48 tímar í San Francisco

San Francisco er skemmtileg borg stútfull af karakter og menningu.
San Francisco er skemmtileg borg stútfull af karakter og menningu. Ljósmynd/Unsplash/Eric Ward

San Francisco er stórskemmtileg borg staðsett í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Það er ekki erfitt að verða hugfanginn af borginni enda er hún stútfull af karakter, menningu og arkitektúr.

Það gæti reynst yfirþyrmandi að velja úr þeim fjölmörgu stöðum sem gaman er að heimsækja í borginni og því tók ferðavefur mbl.is saman leiðarvísi yfir það sem þú mátt alls ekki missa af þegar þú heimsækir San Francisco.

Að gera

Golden Gate-brúin

Þessa brú kannast flestir við enda eitt helsta kennileyti San Francisco og Kaliforníu. Brúin liggur yfir Golden Gate-sundið þar sem San Francisco-flói og Kyrrahafið mætast. 

Brúin var smíðuð árið 1937 og var á þeim tíma lengsta hengibrú veraldar, en í dag er sú áttunda lengsta. Það er ómissandi að ganga eða hjóla yfir brúna sem er um 2,7 km að lengd.

Ljósmynd/Unsplash/Joshua Earle

Alkatraseyja 

Í San Francisco-flóa er að finna Alkatraseyju sem áður var notuð sem virki af hernum og sem hámarksöryggisfangelsi. Eyjan býr yfir merkri sögu og er í dag opin ferðamönnum.

Að heimsækja fangelsi er kannski ekki það fyrsta sem ferðalöngum dettur í hug að gera í fríinu sínu, en fangelsið á Alkatraseyju er hins vegar ekkert venjulegt fangelsi. Það er eitt frægasta fangelsi Bandaríkjanna og hýsti eitt sinn glæpamanninn Al Capone.

Ljósmynd/Unsplash/Luke Mummert

Að skoða

San Francisco Museum of Modern Art

Nútímalistasafnið í San Francisco er með flottustu söfnum borgarinnar. Það er mikil upplifun að fara á safnið sem býður upp á nýstárlegar og spennandi sýningar, en þar að auki þykir byggingin sem hýsir safnið afar merkileg.

Ljósmynd/Unsplash/Matteo Di lorio

Pier 39

Bryggjan er vinsæll áfangastaður fyrir alla fjölskylduna, en þar hafa hundruðir krúttlegra sæljóna komið sér vel fyrir og skemmta ferðalöngum. Fyrir nokkrum árum síðan voru hundruðir sæljóna sem tóku yfir bryggjuna og hröktu sjómenn í burtu.

Ljósmynd/Sfmoma.org

Matur og drykkur

Cavaña

Á 17. hæð Luma-hótelsins finnur þú sjarmerandi þakbar sem býður ekki einungis upp á glæsilega kokteila og drykki heldur einnig töfrandi útsýni yfir borgina og flóann. Það er tilvalið að enda góðan dag í San Francisco á barnum.

Ljósmynd/Cavanasf.com

Gusta Pinsa Romana

Fallegur veitingastaður sem býður upp á svokallaða Pinsu sem er frábrugðin hinni hefðbundnu pítsu að því leytinu að botninn er búinn til úr blöndu af sojahveiti, hrísgrjónahveiti og venjulegu hveiti sem gerir hann næringarríkari. Þá er deigið einnig gerjað í allt að 72 klukkustundir og bakað við lægra hitastig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert