki þeir né vinnuveitandi vilja að vinnusambandið glatist. Kannski opnast hér leið til að viðhalda því. Glaðastur verð ég ef gestunum líður einfaldlega betur andlega og líkamlega í ferðalok.“

Sigursteinn er spenntur að fara með hopinn á bóndabæ þar sem fólk fær að kynnast heimamönnum, afbragðsgóðum afurðum þeirra og einstakri gestrisni fólksins á Tenerife.

„ Ég mun velja staði út frá gæðum þeirra og því sem þeir hafa upp á að bjóða, ekki dæmigerðir túristastaðir, en líka útsýni og umhverfi þannig að ferðin verði uppljómun. Þessi hluti ferðarinnar er hugsaður öðrum þræði til að tengja þátttakendur betur saman, enda er eitt það mikilvægasta í vel heppnaðri fjarvinnu að mynda ný og góð tengsl.“ 

Hvað er það besta við Tenerife?

„Ég hef ferðast víða en hvergi hef ég komið þar sem jafn mikla fjölbreytni og jafn mikla fegurð er að finna á jafn litlu svæði nema ef vera kynni Ísland. Norðurhluti eyjarinnar er gjörólíkur suður hlutanum sem er á köflum einna líkastur Norður Afríku. Norðurhlutinn er hinsvegar gróðri vaxinn frá fjöru til fjalls og þar eru menningarborgir og bæir sem standast samanburð við margt það áhugaverðasta í suður Evrópu. En það besta er sennilega veðrið og verðlagið. Það er aldrei of heitt hér eða á hinum Kanarýeyjunum og mjög sjaldan of kalt. Núna er janúar og ég sit hér á stuttbuxum og í léttri skyrtu úti við í tuttugu stiga hita. Þetta get ég hvergi gert í Evrópu á þessum árstíma. Og svo er flest allt þrisvar sinnum ódýrara hér en á Íslandi. Þess vegna fer frí, vinna og vellíðan svo einstaklega vel saman hér,“ segir Sigursteinn. 

mbl.is