Skildu við hótelherbergið eins og vettvang glæps

Sviðsettu líkin sem hrekkjalómarnir formuðu inni á hótelherbergi.
Sviðsettu líkin sem hrekkjalómarnir formuðu inni á hótelherbergi. Skjáskot/TikTok

Danskur TikTok-notandi, Gregers Federspiel, hefur hlotið harðlega gagnrýni á miðlinum fyrir myndskeið sem hann birti á dögunum. Myndbandið sýnir hvernig Federspiel gengur frá sængum og koddum með fremur ógnvekjandi hætti áður en hann yfirgefur hótelherbergi.

„Hvernig við yfirgefum hótelherbergi,“ skrifaði Federspiel við myndskeiðið sem sýnir hann og herbergisfélaga hans forma sængurfatnað hótelherbergisins þar til hann líktist tveimur líkum.

Félagarnir tróðu sængum og koddum inn í sængurver og vöfðu símasnúru utan um „hálsinn“ á sviðsettu líkunum. Hótelherbergið tók skyndilega að líta út eins og hrollvekjandi vettvangur morðs. Fréttamiðillinn Daily Star greindi frá. 

Flestum TikTok-notendum fannst hrekkurinn fyndinn en hann féll þó ekki í kramið hjá öllum. Þá einna síst hjá hótelstarfsmönnum sem létu Federspiel fá það óþvegið í athugasemdum við myndskeiðið. Enda kannski ekki skemmtileg tilhugsun, né upplifun, að ganga inn á herbergi sem dulbúið hefur verið með þessum hætti. Tilhugsinin ein fær hár margra til að rísa miðað við athugasemdirnar sem ritaðar hafa verið.  

Federspiel er afar vinsæll TikTok-notandi í Danmörku, búsettur í Kaupmannahöfn. Hafa um það bil 42,3 milljónir manna horft á myndskeiðið þegar þetta er skrifað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert