Tók tuttugu mínútur að komast í frí

Stundum þarf ekki að ferðast langt til þess að komast …
Stundum þarf ekki að ferðast langt til þess að komast í gott frí. Unsplash.com/Ben O Bro

Ef hversdagslífið er farið að draga úr manni allan kraft þá gæti svokallað heimafrí (e. staycation) verið málið. Með þeim hætti er hægt að upplifa nærumhverfið með nýjum augum.

„Um síðustu helgi pakkaði ég niður í ferðatösku og fór í tuttugu mínútna langt ferðalag,“ segir Cassandra Green í pistli sínum á Body&Soul. 

„Þessi ákvörðun varð til þess að ég lærði betur að meta borgina sem ég bý í.“

„Ég bókaði mér hótelherbergi við hafið nálægt miðbænum. Það var góð tilfinning að dvelja á hóteli þar sem er vítt til veggja og allt svo hreint og fínt. Það fyrsta sem ég gerði var að stökkva upp í rúmið.“

„Á meðan dvölinni stóð lagði ég áherslu á að huga að eigin vellíðan. Ég byrjaði hvern dag á að hugleiða og fara í ræktina á hótelinu. Svo var morgunverðarhlaðborðið fullt af fjölbreyttum mat og ég valdi mér ávexti og múslí. Loks nýtti ég mér vel allt það sem var boðið upp á í heilsulind hótelsins, fór í nudd og andlitshreinsun. Þar sem ég eyddi engu í ferðakostnað þá gat ég eytt meiru í sjálfa mig.“

„Ég fór út að borða, kíkti á tónleika og lifði lífinu. Það besta við svona frí er að vinir manns eru alltaf nálægt og maður getur skemmt sér konunglega með þeim í fríinu sínu.“

„Það sem ég græddi mest á þessu fríi var að rifja upp alla þá skemmtilegu staði sem hægt er að heimsækja í heimaborg sinni. Ég nýtti mér fjölmargt sem yfirleitt aðeins túristar fara í. Ég fór í siglingu, skoðunarferðir og göngutúra og naut þess mjög. Ég í raun varð ástfangin af staðnum alveg upp á nýtt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert