Svona hugsar þú um húðina í flugi

Ljósmynd/Pexels/Sora Shimazaki

Það kannast flestir við þurra og gráleita yfirbragðið sem kemur á húðina eftir flug. Þau sem vilja mæta fersk og ljómandi á áfangastað geta þó tekið nokkur skref til að lífga upp á húðina. Snyrtifræðingurinn Anita Bhagwandas tók saman fimm einföld ráð um húðumhirðu í flugi og deildi með lesendum Condé Nest Traveller.

1. Slepptu farðanum og þvoðu andlitið

„Rútínan mín er þannig að ég tek alltaf af mér farðann og þvæ andlitið, annað hvort rétt áður en ég fer um borð eða um leið og ég er komin um borð. Ég nota góðan hreinsi sem fjarlægir farða og kemur jafnvægi á sýrustig húðarinnar. Það getur raskast vegna loftslagsins um borð, og hreinsirinn skolar einnig í burtu óhreinindi,“ útskýrir snyrtifræðingurinn. 

2. Settu mikinn raka á húðina

Þegar húðin er orðin hrein er mikilvægt að gefa henni góðan raka. „Þá er gott að nota serum með hyaluronic-sýru sem heldur miklum raka í húðinni og viðheldur heilbrigðri frumustarfsemi,“ segir snyrtifræðingurinn.

Því næst mælir hún með góðu andlitskremi til þess að innsigla rakann. Hún bendir á að einnig sé hægt að nota rakagefandi andlitssprey. Þar að auki getur verið gott að hafa bóluplástra með sér til að minnka bólgur sem fylgja bólum. 

3. Ekki gleyma sólarvörninni

„Í 30.000 fetum erum við nær ósonlaginu sem þýðir að sólargeislarnir verða ansi öflugir, sérstaklega ef þú situr í gluggasæti,“ segir hún. Sjálf notar hún alltaf sólarvörn í andlitið, en ef hún er í gluggasæti notar hún bæði handáburð og varasalva með sólarvörn í. 

4. Láttu eins og þú sért í heilsulind

„Heilsulind er ekki bara staður heldur hugarfar. Þú getur gert flugið þitt að lítill heilsulind með því að nota rakagefandi maska og góð krem og olíur,“ útskýrir snyrtifræðingurinn. „Þú getur jafnvel skellt þér í mýkingarmeðferð fyrir fæturna með góðu fótakremi,“ bætir hún við.

5. Hugaðu að því sem þú borðar og drekkur

Líkaminn okkar tapar miklu vatni í flugi og því þurfum við að passa upp á að drekka nóg af vatni til að viðhalda heilbrigðri húð og líkamsstarfsemi. „Það að drekka áfengi eða borða saltað snarl um borð þurrkar okkur enn meira upp,“ útskýrir snyrtifræðingurinn. Hún sagði það góða reglu að drekka eitt vatnsglas fyrir hvern áfengan drykk. 

„Ég tek með mér margnota flösku og forðast sætindi um borð með því að taka með mér próteinstykki í nesti,“ bætir hún við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert