Ingó hefur rölt um Róm í 26 ár

Ingó er á heimavelli Róm enda hefur hann eytt síðustu …
Ingó er á heimavelli Róm enda hefur hann eytt síðustu áratugum í að kynna borgina fyrir Íslendingum.

Ingólfur Níels Árnason hefur búið og starfað í Róm á Ítalíu vel á þriðja áratug. Hann flutti fyrst til Ítalíu haustið 1994 til að fara í skóla og þá var ekki aftur snúið. Ingólfur röltir nú um borgina með hvern Íslendinginn á fætur öðrum og hefur gengið það sem samsvarar tveimur hringjum í kringum Ísland síðan síðasta vor. 

„Ég kom fyrst til Ítalíu haustið 1994 og fór í Ítölskunám við Universitá di stranieri í Perugia í Úmbría-héraðinu og flutti svo til Rómar 1995 þegar ég komst inn í ítölsku leiklistarakademíuna, Accademia Nazionale D’arte Drammatica „Silvio D-Amico“ þar sem, ég var í fjögur ár að læra leikstjórn,“ segir Ingólfur.

Hvað var það fyrsta sem heillaði þig við Róm?

„Hvað hún er tímalaus, hvernig fortíðin er áþreifanleg og allar sögurnar sem leynast á hverju götuhorni.“

Ljósmynd/Ingólfur Níels Árnason

Hvenær byrjaðir þú að leiðseigja fólki um borgina?

„Ætli það hafi ekki byrjað haustið 1996 þegar Samvinnuferðir Landsýn buðu upp á borgarferð til Rómar í tilefni af opinberri heimsókn forseta íslands til Ítalíu, en ég hafði unnið fyrir þau í innanlands deildinni um sumarið þar sem ég fór með ítalska ferðamenn í hringferð um Ísland.“

Ljósmynd/Ingólfur Níels Árnason

Hvernig kom til að þú fórst að leiðseigja fólki um aðrar borgir?

„Ég var fararstjóri hjá Samvinnuferðum á sumrin í Rimini og þaðan fór ég með Íslendinga í skoðunarferðir til Feneyja, Flórens, San Marino og Rómar. Einnig hef ég farið með Íslendinga í hringferð um Sikiley.“

Það er nóg að nóg að gera hjá Ingólfi og síðan síðasta vor hefur hann til dæmis gengið meira en 2.600 kílómetra um Róm, en það samsvarar því að ganga um tvo hringi í kringum Ísland. 

Ljósmynd/Ingólfur Níels Árnason
Ljósmynd/Ingólfur Níels Árnason

Hlutirnir taka sinn tíma á Ítalíu 

Lífið í Róm og á Íslandi er margt um ólíkt segir Ingólfur. Hann tekur dæmi um að hlutirnir geta tekið sinn síma á Íslandi, sem er bæði jákvætt og neikvætt að hans mati. „Ítalir eru einstaklega hæfileikaríkir að lifa í núinu og að njóta augnabliksins. Sem dæmi að drekka kaffi (espresso) á Ítalíu tekur langan tíma þótt þú setjist ekki niður, stendur bara við barborðið og kaffið er ákaflega lítið því allt þetta félagslega svo stór hluti af öllu,“ segir Ingólfur. 

Hann segir Hringleikahúsið, Keisaratorgin, Trevi-gosbrunninn og Péturskirkjuna vera staði sem fólk megi ekki láta fram hjá sér frama. „En ég mæli með að fara líka inn í Pantheon-hofið og taka smá göngutúr upp á Aventino-hæðina.“

Ljósmynd/Ingólfur Níels Árnason

Spenntastur fyrir óvissuferðum

Matarmenning Ítalíu er eitt af því sem dregur milljónir ferðamanna til landsins á hverju ári. Í Róm er sannarlega hægt að finna góðan mat eins og víða annars staðar. Ingólfur segir Trastavere-hverfið vera besta hverfið til að finna góðan mat. „Það er einstaklega skemmtilegt hverfi fullt af veitingastöðum og börum og kaffihúsum,“ segir Ingólfur. 

Ljósmynd/Ingólfur Níels Árnason
Ljósmynd/Ingólfur Níels Árnason

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Ítalíu?

„Lago di Bracciano er stöðuvatn sem er um 35 km frá Róm og er algjör náttúruperla, sem við fjölskyldan eyðum frídögum okkar við. Einnig er Sikiley í miklu uppáhaldi hjá mér.“

Hvernig ferðalögum ert þú hrifnastur af?

„Ég er mest spenntur fyrir óvissuferðum þar sem ekki er mikið skipulagt, helst nálægt sjó eða vatni.“

Nú flykkjast Íslendingar í frí til Ítalíu, en hvert ferð þú sjálfur í frí?

„Ef ég fer í eitthvað frí þá er það helst um jólin til Íslands.“

Ljósmynd/Ingólfur Níels Árnason
Ljósmynd/Ingólfur Níels Árnason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert