Leigðu út íbúðina og seldu bílinn

Magnús Ófeigur Gunnarsson og Eva Lind Weywadt Oliversdóttir eru á …
Magnús Ófeigur Gunnarsson og Eva Lind Weywadt Oliversdóttir eru á leiðinni í langt draumaferðalag í sumar. Hér eru þau í fjallgöngu á eyjunni Kauai sem tilheyrir Havaí. Ljósmynd/Aðsend

Eva Lind Weywadt Oliversdóttir er á leiðinni í langþráð sjálfboðaliðastarf til Fiji-eyja í sumar. Fyrir ekki svo löngu ákvað Magnús Ófeigur Gunnarsson, sambýlismaður Evu, að skella sér með konunni sinni. Parið ævintýragjarna er búið að leigja út íbúðina sína, selja bílinn og veit ekki hvenær það kemur heim aftur. 

Eva er að fara að hjálpa hákörlum í sjálfboðaliðastarfinu og á meðan ætlar Maggi að njóta lífsins á Fiji. Eva bókaði og borgaði ferðina fyrir nokkrum árum en síðan þurfti að fresta henni vegna heimsfaraldurs. „Við erum búin að vera að skipuleggja þetta heillengi. Við ætluðum að hafa það þannig að ég færi út í þrjá mánuði þegar við fyndum tíma fyrir það og hann ætlaði að kíkja á mig í lok verkefnisins,“ segir Eva. Með breyttri heimsmynd breyttust áætlanirn og í júní eru þau að fara saman út. 

Vinna til að ferðast

„Allt sem leggjum fyrir fer í ferðalög. Við erum ekki að safna okkur fyrir neinu sérstöku. Við erum bara að safna okkur fyrir ferðalögum. Þegar ég var búin að fá vilyrði frá kallinum að eyða ferðasjóðinum í þetta, þá var þetta bara bókað,“ segir Eva og bætir við að maðurinn hennar hafi farið til Las Vegas í staðinn. 

Ferðalög og góðar stundir eru í algjörum forgangi hjá parinu. Eva segir að hún hafi gert Magga sínum strax grein fyrir hvar hjarta hennar slægi. „Ég tilkynnti strax að það væri ekki hægt að halda mér á sama staðnum lengi. Hann myndi líklega ekki hanga í þessu sambandi lengi. Við vorum búin að vera saman í þrjá mánuði og þá var ég farin út í nám í hálft ár,“ segir Eva en Maggi fór ekki neitt. Þau hafa meðal annars farið til Mexíkó, Belís og Havaí saman. Þau leggja hins vegar af stað í sitt stærsta og lengsta ferðalag til þessa eftir nokkrar vikur. 

Veraldlegir hlutir skipta Evu og Magga litlu en það vottaði þó aðeins fyrir því í kórónuveirufaraldrinum viðurkennir Eva. „Nú get ég ekki meir, ég kemst ekki í sund, mig vantar heitan pott, ég verð að eignast garð,“ segist Eva hafa hugsað með sér í faraldrinum. „Við erum með garð en búum í risi í þriggja hæða húsi. Við skoðuðum það alveg. En ábyrgðin heldur alltaf aftur af mér. Ég nenni ekki að hafa eitthvað á herðunum sem á mig og tjóðrar mig niður. Hingað til hef ég yfirleitt unnið til að ferðast. Ég er ekki að vinna til þess að halda lífi í einhverjum krakkagemlingum,” segir Eva og hlær.

Maggi og Eva í hestaferð á Big Island á Havaí.
Maggi og Eva í hestaferð á Big Island á Havaí. Ljósmynd/Aðsend

Fékk kærastann til þess að stökkva með

Eva sagði upp vinnunni til þess að fara út. „Ég er ekki á launum úti af því ég á ekkert sumarfrí inni. Þetta er líka lengri tími en við ætluðum að vera því við ætlum að fara saman út. Þess vegna varð ég að segja upp vinnunni. Við erum bæði að fara út atvinnulaus,” segir Eva. Maðurinn hennar var á milli starfa og Eva fékk hann til að stökkva á tækifærið og koma frekar með henni út í stað þess að byrja í nýju starfi.

Upphaflega ætlaði Eva að taka út nokkurra ára sumarfrí sem hún var búin að geyma. Að loknu þriggja mánaða sjálfboðaliðastarfi ætlaði hún að mæta aftur í vinnuna. Þegar hún þurfti að fresta ferðinni sá hún að það gekk ekki upp að sleppa því að taka sumarfrí í mörg ár. „Ég gafst upp á því af því það er alveg glatað fyrir heilsuna,” segir Eva. 

„Við leigjum út íbúðina okkar þannig að við erum ekki með neinn kostnað hérna heima. Við erum búin að selja bílinn og ætlum líklega að selja bæði mótorhjólin og kannski kajakinn. Þá er voða lítið sem heldur okkur hérna heima. Áður vorum við með dýr, þess vegna gátum við ekki farið bæði í svona langan tíma saman, en svo misstum við hundinn okkar og köttinn okkar á tveimur árum í Covidinu. Við erum alein í kotinu.“

Kafað með hákörlum á Havaí.
Kafað með hákörlum á Havaí. Ljósmynd/Aðsend

Hákarlar eru misskildar skepnur

Eva er að fara að vinna með hákörlum á Fiji. Hún fann sjálfboðaliðastarfið á vefsíðunni My Projects Abroad. Hún segir að á síðunni sé hægt að finna ýmiss konar hjálparstörf þar sem fólk getur meðal annars unnið með dýrum, börnum eða unnið að uppbyggingu á ákveðnum svæðum. 

Eva segir að flest verkefnin snúist um að bjarga krúttlegum dýrum en hún ákvað að velja eitthvað allt annað. „Ég elska dýr. Hákarlar eru misskildar skepnur og ótrúlega illa liðnir miðað við hvað þeir eru misskildir. Ég þarf að standa með minnihlutahópnum,” segir Eva og hlær. „Ég hef voðalegan áhuga á skepnum sem mér finnst hafa slæmt orð á sér og mér finnst ekki eiga það skilið,“ segir hún og nefnir úlfa sem dæmi um það. 

Eru hákarlar í hættu?

„Þeir eru í svakalegri hættu. Nánast öll Asía er að veiða þá til að búa til einhverja súpu og lýsistöflur. Þegar verið er að veiða þá í súpuna er þeir bútaðir niður lifandi og hræjunum hent út fyrir, þar sem þeir draga nánast enn andann. Það er ógeðslegt hvernig farið er með þá. Það er svakaleg rýrnun í stofninum,“ segir Eva. 

Hlutverk Evu í sjálfboðaliðastarfinu er meðal annars að fylgjast með hegðun hákarla, telja þá og merkja. Hún gerir einnig ráð fyrir að það þurfi að sinna gróðrinum þar sem hákarlarnir halda til. Það þarf til að mynda að tína rusl og gróðursetja nýjar plöntur.

Kafað á Havaí.
Kafað á Havaí. Ljósmynd/Aðsend

Eva gerir ráð fyrir að kafa mikið úti en hún er vanur kafari. „Ég er sjálf búin að vera björgunarsveitakafari á Íslandi síðan 2000 eða svo. Það er allt annað sport. Þar kafar maður í öðrum búnaði og við allt aðrar aðstæður. Svo byrjaði ég að kafa erlendis og hef kafað með hákörlum áður. Í fyrsta sinn sem ég kafaði með hákarli fannst mér áhugaverðast að sjá hvernig ég brást við í vatninu. Hversu spennandi, hversu agalegt og hversu mikið adrenalín ég fékk út úr því,” segir Eva sem er þó ekki hrædd við þessar stóru skepnur. Henni finnst gaman að sjá hvað hún getur og hvar mörk hennar liggja. Eva segir að fyrst og fremst þurfi kafarar að bera virðingu fyrir neðansjávardýrum og muna að þeir séu gestir í heimkynnum þeirra.

Þetta kemur allt í ljós“

Ferðin verður löng ef allt gengur upp. Auk þess að sinna sjálfboðaliðastarfinu stefnir Eva á að auka við kafararéttindin sín svo hún geti kennt öðrum köfurum og þjálfað þá. Manninn hennar langar einnig að bæta við réttindin sín.

„Við ætlum að byrja á því að ferðast sjálf um eyjuna til að kanna umhverfið. Svo byrja ég að vinna og þá er hann með gistingu í tíu daga í herbergi hjá eldri dömu í heimahúsi. Ég verð náttúrlega í fríu húsnæði og uppihaldi hjá vinnuveitenda mínum þannig við erum ekki einu sinni að fara að gista á sama stað. Þetta kemur allt í ljós. Hann hefði getað bókað gistingu lengur en ég yfirleitt ferðast þannig að hlutirnir ráðast og ævintýrin skapast með því að skipuleggja ekki of mikið,“ segir Eva um fyrsta hluta ferð þeirra Magga.

Eva með Möggu vinkonu sinni að kafa í Panama.
Eva með Möggu vinkonu sinni að kafa í Panama. Ljósmynd/Aðsend

Þau ætla að reyna að vera úti eins lengi og þau geta. Eva eru búin að hugsa út í allt. „Við ætlum bara að borða hrísgrjón til að geta verið í sex mánuði. Við komum ekki heim fyrr en allavega eftir sex mánuði. Ég er búin að lofa leigjandanum að ég komi ekki og búi hjá honum blönk. Okkur langar að vera í að minnsta kosti ár, það væri draumurinn. Mér finnst óþarfi að skipuleggja hvert við förum. Mig langar að sjá Ástralíu og Nýja-Sjáland, fyrst við verðum komin svona sunnarlega,“ segir Eva. Hún bendir þó á að verðlag sé hátt í Eyjaálfu og gerir því ekki ráð fyrir löngum tíma þar. 

Þau sjá fyrir sér að fara kannski til Indónesíu, þar sem ódýrara er að lifa. Þau gætu jafnvel farið í sjálfboðaliðavinnu. „Þá færðu kannski mat og húsnæði. Gistingin er oft dýrust. Í sjálfboðaliðavinnu hefur þú eitthvað að gera við tímann og hefur líka frítíma til að njóta og skoða. Þá kynnist þú líka frekar heimafólki en þegar þú ert ferðamaður á hótelum,” segir Eva sem vill ekki endilega vera inni í stórborgum.

Eva gerir ráð fyrir að fara út með fjórar milljónir og vonar að peningarnir dugi þeim. Hún segir að margir hugsi hvað þau ætla að gera þegar þau koma aftur heim og búin með alla peningana. Hún hefur hins vegar engar áhyggjur. Hún segist aldrei hafa átt erfitt með að fá vinnu og tekur fram að hún sé alls ekki vandlát þegar kemur að störfum.

Eva og Maggi ætla að setja inn myndbönd á Youtube-rás sína en þar eru fyrir gömul myndbönd frá eldri ferðalögum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert