Litla New York við Miðjarðarhafið

Sólsetrið á Benidorm er fallegt, ströndin er hrein og sjórinn …
Sólsetrið á Benidorm er fallegt, ströndin er hrein og sjórinn tær. mbl.is/Ásdís

Velkomin til litlu New York,“ sagði leigubílstjórinn þegar hann renndi bifreiðinni inn í borgina Benidorm á Spáni; strandborgina við Miðjarðarhafið þar sem háhýsi eru fleiri á íbúa en annars staðar á byggðu bóli. Blaðamaður steig út á strandgötunni og tékkaði sig inn á hótel sem ber nafn með rentu, Villa del Mar.

Á Benidorm eru fleiri háhýsi á hvern íbúa en annars …
Á Benidorm eru fleiri háhýsi á hvern íbúa en annars staðar á byggðu bóli.

Útsýnið úr herberginu á sjöttu hæð var himneskt; sægrænn sjórinn og blár himinn blasti við auk fólksins sem naut strandlífsins eða skundaði eftir strandlengjunni. Bátar drógu fólk í litríkum fallhlífum sem svifu um loftin yfir sjónum og í fjarska mátti sjá litlu fallegu eyjuna sem heitir einfaldlega Benidorm-eyja. 

Fimm milljónir ferðamanna

Eftir gönguferð eftir strandlengjunni var haldið í dýrindis hádegismat með hópi blaðamanna sem boðið hafði verið til Benidorm til að kynnast borginni og fræðast um leið um sjálfbærni sem er í hávegum höfð þar á bæ. Ferðamálaráð Spánar og ferðamálaráð Benidorm stóðu fyrir ferðinni. Carola Valls, markaðs- og kynningarstjóri Visit Benidorm, tók vel á móti þeim átta blaðamaönnum sem streymdu að frá ýmsum löndum Evrópu.

Á daginn fyllist ströndin af sólþyrstum ferðamönnum, en Spánverjar eru …
Á daginn fyllist ströndin af sólþyrstum ferðamönnum, en Spánverjar eru um helmingur allra túrista sem heimsækja Benidorm.

Yfir matnum fræddumst við heilmikið um staðinn, sem fæstir höfðu heimsótt áður. 

Benidorm stærir sig af því að vera umhverfisvæn borg sem hugar vel að því að minnka mengun, nýta vel vatnsbirgðir, endurvinna og passa upp á náttúruna. Borgin fékk árið 2019 eftirsótta vottun sem „Smart Destination“, eða Snjall ferðamannastaður. Viðurkenninguna veitir spænsk stofnun, sem kannar gæði ferðamannastaða (Institute for the Spanish Tourism Quality (ICTE)). Í Benidorm hefur áhersla verið lögð á að fjölga göngugötum og hjólastígum og halda bílaumferð í lágmarki sem heldur borginni hreinni af mengun, en auðvelt að komast leiðar sinnar gangandi eða hjólandi. Þess má geta að í fyrra voru engin bílslys í borginni. Stefnt er að því að innan tíu ára muni allir strætisvagnar og leigubílar innan borgarmarkanna ganga fyrir rafmagni.

Borgin er viljandi skipulögð „á hæðina“, en passað er upp á að vel lofti á milli bygginga. Tilgangurinn er að nota sem minnst landsvæði undir sem flesta; íbúa og túrista, til að hlúa að náttúrunnni og varðveita hana eins og hægt er. Á Benidorm er nýting vatnsins 96%, en meðaltal annarra borga er um 70%, þannig að varla dropi fer til spillis. Á ströndinni er sjór notaður til að skola fæturna og þar er frítt net fyrir alla. Vatnið í krönunum er gott til drykkjar.

Við fengum að vita að í borginni búa rúmlega sjötíu þúsund manns en á góðum degi bætast þar við 300.000 ferðamenn. Fimm milljónir heimsækja borgina árlega. Spánverjar eru helmingur allra ferðamanna en næstir á eftir koma Bretar, Belgar og Hollendingar. Það kemur því ekki á óvart að á Benidorm má finna breska matsölustaði og bari, þótt einnig sé nóg af spænskum stöðum sem bjóða upp á paellur, sjávarfang, steikur og ljúffenga tapasrétti. Fyrir unga fólkið, sem fjölmennir í bæinn á sumrin, eru fjölmargir skemmtistaðir þar sem hægt er að dansa fram á rauðan morgun. Um vetur, vor og haust er það eldra fólkið sem sækir í sólina og strandlífið.

Það er skylda að fá sér góða paellu!
Það er skylda að fá sér góða paellu!

Náttúran við bæjardyrnar

Sjö kílómetrar af strandlengju skiptast í tvær strendur; Poniente og Levante og þykir sú fyrri rólegri en hin seinni er líflegri og þar er meira næturlíf. Það góða við að byggja á hæðina er að stutt er á  milli staða og hægt að ganga allt. Gamli bærinn liggur á milli strandanna tveggja og er gaman að rölta þar á milli veitingastaða og verslana. Ströndin sjálf er tandurhrein og sjórinn sömuleiðis. Ekki var amalegt að bregða sér út í og taka nokkur sundtök í ylvolgum sjónum. 

Að horfa á mannlífið á götunni eða ströndinni er einnig hin fínasta skemmtun, því fjölbreytt er flóran. Gamla fólkið stundaði morgunleikfimi í sólinni eða ferðaðist um á litlum hægfara rafskutlum, stundum tveggja manna, sem er frábær ferðamáti fyrir fólk sem á erfitt með gang. Hægt er að leigja slík farartæki á slikk. Einnig er hægt að leigja reiðhjól, bæði venjuleg og rafmagns- og einmitt það gerði hópurinn einn eftirmiðdag. Hjólað var út á enda Poniente-strandar og inn á stíg meðfram sjónum, þar sem leiðin lá út að gömlu virki. Þannig var hægt að njóta kyrrðarinnar í yndislegri náttúru, aðeins steinsnar frá iðandi borginni. 

Gaman er að leigja sér hjól og skoða umhverfið út …
Gaman er að leigja sér hjól og skoða umhverfið út fyrir borgina. Náttúran er ekki langt undan.

Um kvöldið hittist hópurinn á efstu hæð Madeira-hótels, en þar er frábær bar. Yfir kokteilum var skrafað og dáðst að útsýninu enda sólarlagið engu líkt á Benidorm. Þaðan lá leiðin á fimm stjörnu hótel, þar sem hver dásemdarrétturinn á fætur öðrum var borinn á borð.

Af efstu hæð Madeira-hótels má fá sér kokteil og horfa …
Af efstu hæð Madeira-hótels má fá sér kokteil og horfa á sólina setjast.

Þannig fór um sjóferð þá

Næsta dag var haldið af stað á opnum safaríjeppum á útsýnisstaði beggja vegna borgarinnar. Með vindinn í hárinu var keyrt sem leið lá upp brekkurnar þar til toppnum var náð. Fengu gestir þá að teygja úr sér, virða fyrir sér borgina úr fjarska og taka myndir. Vel sást þá í þá fallegu byggingu Intempo. Þetta eru í raun tvær jafnháar byggingar með eins konar demanti sem tengir þær saman. Einnig blasti við afar fallegur golfvöllur, sem og skemmtigarðurinn Terra Mitica sem verður opnaður 4. júní og er tilvalið fyrir fjölskyldur að eyða þar góðum degi.  

Borðað var inni í gamla bænum á gamalgrónum veitingastað sem bauð upp á grillaðan fisk, tapasrétti og þjóðarrétt þeirra, Caldera de bogavante. Hann líkist paellu en er þó meira í ætt við súpu með humri og grjónum. Eftir síðbúinn hádegisverð, þar sem setið var lengi og spjallað að hætti Spánverja, var haldið í bátsferð. Lagt var af stað frá höfninni í nágrannabænum Altea. Skipstjórinn var indæll Breti sem búið hafði á Benidorm í áratugi. Var ætlunin að sigla þaðan og til Benidorm og til baka. Nokkuð hvasst var á hafi úti og fór það svo að einn blaðamaðurinn tók að bera sig aumlega. Lítið annað var hægt en að snúa við áður en konan færi að selja upp hádegismatnum á þilfarið. Þannig fór um sjóferð þá, í bókstaflegri merkingu.

Tapasinn klikkar ekki á Benidorm.
Tapasinn klikkar ekki á Benidorm.

Síðasta kvöld hópsins saman var rölt aftur inn í gamla bæinn sem var iðandi af mannlífi. Þar má finna heila götu af útiveitingastöðum sem allir sérhæfa sig í tapasréttum. Venjan á Spáni er sú að rölta á milli staða og smakka tapas á hverjum stað, ásamt drykkjum. Við létum okkur þó nægja að setjast niður utandyra á einum stað og svo var pantaður fjöldi tapasrétta á borðið til að deila.

Daginn eftir fóru blaðamenn að tínast til síns heima en undirrituð var svo heppin að ekki fannst flug heim fyrr en næstum tveimur dögum síðar. Aukadagarnir tveir voru nýttir til að liggja á ströndinni og skoða hvað væri að sjá fyrir utan bæinn.

Jeppasafarí í fjöllunum

Margt er að sjá í nágrenni við Benidorm. Frá Benidorm er stutt í fallega litla bæi, eins og Altea, sem vel er hægt að mæla með að skoða. Þar í gamla bænum eru hvítmáluð og lágreist hús í röðum og gaman að rölta eftir þröngum götum, kíkja í litlar sætar búðir eða setjast á kirkjutorgið og fá sér að snæða eða einn drykk. Útsýnið er dásamlegt, enda stendur elsti hluti bæjarins hátt yfir sjávarmáli.

Í bænum Altea er gaman að rölta um sætar göturnar.
Í bænum Altea er gaman að rölta um sætar göturnar.

Marc og Kathelin, hjón frá Belgíu, mættu galvösk á opnum safaríjeppa á hótelið að sækja Íslendinginn og einn Norðmann snemma morguns. Marc á og rekur ferðafyrirtækið Marco Polo sem sérhæfir sig í ferðum af ýmsu tagi en einnig leigir hann út vespur og hjól. Hægt er að fara með honum í bátsferðir, á jetski, á kajak, í paintball, í paragliding eða í það sem hann kýs að kalla jeppasafarí.

Marco Polo er fyrirtæki sem býður upp á fjölbreyttar ferðir …
Marco Polo er fyrirtæki sem býður upp á fjölbreyttar ferðir og ævintýri, til að mynda jeppasafarí sem margir Íslendingar hafa farið í hjá eigandanum Marc frá Belgíu.

„Ég hef fengið 3.500 íslenska kúnna og þeir hafa gaman af jeppasafaríi,“ segir Marc kankvís en hann kann að segja íslenska orðið jeppasafarí.

Við komum okkur fyrir í þessum opna Land Rover og brunuðum út úr bænum. Leið okkar lá út í náttúruna og upp í fjöllin. Fyrsta stopp var í Relleu, litlu þorpi þar sem við kíktum inn í eins konar þjóðminjasafn. Gaman var að fá leiðsögn nokkurra gamalla manna sem unnu þar í sjálfboðavinnu og vissu allt um lifnaðarhætti fyrri tíma.

Krúttbær í fjöllunum

Þaðan lá leiðin lengra upp í fjöllin, þar sem vegir voru aðeins færir jeppum, en á leiðinni mátti sjá marga hjólreiðakappa í spandex-göllum, púlandi sveitta upp brekkurnar. Við keyrðum yfir fjallgarðinn og fengum dásemdarhádegisverð í Benimantell áður en við héldum í krúttlegan fjallabæ, Guadalest. Sá bær er nokkuð þekktur ferðamannabær, en hann stendur hátt og er útsýnið þaðan stórfenglegt. Þar má finna máravirki frá 8. öld sem byggt er á kletti í 900 metra hæð yfir sjávarmáli.

Útsýnið frá Guadalest er guðdómlegt.
Útsýnið frá Guadalest er guðdómlegt.

Næst lá leiðin að Algar-fossunum sem þykja mjög fallegir. Hægt er að synda þar í lóni en vegna mikilla vatnavaxta undanfarið þótti það ekki ráðlegt. Eftir kaffistopp var degi tekið að halla og haldið heim á leið á hótelið. Þar beið ferðataskan, því nú var mál að bruna til Alicante og fljúga heim í rigningu og sex stiga hita.

Algar-fossar trekkja að ferðamenn, enda fallegir þó þeir séu ekki …
Algar-fossar trekkja að ferðamenn, enda fallegir þó þeir séu ekki stórir.

Nánar má lesa um Benidorm í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert