AirTag uppseld í verslunum

AirTag eru uppseld í flestum verslunum þar sem Apple-vörur eru …
AirTag eru uppseld í flestum verslunum þar sem Apple-vörur eru seldar á Íslandi.

Það geta ekki margir leikið sama leik á ferðalögum og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og merkt farangurinn sinn með AirTags. AirTag eru nú uppseld í flestum verslunum á Íslandi en Katrín Aagestad Gunnarsdóttir, markaðsstjóri Nova, segir að Nova hafi fundið vel fyrir auknum áhuga á AirTags í dag. 

AirTags er staðsetningarbúnaður sem tengist við iPhone og geta notendur þá séð hvar merktir hlutir eru. Áslaug Arna sýndi frá því um helgina hvernig hún notaði merkin og vissi samstundis að taska hennar á leið heim frá Tenerife var ekki á leiðinni heim með henni.

„Þegar svona góð ráð dúkka upp þá finnum við alltaf fyrir því, bæði í sölunni og fyrirspurnum í verslunum, þjónustuveri og á netspjallinu á nova.is. Þetta er náttúrulega snilldarráð og upplagt að nota tæknina til að tapa ekki töskunum, bíllyklunum eða öðrum hlutum sem eiga það til að stinga mann af,“ segir Katrín spurð hvort þau hafi fundið fyrir auknum áhuga.

Séu allar helstu vefverslanir þar sem Apple-vörur eru seldar á Íslandi skoðaðar kemur í ljós að AirTag eru uppseld.

Katrín sagðist ekki vita hvenær næsta sending kæmi til landsins. „Við bíðum spennt eftir að næsta sending lendi hjá okkur og munum auðvitað láta vita svo ferðaglaðir geti haft augun á farangrinum,“ segir Katrín

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert