Lentu á rangri Kanaríeyju

Parið ætlaði að verja fjórum dögum á Gran Canaria.
Parið ætlaði að verja fjórum dögum á Gran Canaria. Ljósmynd/Unsplash

Breskt par segir að það hafi tekið þau 36 klukkustundir að komast á réttan áfangastað eftir að flugfélagið Ryanair „lenti á rangri Kanaríeyju“. 

Martyn Gray og Emma Gatenby flugu frá Newcastle-flugvelli og ætluðu sér í fjögurra daga frí á Gran Canaria hinn 25. september síðastliðinn. Stutt sólarfrí þeirra varð enn styttra þegar flugvélin lenti ekki á Gran Canaria heldur Lanzarote. 

Parið segir í viðtali við Northern Echo að veðurskilyrðin hafi verið slæm, en að vélin hafi hringsólað í óveðrinu í kringum Gran Canaria áður en ákveðið var að lenda á Lanzarote. Um 140 flugferðum var aflýst þennan tiltekna dag eftir að rauð veðurviðvörun var gefin út fyrir Kanaríeyjar. 

Gray og Gatenby segja enn fremur að flugfélagið hafi ekki aðstoðað farþega við að komast sem fyrst á tilætlaðan áfangastað. „Við þurftum að lenda á Lanzarote og flugliðarnir okkar sögðu okkur að sækja töskurnar okkar eins og venjulega. Svo voru allir að komast að hjá Ryanair til að spyrja hvað væri í gangi, en þau gátu engu svarað. Það var bara ringulreið þarna, það var mikið af eldra fólki og barnafólk þarna líka,“ sagði parið í viðtalinu. 

Frá Lanzarote.
Frá Lanzarote. Ljósmynd/Unsplash

Að lokum var þeim sagt að fara í rútur sem myndu fara með farþegana niður að höfn til þess að fara í ferju. Ryanair greiddi fyrir hótel á Lanzarote en farþegar áttu þó erfitt með að fá góðar upplýsingar um dvölina. 

Þau enduðu svo á því að fara með ferju sem stoppaði fyrst á Fuerteventura áður en þau komust loks til Gran Canaria. Því fór svo að Gray og Gatenby náðu aðeins að eyða tveimur dögum á Gran Canaria.

mbl.is