Rekinn fyrir að drekka um borð

Flugvél Ryanair.
Flugvél Ryanair. AFP/OliScraff

Flugliði var handtekinn og rekinn eftir að hafa neytt áfengis um borð í flugvél Ryanair. Atvikið náðist á myndband og því góð sönnunargögn til staðar gegn manninum. Starfsmaðurinn var aftast í vélinni að drekka með farþega.

Farþegi í fluginu frá Rzezow í Póllandi til London sagðist hafa tekið upp myndband af honum drekka vín og viskí. Farþeginn sem vill ekki koma fram undir nafni sagði í viðtali við The Sun að maðurinn hefði verið drukkinn og hefði líklega verið að drekka fyrir flugið líka.

„Þegar ég bað hann um að fá að tala við flugstjórann varð hann alveg brjálaður,“ segir myndatökufarþeginn. 

Ryanair greinir frá því að systurfyrirtæki félagsins, Lauda Europe, hafi stjórnað þessu flugi. Félagið staðfestir einnig að atvikið hafi átt sér stað 18. maí og að flugliðinn hafi verið rekinn fyrir atvikið. 

mbl.is